Sterkur Ryan Taylor bar höfuð og herðar yfir KR-inga.
Sterkur Ryan Taylor bar höfuð og herðar yfir KR-inga. — Morgunblaðið/Eggert
Leikmenn 14. umferðar: Ryan Taylor (ÍR) og Hlynur Bæringsson (Stjörnunni) Þeir Hlynur og Taylor voru frábærir í sigrum sinna liða á fimmtudagskvöldið.

Leikmenn 14. umferðar: Ryan Taylor (ÍR) og Hlynur Bæringsson (Stjörnunni)

Þeir Hlynur og Taylor voru frábærir í sigrum sinna liða á fimmtudagskvöldið. Ryan heldur áfram að vera óstöðvandi með 35 stig og 9 fráköst og Hlynur átti enn einn stórleikinn með 24 stig og 12 fráköst.

Vakti sérstaka athygli í 14. umferð: Emil Karel Einarsson, Þór Þ.

Emil var rólegur í fyrri hálfleik og síðan rann á hann æði í þriðja leikhluta þar sem hann skoraði 18 stig í leikhlutanum. Hann endaði með 28 stig og skoraði körfuna sem setti leikinn á ís fyrir Þórsara.

Besti ungi leikmaður umferðarinnar: Breki Gylfason, Haukum

Breki átti góðan leik í Þorlákshöfn þrátt fyrir tap og skoraði hann 19 stig. Hann var sterkur í kringum körfuna og kláraði færin sín vel í stað þess að stóla aðallega á þriggja stiga skotið.

Óvæntustu úrslitin: Sigur Þórs Þ. á toppliði Hauka

Það var miklu meiri kraftur og vilji í Þórsurum í þessum leik og var sigurinn mjög sanngjarn. Haukarnir hafa eflaust eitthvað vanmetið Þórsarana eftir að hafa flengt þá í fyrri umferðinni.

Athyglisvert í 14. umferð:

• Fyrrverandi landsliðsmiðherjinn Ragnar Nathanaelsson kom ekkert inn á hjá Njarðvík í seinni hálfleik og spilaði bara rétt rúmar 8 mínútur í leiknum.

• Ural King var svakalegur gegn Hetti í gærkvöldi með 40 stig og 15 fráköst.

• Valsmenn unnu þær mínútur sem Illugi Steingrímsson spilaði með 32 stigum í átta stiga sigri.

• Sigurður Þorsteinsson, miðherji Grindavíkur, var nálagt þrefaldri tvennu þegar hann skoraði 12 stig, reif niður 11 fráköst og gaf 7 stoðsendingar í sigrinum á Keflavík.