Haukur Þór Bergmann fæddist 28. október 1959. Hann lést 29. desember 2017. Útför Hauks var gerð 12. janúar 2018.

Nýlega kvöddum við hjónin góðan vin okkar, samstarfsfélaga minn til margra ára og náfrænda Sverris eiginmanns míns en þeir Haukur voru systkinasynir ættaðir frá Fuglavík á Miðnesi. Haukur varð bráðkvaddur að heimili sínu langt fyrir aldur fram.

Haukur var aðeins 10 ára þegar ég kynntist honum, þegar ég tengdist fjölskyldu hans. Strax sem ungur drengur var hann mikill hugsuður, pældi mikið í alls kyns hlutum, var m.a. mikill áhugamaður um skák og var orðinn flinkur skákmaður.

Þegar Haukur var orðinn fullorðinn og kominn á vinnumarkaðinn lágu leiðir okkar saman þar líka. Í kringum 1988 var okkur falið verkefni á vegum Sambands ísl. sparisjóða (SÍSP) þá var hann orðinn tölvunarfræðingur og vann sem slíkur hjá Sparisjóðnum í Keflavík en ég var starfsmaður hjá Sparisjóði Hafnarfjarðar. Okkur fannst skemmtilegt að við skyldum fá að vinna saman að þessu verkefni, ekki síst vegna tengsla okkar, og náðum við vel saman og voru okkur falin mörg önnur verkefni á vegum SÍSP og einnig á vegum Tölvumiðstöðvar sparisjóðanna (TS) þegar hann var orðinn starfsmaður þar. Það var svo á árinu 2007 sem við urðum samstarfsfélagar þegar ég hóf störf hjá TS, síðar Teris sem að sameinaðist síðan Reiknistofu bankanna og fylgdum við bæði með í þeirri sameiningu.

Það var gott að vinna með Hauki, hann var snjall í sínu fagi, hafsjór af fróðleik, maður kom aldrei að tómum kofa hjá honum þegar maður leitaði aðstoðar og upplýsinga hjá honum.

Við spjölluðum oft saman um fleira en vinnu. Við vorum svona eiginlega tengiliðir á milli fólksins hans, hann sagði mér fréttir af fólkinu sínu á Suðurnesjum og ég sagði honum fréttir af frændfólkinu hans í Kópavoginum. Við spjölluðum líka saman um Fuglavík, æðarvarpið þar, dúntekju o.m.fl.

Það var svo árið 1992 sem við hjón hittum Hauk og Heiðu konu hans óvænt úti í Portúgal. Þau voru að vinna sig út úr barnsmissi, voru nýlega búin að missa drenginn sinn sem fæddist andvana. Þarna kynntumst við henni Heiðu hans Hauks. Við eyddum mörgum stundum saman þarna í Portúgal, þarna mynduðust á milli okkar allra einhver órjúfanleg bönd sem erfitt er að skýra.

Þegar ég lít yfir farinn veg og rifja upp kynni og samstarf okkar Hauks þá sé ég fyrir mér hreinskiptinn, hjálpsaman, eldkláran og rólyndan mann. Ég sé hann fyrir mér með örlítið skakkt bros, glampa í augum og fullan af áhuga að æfa sig að spila á ukulele með okkur hinum samstarfsmönnum Teris en í hverju fimmtudagshádegi voru sameiginlegar ukuleleæfingar hjá okkur í Teris. Ég sé hann líka fyrir mér með úfið hárið þar sem hann er að bollaleggja alls kyns útfærslur hinna ýmsu verkefna sem við glímdum við í vinnunni.

Að leiðarlokum vil ég þakka Hauki fyrir frábært samstarf og góða vináttu.

Við hjónin vottum Heiðu, dætrunum Halldóru Rún, Þóru Lilju og Heklu Lind, Lillu mömmu hans og Sigga bróður hans og fjölskyldu okkar innilegustu samúð.

Minning um góðan dreng lifir.

Steinunn M. Benediktsdóttir.