Forystumenn HSÍ liggja „undir feldi“ þessa dagana og velta fyrir sér næstu skrefum varðandi þjálfun karlalandsliðsins í handbolta.
Forystumenn HSÍ liggja „undir feldi“ þessa dagana og velta fyrir sér næstu skrefum varðandi þjálfun karlalandsliðsins í handbolta.

Liðið kom fyrr heim frá Króatíu en reiknað hafði verið með því eftir sigurinn á Svíum í fyrsta leik blasti við að Ísland kæmist áfram og myndi spila í milliriðli fram á miðvikudag í næstu viku.

Eins og fram kom skömmu fyrir mót var ekki vilji fyrir því hjá HSÍ að semja við Geir Sveinsson til lengri tíma, fyrr en þá að loknu Evrópumótinu.

Skoðanir eru skiptar um stöðu Geirs, enda þótt flestir viðmælendur Morgunblaðsins undanfarna daga hafi verið á því að hann ætti að halda áfram.

Það er heldur ekki ástæða til að skipta um þjálfara nema betri kostur sé til staðar.

Flestir virðast sammála um að Geir hafi komið varnarleik Íslands á ágætis ról, enda þótt gloppur hafi verið í honum af og til á EM. Enda var Geir sjálfur afburða varnarmaður.

Sóknarleikurinn er frekar vandamálið, miðað við alla þá tölfræði sem liggur fyrir.

En vantar Geir þá ekki sóknarsinnaðri aðstoðarmann? Hvað með manninn sem stýrði meira og minna sóknarleik Íslands á blómatímanum og sá um ræðuhöldin í öðru hverju leikhléi?

Ég er að tala um Snorra Stein Guðjónsson sem var gríðarlegur leiðtogi í landsliðinu og geysilega klókur leikstjórnandi.

Væri þetta ekki pottþétt þjálfarateymi – Geir með vörnina og Snorri með sóknina?