Bæjarins beztu í Strassborg Guðrún Kristmundsdóttir naut þess að afgreiða viðskiptavini í Frakklandi.
Bæjarins beztu í Strassborg Guðrún Kristmundsdóttir naut þess að afgreiða viðskiptavini í Frakklandi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Rétt eins og München í Þýskalandi er Ísland víða þekkt fyrir þrjú B – Björk, Bláa lónið og Bæjarins beztu pylsur.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Rétt eins og München í Þýskalandi er Ísland víða þekkt fyrir þrjú B – Björk, Bláa lónið og Bæjarins beztu pylsur. Í tæplega mánuð fyrir jól fengu gestir á jólamarkaðnum í Strassborg í Frakklandi tækifæri til þess að fá sér Bæjarins beztu pylsur með öllu og segir Guðrún Kristmundsdóttir, framkvæmdastjóri fjölskyldufyrirtækisins, sem komst alfarið í eigu Jóns Sveinssonar, afa hennar, 1937, að landkynningin hafi heppnast sérlega vel og því geti verið að framhald verði á í þessa veru.

Pylsustaðurinn Bæjarins beztu pylsur við Tryggvagötu er einn vinsælasti ef ekki vinsælasti veitingastaður landsins og eitt helsta kennileiti Reykjavíkur. Þar má gjarnan sjá viðskiptavini standa í löngum röðum til að fá sér eina með öllu. Eða fleiri. Guðrún þurfti því ekki að hugsa sig lengi um þegar boð kom um að vera með á nýliðnum jólamarkaði í Strassborg, en þar voru íslensk fyrirtæki heiðursgestir, þar á meðal Lýsi, Reykjavík Distillery og Handprjónasambandið, auk þess sem íslensku jólasveinarnir voru á vappi.

Skemmtilegur aðfangadagur

„Þetta var óvenjulegt tækifæri en skemmtilegt og sérstaklega var gaman að standa vaktina á aðfangadag,“ segir Guðrún. „Vissulega var þetta fyrst og fremst landkynning, en um leið kynning á vörunum okkar og íslensku pylsurnar hafa sérstöðu vegna þess að þær eru búnar til úr lambakjöti. Mikil pylsumenning er í Strassborg og það kom okkur á óvart hvað pylsunum okkar var vel tekið, en flestir báðu um eina með öllu. Sumir fengu sér allt að fimm pylsur á aðfangadag.“

Guðrún segir að þau hafi oft lent í því í Strassborg að afgreiða fólk sem hafði kynnst Bæjarins beztu á Íslandi. „Fólk kom sérstaklega til okkar vegna þess að það hafði keypt pylsur hjá okkur á Íslandi. Það vissi að hverju það gekk.“

Jón Sveinsson, afi Guðrúnar, féll ungur frá og þá tóku Guðrún, amma hennar, og faðir við keflinu. Sjálf hefur hún verið við stjórnina í um 30 ár og Baldur Ingi Halldórsson, sonur hennar, er óðum að taka við rekstrinum. Fyrirtækið er með útsölustaði á fimm stöðum í Reykjavík og Kópavogi og er auk þess með handvagna sem eru notaðir við sérstök tækifæri. Einn slíkur var með í för í Strassborg.

Guðrún segir að margt hafi breyst á átta áratugum. „Pylsurnar eru allt öðruvísi núna en þær voru fyrir 80 árum; brauð og sósur voru ekki á boðstólum í byrjun og gæðin hafa aukist jafnt og þétt.“

Þótt vel hafi tekist til í Strassborg segir Guðrún að þrátt fyrir að pylsur flokkist undir unna vöru sé erfitt að fara í útflutning á landbúnaðarvörum, fyrst og fremst vegna kostnaðar. „Við erum því í ákveðnum átthagafjötrum en erum opin fyrir öllu og höfum augun opin.“