Helena Kolbeinsdóttir fæddist 24. júní 1980. Hún lést 4. janúar 2018.

Útför Helenu fór fram 19. janúar 2018.

Æ, elsku Helena mín, vá hvað þetta er sárt, ég er svo ekki tilbúin að kveðja þig.

Ég sit hérna í vinnunni að skoða myndir frá brúðkaupinu mínu og ég bara græt við tilhugsunina að við munum ekki hittast í næsta fjölskylduboði. Þú varst alltaf svo hress og stutt í djókið, hafðir góðan húmor fyrir sjálfri þér og þér var svo alveg sama hvað öðrum fannst um þig.

Þó að við höfum alist upp hvor í sínu bæjarfélaginu fundum við varla fyrir því, við eyddum öllum helgum saman og vorum eins og skilnaðarbörnin í rútunni á Reykjanesbrautinni, öll okkar grunnskólaár vorum við límdar saman. Alveg sama hvort við komum í heimsókn til ykkar eða þið til okkar endaði það alltaf með að við fengum að gista saman og guð hvað við eigum margar frábærar minningar úr Árbænum og Keflavík.

Til að byrja með vorum við mjög líkar, vildum báðar vera strákar og létum klippa okkur eins og strákar og hlógum okkur máttlausar þegar að við fengum bláan lykil í sundi. Þú byrjaðir að ganga með Cool Water-rakspíra og ég varð líka að prufa það, ég kláraði nú ekki eitt glas en þessi rakspíri hefur verið með þér síðan þá og heitir hann bara Helenulykt. Ég óx upp úr því að vilja vera eins og strákur en þú varst bara töffari og það fór þér mjög vel.

Þegar við urðum eldri varð sambandið minna en alltaf var gaman hjá okkur þegar við hittumst og var alltaf stutt í grínið og hláturinn. Og það sem þú slóst í gegn í brúðkaupinu mínu, labbandi á milli borða og spyrjandi gamla fólkið hvort það væri ekki í stuði og reyndir að draga alla á dansgólfið og við dönsuðum langt fram á nótt og að sjálfsögðu varst þú síðust heim með okkur hinum.

Krakkarnir mínir spyrja mig margar spurningar um Helenu frænku og það er svo sárt að þurfa útskýra fyrir þeim að frænkan sem var alltaf að stríða þeim sé farin frá okkur. Þó svo að þau hafi verið hrædd við þig fyrst til að byrja með (út af öllum lokkunum og tattúunum) lærðu þau fljótlega að þetta var bara Helena sem var mjög skemmtileg frænka og nennti alltaf að tala við þau og stríða þeim. Þú varst nefnilega alveg svakalega barngóð og hafði svo gaman af því að vera í kringum börn.

En elsku Helena mín, ég veit að þú ert á betri stað núna og ekki með neina verki og ef ég þekki ömmu okkar rétt hefur hún tekið vel á móti þér.

Elsku Erla, Kolli, Siggeir, Mæja, Berglind, Eiki og allir hinir, innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra og megi Guð styrkja ykkur á þessum erfiðu tímum.

Kveðja,

Geirný frænka.

Þegar raunir þjaka mig,

þróttur andans dvínar,

þegar ég á aðeins þig,

einn með sorgir mínar.

Gef mér kærleik, gef mér trú,

gef mér skilning hér og nú.

Ljúfi drottinn lýstu mér,

svo lífsins veg ég finni,

láttu ætíð ljós frá þér

ljóma í sálu minni.

(Ómar Ragnarsson/Gísli á Uppsölum)

Elsku frænka, að kveðja þig í dag er það erfiðasta sem ég hef gert um ævina. Hvíldu í friði, elsku gullið mitt Þín frænka,

Hafdís Karlsdóttir (Haddy).

Elsku vinkona.

Ég trúi því varla enn að ég þurfi að kveðja þig svona snemma. Þú sem áttir allt lífið fram undan og það var svo margt sem við áttum eftir að gera saman. Því miður náðu veikindin á endanum yfirhöndinni.

Ég tel mig hafa verið svo heppna að hafa fengið að kynnast þér, því þú varst sú fallegasta og skemmtilegasta sál sem ég hef kynnst. Sem betur fer get ég yljað mér við allar minningarnar sem ég á um þig, hvað þú varst alltaf góð við Arnar minn og varst mér góð vinkona. Þú munt alltaf eiga stað í hjarta mér og ég trúi því að við munum hittast aftur.

