[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rúnar Gíslason fæddist í Reykjavík 20.1. 1948 og ólst upp í Hólmgarði í Bústaðahverfinu. Hann var sjö sumur í sveit á Skógum á Fellsströnd. „Þar bjuggu bræðurnir Áskell og Sigmundur Jóhannssynir, ásamt móður sinni, Júlíönu Sigmundsdóttur.

Rúnar Gíslason fæddist í Reykjavík 20.1. 1948 og ólst upp í Hólmgarði í Bústaðahverfinu. Hann var sjö sumur í sveit á Skógum á Fellsströnd.

„Þar bjuggu bræðurnir Áskell og Sigmundur Jóhannssynir, ásamt móður sinni, Júlíönu Sigmundsdóttur. Þarna var gott að vera og gaman að ná í skottið á gamla tímanum. Rafmagn kom ekki á Fellsströndina fyrr en á áttunda áratug síðustu aldar. Þar voru því olíulampar, koksvél til að elda á og ofn til húshitunar sem brenndi kolum og timbri. Fjósið var torffjós. Að vísu var ein forláta dráttarvél á bænum en auk þess var slegið með hestasláttuvél. Maturinn var óneitanlega svolítið einhæfur og varla fiskur nema saltfiskur. En þarna réð sómafólk húsum og þarna leið manni vel.“

Rúnar gekk í Breiðagerðisskóla, Réttarholtsskóla, stundaði nám við MR, lauk stúdentsprófi þaðan 1968 og prófi í dýralækningum frá Dýralæknaháskólanum í Hannover vorið 1976.

Að námi loknu vann Rúnar í tvö og hálft ár í Þýskalandi og leysti af í eitt ár á Egilsstöðum áður en hann tók við meginstarfi sínu sem héraðsdýralæknir á Snæfellsnesi, en því embætti gegndi hann í rúm 30 ár.

Rúnar sat í bæjarstjórn í Stykkishólmi í 12 ár og var forseti bæjarstjórnar í 11 ár. Á þeim tíma var hann stjórnarformaður í heilbrigðisnefnd Vesturlands, safnanefnd Snæfellinga og Náttúrustofu Vesturlands.

Rúnar hefur lengi haft áhuga á íþróttum, útivist, hreyfingu, golfi og stangveiði: „Ég var náttúrlega alinn upp í mjög hreinu Víkingahverfi, lék m.a. handbolta með meistaraflokki Víkings öll menntaskólaárin mín en þá fylgdumst við að, skólabræðurnir og Víkingarnir, ég, Jón Hjaltalín Magnússon, verkfræðingur og síðar formaður Handknattleikssambands Íslands, og Einar Magnússon sem síðar varð atvinnumaður í handbolta í Þýskalandi, en hann lést fyrir aldur fram.

Ég hef alltaf haft gaman af útivist og gönguferðum og hef leikið golf og stundað stangveiði um langt árabil. Eiginlega hef ég gengið með veiðidellu frá því ég man eftir mér, fór niður á bryggju að dorga þegar ég var polli og svo gengum við strákarnir eftir hitaveitustokknum að Elliðaánum til að fylgjast með laxveiðikörlunum þar. Á seinni árum hef ég svo sinnt veiðileiðsögn í Norðurá og Haffjarðará. Þá má geta þess að við hjónin eigum hesta og ég fer stundum á hestbak með konunni.“

Fjölskylda

Eiginkona Rúnars er Brynja Jóhannsdóttir, f. 22.1. 1954, ritari. Foreldrar hennar: Jóhann Kristjánsson, f. 30.6. 1926, d. 5.1. 2003, kaupmaður, og k.h., Hulda Klein Kristjánsson, f. 29.8. 1923, húsfreyja og kaupkona.

Börn Rúnars og Brynju: 1) Guðni Rúnarsson, f. 15.1. 1975, d. 13.2. 1975; 2) Hermann Rúnarsson, f. 30.6. 1976, framkvæmdastjóri í Óðinsvéum, en kona hans er Rósa Guðmundsdóttir hjúkrunarfræðingur og eru börn þeirra Guðni Jóel, f. 2002, og Andri Hrafn, f. 1998 (fóstursonur); 3) Björk Rúnarsdóttir, f. 20.6. 1979, hjúkrunarfræðingur í Vín, og eru börn hennar Kaan Bjarkarson, f. 2007, og Sóley Bjarkardóttir, f. 2017; 4) Jóhanna Rúnarsdóttir, f . 30.7. 1980, starfar í verkefnaeftirliti hjá Erste Group IT í Vín en maður hennar er Christoph Prendinger lögfræðingur og er sonur þeirra Gabriel Brynjar, f. 2014.

Hálfbróðir Rúnars sammæðra var Kristmundur Ingvar Eðvarðsson, f. 3.10. 1935, d. 24.12. 1974, sjómaður og matreiðslumaður.

Alsystkini Rúnars: Guðni Gíslason, f. 24.9. 1939, d. 26.5. 1971, sjómaður í Reykjavík; Eggert Gíslason, f. 22.3. 1942, verkamaður í Reykjavík; Valgerður Gísladóttir, f. 28.2. 1944, sjúkraliði og djákni, búsett í Reykjavík; Þorbjörn Gíslason, f. 3.11. 1945, múrari, búsettur í Mosfellsbæ; Bára Gísladóttir, f. 3.5. 1951, húsfreyja í Reykjavík, og Ragnheiður Dóróthea Gísladóttir, f. 5.11. 1956, ritari, búsett í Hafnarfirði.

Foreldrar Rúnars voru Gísli Guðnason, f. 25.9. 1914, d. 9.11. 1974, verkstjóri, og k.h., Jóna Gróa Kristmundsdóttir, f. 10.1. 1917, d. 15.9. 2002, húsfreyja og símavörður.