Geislatæki Ný blóðrannsókn gæti greint krabbamein fyrr.
Geislatæki Ný blóðrannsókn gæti greint krabbamein fyrr. — AFP
Vísindamenn við Johns Hopkins háskólann í Bandaríkjunum tilkynntu í fyrrinótt að þeir hefðu þróað nýja tegund af blóðprufu, sem myndi gera læknum kleift að finna átta mismunandi tegundir af æxlum áður en þau fá tækifæri til þess að dreifa sér víðar um...

Vísindamenn við Johns Hopkins háskólann í Bandaríkjunum tilkynntu í fyrrinótt að þeir hefðu þróað nýja tegund af blóðprufu, sem myndi gera læknum kleift að finna átta mismunandi tegundir af æxlum áður en þau fá tækifæri til þess að dreifa sér víðar um líkamann. Aðferðin gæti liðkað fyrir því að greina krabbamein snemma og þar með aukið líkurnar á bata.

Það mun þurfa frekari prófanir á aðferðinni áður en hægt verður að bjóða sjúklingum upp á blóðprufuna, en vísindamennirnir gerðu ráð fyrir því að rannsóknin myndi einungis kosta um 500 bandaríkjadali, eða sem nemur rúmlega 50.000 íslenskum krónum.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í tímaritinu Science og kom þar fram að aðferðin ætti að geta fundið krabbamein í um 70% tilvika. Meinin sem um ræðir voru krabbamein í eggjastokkum, lifur, maga, brisi, vélinda, görnum, lungum og brjóstum. Ekkert próf hefur hingað til verið til til þess að finna fimm fyrstnefndu meinin fyrir fólk sem býr við meðalhættu á að fá slík mein. Þá kom fram í rannsókninni að í 83% tilfella gat blóðprufan sagt fyrir um hvar í líkamanum krabbameinið var.

Hin nýja aðferð sameinar greiningu á 16 mismunandi krabbameinsgenum við magn tíu mismunandi prótínlífmerkja í blóðinu. „Endanlegt markmið er að finna krabbamein ennþá fyrr, jafnvel áður en nokkurra annarra einkenna er vart,“ sagði í rannsókninni.