Lárus L. Blöndal
Lárus L. Blöndal
Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ, segist ekki þekkja nægilega vel til máls Emblu Kristínardóttur en segir að skipaður hafi verið vinnuhópur á vegum íþróttahreyfingarinnar og menntamálaráðuneytisins sem tryggja eigi að mál sem þessi fái rétta málsmeðferð.

Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ, segist ekki þekkja nægilega vel til máls Emblu Kristínardóttur en segir að skipaður hafi verið vinnuhópur á vegum íþróttahreyfingarinnar og menntamálaráðuneytisins sem tryggja eigi að mál sem þessi fái rétta málsmeðferð.

„Ég átti fund með menntamálaráðherrra og starfsfólki þar sem það kynnti fyrir okkur faglega vinnu sem hefur verið í gangi milli ráðuneytanna undanfarin misseri. Sú vinna mun vonandi skila sér í því að tekið verði utan um fólk sem lendir í þessum aðstæðum og því veitt viðeigandi aðstoð. Vinna við þetta er komin vel á veg samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fékk frá ráðuneytinu,“ segir Lárus og bætir við að hlutverk ÍSÍ sé fyrst og fremst að fræða börn og unglinga til að koma í veg fyrir að aðstæður skapist þar sem hægt sé að brjóta gegn iðkendum. „Við höfum undanfarin ár verið að horfa á forvarnarstarf gagnvart börnum en ekki fullorðnum. Okkar markmið hefur verið að koma hlutunum þannig fyrir að sem fæstar aðstæður skapist sem bjóða upp á kynferðisbrot.“

Þrátt fyrir aukið forvarnarstarf og bætta umgjörð segir Lárus að ÍSÍ muni ekki geta komið í veg fyrir kynferðisbrot sem eiga sér stað utan íþróttaiðkunar. Samtökin geti þó búið þannig í haginn að brotaþolar eigi auðveldara með að segja frá ef upp koma brot sambærileg máli Emblu eða önnur kynferðisbrot.

„Það er auðvitað alltaf best þegar svona mál fá meðferð innan réttarvörslukerfisins líkt og í tilviki Emblu. Í því tilviki hlaut gerandinn dóm og að mínu mati hefur það alltaf mesta forvarnagildið. Fyrir utan það er auðvitað mikilvægt að í boði séu leiðir fyrir fólk til að segja frá brotinu og í kjölfarið fá aðstoð,“ segir Lárus.

Spurður hverju hann myndi helst vilja breyta í núverandi kerfi segir Lárus að best væri ef í boði væri miðlæg þjónusta fyrir brotaþola. Það myndi koma í veg fyrir að mál yrðu þögguð niður innan raða íþróttafélaga eða deilda. Að sínu mati sé óheppilegt þegar svona mál séu leyst innan félaganna. Þar geti vináttubönd og hugsanlega aðrir hagsmunir haft neikvæð áhrif fyrir þolandann.