Björg Skarphéðinsdóttir fæddist 23. nóvember 1936 á Syðri-Tungu í Staðarsveit. Hún lést 12. janúar 2018 á hjúkrunardeildinni Skógarbrekku á Húsavík.

Foreldrar hennar voru Skarphéðinn Þórarinsson, f. 1898, d. 1978, og Elín Sigurðardóttir, f. 1901, d. 1971. Systkini Bjargar eru Birkir, f. 1929, Jenný, f. 1931, d. 2010, og Rakel Erna, f. 1947.

Björg var gift Ívari Júlíussyni, sjómanni á Húsavík, f. 1.1 1935, og eignuðust þau fimm börn: 1) Júlíus, f. 1956, kvæntur Guðrúnu Elsu Finnbogadóttur, f. 1955. Þau eiga fjögur börn: a. Valdimar, f. 1973, kvæntur Svandísi Ríkharðsdóttur. Þau eiga tvo syni, b. Ívar, f. 1978, kvæntur Sæunni Margeirsdóttur. Þau eiga tvær dætur. c. Elva, f. 1980. Hún á tvö börn. d. Hlynur, f. 1990. 2) Aðalbjörg, f. 1961, gift Gylfa Sigurðssyni, f. 1962. Þau eiga þrjú börn: a. Björgvin, f. 1978, kvæntur Jónu Birnu Óskarsdóttur. Þau eiga tvö börn. b. Hrannar, f. 1984, í sambúð með Eygló Sófusdóttur. Þau eiga tvö börn. c. Líney, f. 1993, í sambúð með Kristjáni Elinóri Helgasyni. 3) Skarphéðinn, f. 1966, í sambúð með Arnhildi Pálmadóttur, f. 1972. Þau eiga tvö börn: a. Björg, f. 1989, b. Arnar, f. 1998. 4) Elín, f. 1968, gift Benedikt Kristjánssyni, f. 1970. Þau eiga þrjú börn: a. Rut, f. 1998, b. Hrund, f. 2000, c. Kristján, f. 2005. 5) Hrönn, f. 1978, gift Hafsteini Halldórssyni, f. 1972. Þau eiga tvo syni, a. Máni, f. 2001, b. Dagur, f. 2006.

Björg ólst upp í Staðarsveit á Snæfellsnesi og tók þátt í bústörfum með foreldrum sínum. Hún sótti farskóla í Staðarsveitinni. Hún fór á vertíð til Keflavíkur veturinn 1955, þar kynntist hún Ívari. Hún fór í Húsmæðraskólann á Laugum í Reykjadal veturinn 1955-1956 og settist að á Húsavík eftir það. Björg var húsmóðir framan af, en stundaði einnig fiskvinnslustörf þegar börnin uxu úr grasi. Hún tók virkan þátt í útgerð eiginmanns síns um nokkurra áratuga skeið. Síðustu 20 ár starfsævinnar vann hún við Leikskólann Bestabæ á Húsavík.

Útför Bjargar fer fram frá Húsavíkurkirkju í dag, 20. janúar 2018, og hefst athöfnin klukkan 14.

Það var haustið 1981 að ég fór að gera hosur mínar grænar fyrir einni af dætrum Húsavíkur. Hún bjó í foreldrahúsum og lengi vel lét ég duga að dvelja í herbergi hennar. En svo kom að því að hún taldi að nú væri kominn tími til að kynna mig fyrir foreldum sínum. Ég var með hnút í maganum; hvað ef þeim litist ekki á mig?

Björg var í eldhúsinu. Ég stundi upp einhverju sem átti að þýða „góðan dag“. Hún tók undir kveðjuna. Líklega sá hún hvað mér leið. Hún brosti og talaði glaðlega um heima og geima. Lét eins og hún hefði alltaf þekkt mig. Mér fannst það líka. Eftir þetta varð ég sem einn af fjölskyldunni. Nokkrum áratugum seinna rifjaði tengdamamma þessa morgunstund upp. Hún sagðist svo sem hafa séð að það var a.m.k. eitt gat á sokknum mínum og skyrtan ekki alveg rétt hneppt. En hún var auðvitað ekkert að hafa orð á því.

Björg ólst upp í Staðarsveit á Snæfellsnesi þar sem Jökullinn gnæfði yfir. Hún talaði alltaf hlýlega um „jökulinn sinn“. Við gátum rætt endalaust hvert væri fallegasta fjall landsins og vorum sjaldnast sammála. Ég sagði Gunnólfsvíkurfjall. Hún sagði Snæfellsjökull. Líklega var það rétt hjá henni. Raunar var það nú þannig að við vorum oftast sammála um að vera ósammála. Kannski þess vegna náðum við vel saman.

Tengdamamma ruglaði saman reytum við Ívar frá Húsavík. Þau byggðu hús að Höfðavegi 10. Hún stundaði almenn fiskivinnslustörf framan af en þau hjón áttu einnig útgerð með tveimur frændum Ívars sem rekin var með myndarbrag í tæp 30 ár. Vinnudagur tengdamömmu hefur stundum verið langur en aldrei hafði hún orð á því og aldrei heyrði ég hana kvarta, enda var það ekki hennar háttur. Hún var fylgin sér. Glaðlynd í góðum hópi en ákveðin og stóð fast á sínu. Hún hafði áhuga á börnum og alltaf gat hún passað barnabörnin. Bóngóð með afbrigðum og það var stundum gott að geta leitað til hennar á mestu baslárunum. Seinni hluta starfsævinnar vann hún á leikskóla, henni leið vel innan um börn.

