Athyglisverð hugmynd um „víkingasveit“ til verka í opinbera kerfinu.

Það ríkir embættismannaræði á Íslandi“, sagði einn viðmælandi minn fyrir nokkrum dögum.

Athyglisvert orð, sem er eins konar tilbrigði við auðræði eða lýðræði.

En kjarni þess er sá, að embættismannakerfið hafi náð í sínar hendur valdi, sem skv. stjórnarskrá Íslands á að vera í höndum kjörinna fulltrúa.

Um þetta verður ekki lengur deilt. Þetta sjá þeir sem sjá vilja með berum augum.

Margir þeirra sem hafa gegnt ráðherraembættum ýmist viðurkenna eða taka undir þetta sjónarmið.

Það er ekki lengur þannig að ráðherra feli embættismönnum framkvæmd mála heldur eru það embættismenn og sérfræðingar í ráðuneytum, sem stýra gerðum ráðherra, beint eða óbeint.

Sumt af þessu hefur gerzt með lagasetningu, sem þingmenn hafa samþykkt vegna þess að ný lög verða ekki sett án þeirra atbeina. Löggjöf um opinber fjármál og ríkisfjármálaáætlanir þýða í raun að stefnumörkun í fjölmörgum málaflokkum er komin í hendur embættismanna og byggist á frumkvæði þeirra, ekki þingmanna eða ráðherra.

Hvers vegna láta þingmenn þetta gerast?

Það er ekki auðvelt að átta sig á því. Kannski byrjar það ferli hjá ráðherra, sem lætur embættismennina í kringum sig stjórna sér og þingmennirnir fylgja í kjölfarið.

Einn þeirra fyrrverandi ráðherra sem tekið hafa undir þetta sjónarmið er höfundur Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins fyrir viku. Hann sagði:

„...valdið hefur í ógáti smám saman verið fengið öðrum, sem enga lýðræðislega ábyrgð bera, eða þeir hafa hrifsað það til sín.“

Þannig talar sá, sem setið hefur samfellt í ráðherrastól í á annan áratug.

Afleiðingarnar af þessari þróun eru margvíslegar. Dæmi eru um að embættismenn hafi reynt að taka fram fyrir hendur sjálfs fjárveitingavaldsins og ýta ákvörðunum þess til hliðar, sem er með miklum ólíkindum að skuli yfirleitt reynt.

Alvarlegast þessa stundina er sú staðreynd, að það eru ekki lengur kjarasamningar á almennum vinnumarkaði, sem marka stefnuna um launaþróun í landinu. Nú er það opinbera kerfið, sem hefur tekið sér það fyrir hendur og magnað þar með upp launakröfur í einkageiranum, sem atvinnuvegirnir geta ekki staðið undir enda miðar embættismannaræðið sínar eigin kröfur í kjaramálum ekki við smáfugla af því tagi, sem það bersýnilega telur einkarekin atvinnufyrirtæki vera.

Sennilega skilur embættismannakerfið ekki þá einföldu staðreynd, sem einkafyrirtæki standa frammi fyrir aftur og aftur, að stundum leiðir verulegt tekjutap til þess að fyrirtækin eiga ekki annan kost en segja upp fólki.

Jafnvel í kjölfar hrunsins taldi embættismannakerfið sig ekki þurfa að fækka fólki. Að vísu var um einhverja launalækkun að ræða en uppsagnir voru fátíðar hjá hinu opinbera á sama tíma og þær voru óhjákvæmilegar í einkageiranum.

Kjörnir fulltrúar eru í of ríkum mæli orðnir samdauna þessu kerfi. Skýrt dæmi um það er sá fáránleiki, sem blasir við í borgarstjórnarkosningunum í vor, að borgarfulltrúum verður fjölgað í 23 úr 15.

Til hvers?

Það væri frekar ástæða til að sameina sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og minnka kostnað við yfirbyggingu þeirra heldur en að auka á hana.

Albert Þór Jónsson, viðskiptafræðingur, lagði til í grein hér í blaðinu sl. þriðjudag að eins konar „víkingasveitir“ yrðu settar í það verk að hreinsa til í opinbera kerfinu. Þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, myndaði sína ríkisstjórn sumarið 2013 var svokallaður hagræðingarhópur settur til verka til þess að koma einhverjum böndum á opinbera kerfið. Tillögur þess hóps náðu fæstar fram m.a. vegna þess að ráðherrar tóku þátt í því með „kerfinu“ að koma þeim fyrir kattarnef.

Af þeirri tilraun má ýmislegt læra.

Kjörnir fulltrúar gegna lykilhlutverki í því að brjóta embættismannaræðið, sem hér hefur orðið til, á bak aftur. Fæstir þeirra hafa áhuga á því en það er hægt að vekja þá til lífsins með því að kjósendur þeirra láti til sín heyra, hvort sem er á fundum í flokksfélögum stjórnmálaflokka eða á öðrum opinberum vettvangi.

Innan félagasamtaka atvinnuveganna hljóta menn að sjá að þeir standa frammi fyrir launakröfum, sem eiga rætur í launaákvörðunum „kerfisins“ sjálfu sér til handa.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði í grein hér í Morgunblaðinu sl. miðvikudag:

„Í núverandi uppsveiflu hefur nánast engin áherzla verið á aðhald eða forgangsröðun í ríkisrekstri...“

Og hvers vegna ættu félagsmenn í verkalýðsfélögum að sætta sig við það að opinberir starfsmenn njóti margvíslegra fríðinda og margfalt meira atvinnuöryggis en þeir sjálfir en á kostnað þessara sömu félagsmanna verkalýðsfélaga?

Fyrir rúmlega 60 árum kom út bók eftir mann að nafni Milovan Djilas, sem um skeið var varaforseti Júgóslavíu í tíð Titos. Bókin nefnist „Hin nýja stétt“ og lýsir samspili starfsmanna kommúnistaríkjanna og kommúnistaflokkanna og hvernig þessir tveir hópar gerðu bandalag sín í milli til að tryggja eigin hag.

Hér á Íslandi er að verða til „ný stétt“ embættismanna, sérfræðinga, sumra kjörinna fulltrúa, og annarra hagsmunaaðila og kostnaður við þá „nýju stétt“ er greiddur af almennu launafólki.

Taki lýðræðislega kjörnir fulltrúar ekki í taumana og stöðvi þessa þróun af verður til jarðvegur fyrir eins konar „uppreisn“ gegn þessu kerfi – embættismannaræðinu.

Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is

Höf.: Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is