Þín Rannveig Eva

Í dag kveðjum við elsku Helenu sem fallin er frá allt of fljótt. Við hittum hana fyrst fyrir 30 árum, aðeins sjö ára gamla með ljósu lokkana sína. Hún var ljúf og hjartahlý og líka skemmtilega stríðin. Hún var alltaf tilbúin að rétta fram hjálparhönd öllum sem þurftu. Helena kom reglulega í heimsókn í bakaríið til Maggýar hjólandi úr Seiðakvíslinni með Danna vini sínum. Þær áttu einnig mörg samtölin sín á milli í Hagaselinu, þar sem spjallað var um margt og mikið. Munum eftir skemmtilegum stundum, sérstaklega Eurovision-partíum með Helenu og fleirum hjá Siggeiri og Maju. Við vottum fjölskyldunni hennar okkar dýpstu samúð því söknuður þeirra er mikill.

Minning hennar lifir.

Margt þú hefur misjafnt reynt,

mörg þín dulið sárin.

Þú hefur alltaf getað greint,

gleði bak við tárin.

(J.Á.)

Hinsta kveðja,

Margrét (Maggý) og Fanney.

Til þín, elsku vinkona, orð fá ekki lýst hversu mikill söknuðurinn er.

Þau ljós sem skærast lýsa,

þau ljós sem skína glaðast

þau bera mesta birtu

en brenna líka hraðast

og fyrr en okkur uggir

fer um þau harður bylur

er dauðans dómur fellur

og dóm þann enginn skilur.

(Friðrik Guðni Þórleifsson)

Þín vinkona

Jóna Björk Bjarnadóttir Hammer.

Elsku hjartans Helena, orkuboltinn minn.

Vinahópurinn stóri syrgir, vinkona okkar er fallin frá, alltof fljótt og við vorum ekki tilbúin að missa neinn strax úr okkar hópi. Þú varst minnsta vinkonan mín í stærð og ég brosi enn að því þegar ég hitti þig á Spot og þú varst búin að leggja Buffaloskónum, ég sá þig varla. En þú varst miklu stærri í karakter og hjarta en margir aðrir. Þú varst sérstök í útliti og það fældi alltaf einhverja frá, en þeir sem leyfðu sér að kynnast þér komust fljótt að því að þú varst einstaklega hjartahlý, falleg og góð sál, þú bjóst yfir barnslegri einlægni sem mörg okkar tapa á fullorðinsárum og þú vildir öllum vel. Þú varst ekki allra, en þú varst okkar. Það eru svo ótal mörg skipti sem hefðu aldrei orðið eins án þín og það eiga eftir að verða svo ótal mörg skipti þar sem við munum sakna þín og segja upphátt: „Pæliði í ef Helena væri hérna“ og rifja upp minningar um þig.

Þitt skarð verður aldrei fyllt, þú varst alveg einstök. Þú kenndir mér að taka fólki bara eins og það er og að minnstu og litríkustu pakkarnir geyma oft skemmtilegasta innihaldið. Þér var stundum strítt í partíum og stundum fannst mér nóg um, en þú elskaðir að skemmta þér með vinum og gleðja aðra og ef það þýddi smá stríðni á þinn kostnað var þér alveg sama, enda meinstríðin sjálf. Sjómannahelgar- og Halloweenpartí hjá Berglindi, U2-ferðin til London og ótal margir hittingar hefðu verið allt öðruvísi hefðir þú ekki verið með.

Lífið var þér ekki alltaf auðvelt, en þú varst ákveðin að sigrast á því og við vorum öll tilbúin að hjálpa þér. En lífið hefur sínar áætlanir með okkur öll og oftast fáum við engu um það ráðið. Veikindin tóku yfir og þú fórst upp á spítala þegar við hin vorum á lokasprettinum með jólastússið.

Jólin okkar allra mörkuðust af því að vinkona okkar lá uppi á spítala að berjast fyrir lífi sínu. Og á meðan þú barðist báðum við, spiluðum Palla-lögin og treystum á að kraftaverk myndi gerast og Helena okkar, litli hjartahlýi, einstaki orkuboltinn myndi ná sér, en allt kom fyrir ekki. Mér finnst sárt að hafa ekki náð að kveðja þig uppi á spítala, en hugga mig við að best er að minnast þín eins og þú áttir að þér að vera, en ekki veik á spítala.

Ég hágræt yfir að þú ert farin og líf okkar allra mun verða gleðisnauðara án þín, en á sama tíma gleðst ég yfir að hafa kynnst þér. Þetta var enginn smá kaupbætir sem fólst í þér þegar ég kynntist eldri systur þinni Berglindi, sem hefur nú misst okkar mest. Þið voruð ákaflega ólíkar systur, en á sama tíma svo einstaklega samrýndar og samstilltar. Við lofum að passa upp á Berglindi og hjálpa henni í gegnum sorgina og lífið án þín. Haltu þeim á tánum hinumegin eins og þér einni var lagið, spilaðu Palla-lögin og við munum eitt af öðru mæta í partíið þar með þér. Ég ætla samt að vona að það verði einhver bið á því að við hittumst aftur, ég á eftir að gera svo margt hérna megin.

Þar til næst, elsku krúttköggullinn minn, Ken Lee, þín vinkona

Ragna Gestsdóttir.