Þegar um hægðist fóru tengdaforeldrar mínir að njóta lífsins meira. Þau fóru reglulega á sólarströnd og áttu nánast fastan samastað á Kanarí. Á Höfðavegi 10 var líka gestkvæmt allt árið. Björg var húsfreyja á sínu heimili og stjórnaði af myndarskap. Á kvöldin tók hún sér gjarnan prjóna í hönd með köttinn sér við hlið. Lopapeysurnar hennar voru listaverk sem fóru víða. Einhvern tíma kalsaði ég það við hana að hún gerði mér peysu. Hún svaraði litlu. En kvöld eitt kom hún í heimsókn með ullarpeysu í poka. Seinna fékk ég aðra þar sem hún taldi hina úr sér gengna.

Tengdamamma var alltaf mjög heilsuhraust. Hún fór oft í gönguferðir og kom þá stundum við og þáði kaffibolla. Hún notaði tæknina ekki mikið en var oft iðin við að senda sms. Gjarnan brandara sem voru svolítið tvíræðir.

Síðustu jól hennar heima tók hún mig á tveggja manna tal. Hvíslaði að mér sögu frá æskuárum sínum er pabbi hennar fór ásamt fleiri mönnum í vonskuveðri til Borgarness til að sækja áburð fyrir búfénað á bæjunum. Þeir komust við illan leik aftur heim. Björg sagðist aldrei geta gleymt biðinni og hve hrædd hún var um að pabbi hennar ætti ekki afturkvæmt. Þetta mundi hún þó meira en 70 ár væru liðin frá því þetta gerðist. Af hverju hún hvíslaði þessu að mér að kvöldi jóladags vissi ég ekki og ég held að hún hafi engum öðrum sagt þessa sögu.

Ljúfi drottinn lýstu mér,

svo lífsins veg ég finni.

Láttu ætíð ljós frá þér

ljóma í sálu minni.

(Gísli á Uppsölum.).

Kærar þakkir fyrir samfylgdina.

Hvíl í friði.

Gylfi Sigurðsson.

Mig langar að kveðja systur mína elskulega úr fjarlægð, með þessum fallegu vísum.

Við kveðjum þig með tregans þunga tár

sem tryggð og kærleik veittir liðin ár.

Þín fórnarlund var fagurt ævistarf

og frá þér eigum við hinn dýra arf.

Móðir, systir, minningin um þig

er mynd af því sem ástin lagði á sig.

Ég kveð þig, hugann heillar minning blíð

hjartans þakkir fyrir liðna tíð

lifðu sæl á ljóssins friðarströnd,

leiði sjálfur Drottinn þig við hönd.

(Guðrún Jóhannsdóttir)

Til Ívars mágs míns sendi ég þessa kveðju.

Vermi hug þinn vonin hlý

Verndi þig Guðs kraftur,

Þótt á sólu skyggi ský

Skín hún bráðum aftur.

(G.G. frá Melgerði)

Megi algóður Guð varðveita systur mína og minningu hennar.

Innilegar samúðarkveðjur til ykkar, kæru ættingjar og vinir.

Rakel Erna.

Grallari og gleðigjafi er það sem mér dettur í hug þegar ég minnist Bjargar föðursystur minnar. Á milli okkar var einstakt, fallegt, náið samband. Ég var svo heppin að vera send í pössun til Húsavíkur sem barn þegar foreldrar mínir fóru til útlanda. Það þurfti aldeilis ekki að selja mér þá hugmynd. Ég sótti í að vera hjá frænku enda var hún svo skemmtileg. Þar var alltaf líf og fjör, húsið fullt af fólki og engin lognmolla í eldhúskróknum þar sem gikkurinn að sunnan fékk hvatningu. Einstakt afrek hjá henni að fá mig til að smakka hafragraut og smjatta á steiktu slátri.

Minningar um heit og sólrík sumur þar sem við krakkarnir syntum í Botnsvatni. Pissubíllinn mætti til að rykbinda Höfðaveginn og fáklæddur krakkaskarinn hljóp á eftir til að ná bununni. Ég fylgdist með hvalskurði á bryggjunni og lærði að halda með Liverpool. Siglingin á sjómannadaginn var svo hápunkturinn hjá borgarbarninu. Frænku leiddist nú ekki að rifja upp og hlæja að sögunni um nýju, dýru gleraugun mín sem voru skilin eftir í landi þann dag.

Sem unglingur sóttist ég áfram eftir að koma norður, í skíðaferð um páska eða Laugahátíð um verslunarmannahelgi. Hún hafði líka gott lag á unglingnum og við ræddum mál sem ég var ekki vön að ræða mikið við fullorðna. Björg var hrein og bein, hafði sterkar skoðanir og ræddi hlutina tæpitungulaust. En alltaf var stutt í hláturinn og glensið. Í gegnum allt fann maður kærleikann, áhugann og umhyggjuna. Við tvær höfðum alltaf um nóg að spjalla og mér þótti vænt um öll löngu símtölin okkar. Þau verða ekki fleiri.

Í Guðs friði.

Helga Birkisdóttir.