Rannveig Jóna Traustadóttir fæddist 1. október 1927. Hún lést 3. janúar 2018.

Útför Jónu fór fram 13. janúar 2018.

Nú vantar tón í lífsins lag,

og leiði í sálu minni,

því kærleiksríka konu í dag,

við kveðjum hinsta sinni.

Í hjarta myndir lifa læt,

af ljúfmennsku og hlýju,

og vonast til að minning mæt,

móti hljóm að nýju.

(EK)

Elsku hjartans amma Jóna, nú er komið að kveðjustund og hana ber að þakka. Þú hafðir lokið þínu og varst meira en tilbúin til samfunda við pabba þinn og mömmu, Kristján og allt hitt fólkið þitt sem var þér svo kært. Þú hefur fylgt mér meira en hálfa ævi mína þar sem ég var svo lánsöm að eignast þig að ömmu þegar við Atli fórum að rugla saman reytum. Frá fyrsta degi þegar ég hitti þig varstu fyrir mér ofuramma. Þú hélst utan um hópinn þinn með þínum stóra faðmi og alltaf var hann opinn fyrir stóra sem smáa, og á þessu heimili varstu fyrir okkur öllum amma Jóna. Það er sko margs að minnast, þú varst bóndi og húsmóðir fram í fingurgóma. Alltaf fylgdistu vel með öllu sem við vorum að brasa í búskapnum, vildir vita hvað var verið að stússa og jafnvel hvort ekki væri örugglega verið að vinna eitthvað, því ekki mátti falla verk úr hendi. Þú sast aldrei með hendur í skauti, ýmist voru það prjónarnir, heklunálin, útsaumur já eða baksturinn, allur baksturinn. Sunnudagskaffið þitt þar sem fjölskyldan þín kom saman voru þér og okkur öllum dýrmætar stundir. Alltaf var hlaðið veisluborð með mörgum sortum, jafnvel nýjum því þér þótti nú ekki leiðinlegt að prófa nýjar uppskriftir. Bílferðirnar okkar saman voru ekki fáar, þótt þú vildir nú aldrei láta hafa fyrir þér varstu ekki með bílpróf og því var ég svo heppin að fá að rúnta með þig, það var dásamlegt, því þakklætið og ánægjan frá þér létu ekki á sér standa.

Ástarþakkir fyrir allt og allar yndislegu stundirnar okkar elsku Jóna mín. Ég elska þig.

Þín

Klara.

Elsku amma Jóna. Ástarþakkir fyrir af vera alltaf til staðar fyrir okkur, það var gott að geta rölt niður brekkuna og fengið ís og kóngamola upp í sig. Þú varst einstök amma sem við munum aldrei gleyma.

Í bænum okkar, besta amma

biðjum fyrir þér

að Guð sem yfir öllu ræður,

allt sem veit og sér

leiði þig að ljóssins vegi

lát' þig finna að,

engin sorg og enginn kvilli

á þar samastað.

Við biðjum þess í bænum okkar

bakvið lítil tár,

að Guð sem lífið gaf og slökkti

græði sorgarsár.

Við þökkum Guði gjafir allar

gleði og vinarfund

og hve mörg var ávallt með þér

ánægjunnar stund.

(Sigurður Hansen)

Friðrik Andri, Aníta Ýr

og Trausti Helgi.