Met Gestamet Síldarminjasafns Íslands var slegið á síðasta ári þegar rúmlega 26.000 manns sóttu það heim. Meirihlutinn var erlendir ferðamenn.
Met Gestamet Síldarminjasafns Íslands var slegið á síðasta ári þegar rúmlega 26.000 manns sóttu það heim. Meirihlutinn var erlendir ferðamenn. — Morgunblaðið/Sigurður Ægisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Úr bæjarlífinu Sigurður Ægisson Siglufirði Vegagerðin kom á síðasta ári á fót viðvörunarkerfi með sms-skeytum um snjóflóðahættu til vegfarenda sem leið eiga um Ólafsfjarðarmúla.

Úr bæjarlífinu

Sigurður Ægisson

Siglufirði

Vegagerðin kom á síðasta ári á fót viðvörunarkerfi með sms-skeytum um snjóflóðahættu til vegfarenda sem leið eiga um Ólafsfjarðarmúla. Hægt var að skrá símann sinn hjá Vegagerðinni og fékk viðkomandi þá sent sms-skeyti við öll fjögur viðvörunarstigin: a) þegar varað er við, b) hættustigi lýst, c) vegi lokað og d) þegar opnað er eftir lokun. Í þessu er fólgið mikið öryggi.

Kiwanisklúbburinn Skjöldur í Fjallabyggð keypti í lok síðasta árs fimm hjartastuðtæki og kom fyrir í byggðarlaginu, nánar tiltekið í Kjörbúðinni, bæði í Ólafsfirði og Siglufirði, á dvalarheimili aldraðra á Siglufirði og húsi aldraðra í Ólafsfirði. Þá er tæki í Kiwanishúsinu á Siglufirði. Hugmyndin er að slík tæki séu aðgengileg til fyrstu hjálpar ef íbúar eða gestir verða fyrir áföllum. Staðsetning þeirra verður merkt inn á götukort og því dreift á meðal íbúa.

Gunnar Birgisson, bæjarstjóri Fjallabyggðar, og fjölskylda færðu í desember hjarta- og lungnaskurðdeild Landspítala að gjöf aðgerðargleraugu til að sýna myndskeið úr aðgerðum. Gunnar var á deildinni eftir alvarlegt hjartaáfall en er á góðum batavegi og lítur björtum augum til framtíðar. Fyrir meðferðina og umönnun á deildinni er þakkað með gjöfinni.

Síldarminjasafni Íslands barst í desember síðastliðnum viðurkenningarskjal þar sem tilkynnt var að það hefði hlotið verðlaun ferðatímarits Reykjavík Grapevine, Best of Iceland, sem besta safn á Norðurlandi. Þar sagði jafnframt að í dómnefnd hefðu setið þaulreyndir blaðamenn á sviði ferðamennsku sem og heimamenn af hverju landsvæði, ljósmyndarar, ferðalangar, listamenn og fleiri sérfræðingar af ólíkum sviðum. Enn og aftur varð þar gestamet, því árið 2017 sóttu rúmlega 26.000 manns safnið heim. Þar af voru ríflega 62% erlendir ferðamenn.

Tengir hf. á Akureyri og Fjallabyggð hafa gert með sér samning vegna uppbyggingar á ljósleiðara í dreifbýli Fjallabyggðar.

Bæjaryfirvöld í Fjallabyggð vilja að flugvöllurinn á Siglufirði verði tekinn aftur í notkun. Flugstöðin hefur drabbast niður síðan völlurinn var afskráður 16. október 2014. Formaður bæjarráðs segir ótækt að ríkið skili flugvellinum í óhæfu ástandi til baka til sveitarfélagsins.

Markaðs- og menningarnefnd Fjallabyggðar hefur samþykkt að tilnefna Sturlaug Kristjánsson bæjarlistamann Fjallabyggðar 2018. Útnefningin fer fram við hátíðlega athöfn 25. janúar næstkomandi í Menningarhúsinu Tjarnarborg í Ólafsfirði.

Alls eru 43 komur skemmtiferðaskipa bókaðar til Siglufjarðar á þessu ári, frá 10. maí og til og með 24. september, sem er u.þ.b. tvöföldun frá síðasta ári. Um er að ræða 11 skip, sem eru þessi í stafrófsröð: Albatros, Hanseatic, Hebridean Sky, Le Soleal, M/S Panorama, National Geographic Explorer, Ocean Diamond, Ocean Majesty, Ocean Endeavour, Sea Spirit, Seabourn Quest og Star Pride. Með þeim koma 7.224 farþegar. Hinn 12. júlí verða fjögur skip í höfn og hinn 30. júlí verða þrjú. M/S Panorama mun koma oftast eða alls 16 sinnum og Ocean Diamond þar næst, eða níu sinnum. Stærst er Albatros, með 800 farþega.

Siglufjörður á 100 ára kaupstaðarafmæli 20. maí næstkomandi. Af því tilefni verður Norræna strandmenningarhátíðin haldin í firðinum dagana 4.-8. júlí og mun þá enn bætast við tölu fleyja í Siglufjarðarhöfn. Þjóðlagahátíðin verður sömu daga, í 19. sinn. Er því ljóst að gamli norðlenski síldarbærinn mun iða af lífi á komandi sumri.