[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þá er Dominos-deildin hafin aftur eftir magnaða fimm daga bikarhátíð í Höllinni. Maður er hálfpartinn ennþá að jafna sig eftir þessa veislu. Það var margt sem gekk á, bæði neikvætt og jákvætt.

Þá er Dominos-deildin hafin aftur eftir magnaða fimm daga bikarhátíð í Höllinni. Maður er hálfpartinn ennþá að jafna sig eftir þessa veislu. Það var margt sem gekk á, bæði neikvætt og jákvætt. Þvílíka partíið sem hefur verið á Króknum aðfaranótt sunnudags. Sauðkrækingar voru að upplifa nánast sömu tilfinningar og einlægu gleðina og þegar fólk eignast sitt fyrsta barn. Loksins kom fyrsti titillinn í Skagafjörðinn. Eina sem getur hugsanlega toppað þetta fyrir Skagfirðinga er ef snillingurinn Geirmundur Valtýsson myndi vinna Eurovision.

Dramað og ruglið sem kvennalið Skallagríms bauð upp á er eitthvað sem ég hef ekki séð áður. Auðvitað gengur oft á ýmsu bak við tjöldin í blessuðum boltanum en þarna fór allt fram fyrir opnum tjöldum. Niðurstaðan var síðan að skipt var um þjálfara. Á sama tíma bauð kvennalið Njarðvíkur upp á ekkert nema gleði og baráttu. Liðið spilaði tvo hörkuleiki og skildi allt eftir á gólfinu sem skilaði verðlaunapeningi. Hins vegar virðist Njarðvík vera komið aftur í deildargírinn þar sem stórt tap leit dagsins ljós gegn Helenulausum Haukum. Nýir þjálfarar Njarðvíkur verða að fá stelpurnar í liðinu til að kaupa það að deildin sem nú sé að hefjast sé önnur bikarkeppni. Þvílíkur munur á liðinu í bikar og í deild.

Geggjaður sigur

Þórsarar frá Þorlákshöfn tóku Haukana í hörkuleik og náðu í gríðarlega mikilvæg stig. Mönnum í Þorlákshöfn var hætt að standa á sama og sæti í deild þeirra bestu orðið í hættu. Með þessum geggjaða sigri geta Þórsarar hugsanlega aðeins farið að horfa upp fyrir sig í stað þess að vera alltaf að líta niður og hafa áhyggjur af falli. Það sem gerir þennan sigur geggjaðan er að Halldór Garðar Hermannsson var í banni og aðrir tóku bara við keflinu. Halldór verður kallaður Hr. Ómissandi (kaldhæðni) í Þorlákshöfn það sem eftir lifir tímabili. Hann á skilið að vera aðeins strítt en vonandi lærir hann af þessum gjörningi í Njarðvík þegar honum var hent út úr húsi. Snorri Hrafnkelsson sneri aftur á parketið í þessum leik og átti flottan leik. Það var algjörlega nauðsynlegt fyrir Þórsara að fá hann inn aftur því þeir voru helvíti litlir án hans. Það var samt Emil Karel Einarsson sem fór fyrir sókninni en hann skoraði 25 stig í seinni hálfleik og náðu Haukarnir alls ekki að stöðva hann. Það er alltaf gott fyrir Þórsara þegar Emil hitnar fyrir utan og þarf hann að vera stöðugri í sókninni.

Meiðslin áhyggjuefni hjá KR

Ég var að spá í að rifja upp þegar ég talaði um það hér í pistlum mínum að fólk væri að spá ÍR allt of neðarlega því þeir væru með dúndurlið sem væri að fara að vera í bullandi toppbaráttu en ég ætla að láta það kyrrt liggja því ég vil alls ekki vera að upphefja sjálfan mig hér en ÍR-ingar eru alla vega í toppsætinu eins og er og unnu góðan sigur á KR. Það er ákveðinn áfangi fyrir ÍR. Það er áhyggjuefni fyrir KR-inga að Jón Arnór Stefánsson og Pavel Ermolinski eru aftur meiddir en Jón ætti þó ekki að vera lengi frá núna. Þrátt fyrir breiðan og góðan hóp þá munar helling um þessa tvo frábæru leikmenn sama hvað hver segir. Nýi erlendi leikmaður KR skoraði 17 stig að þessu sinni og sýndi betri takta en í bikarúrslitaleiknum. Hann þarf að halda áfram að bæta í sinn leik í hverri umferð en hann átti erfiðan dag í Höllinni þar sem hann skoraði jafn mörg stig fyrir Tindastól og hann gerði fyrir KR (2 stig fyrir hvort lið). Ekki oft sem menn lenda í því að gera sjálfskörfu. KR tók mikla áhættu að skipta um Kana daginn fyrir bikarúrslitaleik og margir á því að þetta hafi verið galin ákvörðun. Ég er á því að þótt KR hefði verið með Kevin Durant þessum leik þá hefði ekkert komið í veg fyrir sigur Stólanna þennan daginn.

Dekkra útlit á Akureyri

Umferðin var ekki góð fyrir Þór frá Akureyri. Þeir mættu bikarmeisturum Tindastóls á heimavelli á besta tíma örfáum dögum eftir ,,Þjóðhátíð“ sem haldin var á Króknum og einnig voru nokkrir lykilmenn fjarri góðu gamni. Síðan unnu nafnar þeirra frá Þorlákshöfn og Valsmenn sína leiki þannig að útlitið dökknaði svolítið fyrir Þórsara. Sigur Stjörnunnar á sterku liði Njarðvíkur var það sem Garðbæingar þurftu. Um tíma leit út fyrir að Stjarnan næði ekki að klára dæmið eftir að hafa verið mun betri aðilinn framan af en tveir þristar frá Róberti Sigurðssyni og mögnuð sigurkarfa frá Collin Pryor tryggðu sigurinn.

Sorglega slakt hjá Keflavík

Það er einhver andskotinn að hrjá Keflvíkinga þessa dagana. Frammistaðan í síðustu tveimur leikjum hefur verið sorglega slök. Í leiknum þar á undan voru þeir heppnir að sleppa með sigur úr Valsheimilinu en það var skiljanlegt þar sem breytingar urðu á liðinu um áramótin. Grindvíkingar þurftu ekki að hafa mikið fyrir sigrinum í gær og unnu 2. leikhluta t.d. 25:6.

Í lokin verð ég að minnast á lið Skallagríms sem tók á fimmtudaginn risaskref í átt að Dominos-deildinni með því að leggja Breiðablik. Nú hafa Skallar 4 stiga forskot á Blika og ekki nóg með það heldur unnu þeir leikinn með 15 stigum og náðu innbyrðis stöðunni þar sem Blikar unnu fyrri leikinn með 10 stigum. Borgnesingar eru því í algjörri lykilstöðu en efsta liðið fer beint upp.

Sérfræðingur Morgunblaðsins Benedikt Guðmundsson benediktrunar@hotmail.com Benedikt Guðmundsson er reyndur körfuboltaþjálfari og fyrrverandi íþróttafréttamaður sem er sérfræðingur Morgunblaðsins í körfubolta í vetur. Í dag fer hann yfir fjórtándu umferð Dominos-deildar karla.