Gunnhildur Rósa Jónsdóttir húsmóðir fæddist á Dalvík 13. september 1928. Hún lést á sjúkrahúsi Akureyrar 18. desember 2017.

Foreldrar hennar voru Jón Halldórsson Lyngstað, f. 1884, á Ystabæ í Hrísey, d. 1963, og Jóhanna Kristín Þorleifsdóttir, f. 1888 á Hóli, Upsaströnd, d. 1971. Systkini Gunnhildar: a) Gunnar Kristinn, f. 1909, d. 1986. b) Stefanía Sóley, f. 1912, d. 1979. c) Gunnhildur Rósa, f. 1916, d. 1924. d) Óskar, f. 1921, d. 1924. e) Ottó, f. 1921, d. 1995. f) Óskar Gunnþór, f. 1925, d. 2016.

Hinn 6. janúar 1951 giftist Gunnhildur Helga Indriðasyni rafvirkjameistara, f. 21.2. 1925, d. 25.4. 2010. Börn þeirra eru: a) Laufey, f. 11.2. 1951, maki Bernard Ropa, f. 27.1. 1952. Þau eiga einn son, Igor, f. 24.9. 1983, sambýliskona Marie-Cécile Coustillas, f. 21.10. 1983. Synir þeirra eru Bastien, f. 20.8 2012, og Axel, f. 4. 1. 2016. b) Jóhanna, f. 24.1. 1953. Fyrrverandi maki Guðmundur Sigurvaldason, f. 30.6. 1951. Sonur þeirra er Kjartan, f. 28.7. 1979. Barnsmóðir hans er María Sif Ericsdóttir, f. 24.11. 1978. Börn þeirra eru Tryggvi Bragi, f. 26.9. 2008, og Emilía Mist, f. 23. 3. 2012. c) Indriði, 17.6. 1954. Með Herdísi B. Karlsdóttur, f. 16.1. 1951, á Indriði soninn Helga, f. 16.9. 1978. Barnsmæður Helga eru: 1) Sólveig Ösp Pálsdóttir, f. 10.2. 1977. Sonur þeirra er Tristan, f. 20.5. 2000. 2) Vala Ragna Ingólfsdóttir, f. 27.11. 1977. Sonur þeirra er Aron, f. 13.12. 2010. Með Fríðu Kristínu Gísladóttur, f. 15.7. 1960, á Indriði soninn Hákon Mána, f. 13.9. 1999.

Gunnhildur stundaði nám í Húsmæðraskólanum í Reykjavík á árunum 1947-1948 og vann síðan við verslunarstörf og fiskvinnslu með húsmóðurstörfum.

Jarðarförin fór fram í kyrrþey frá Dalvíkurkirkju 6. janúar 2018.

Það var haustið 1982 að við fjölskyldan fluttum til Dalvíkur með litlum fyrirvara, þekktum þar engan. Við vorum rúmlega þrítug hjónin með fjögur börn. Við fengum íbúð á Smáravegi 4. Fljótlega fór lítill gutti úr næsta húsi að banka upp á. Það var hann Helgi jr. sem þá var fjögurra ára eins og Eva dóttir okkar. Þau urðu góðir vinir og skólasystkin. Þannig var upphafið að vináttu okkar og Hillu og Helga, ömmu og afa Helga, sem ólst upp hjá þeim. Seinna kom Igor frá París, sonur Laufeyjar, inn í myndina. Þeir Kristján Karl urðu fljótt góðir vinir en hann dvaldist gjarnan sumarlangt hjá afa sínum og ömmu.

Framhaldið varð óteljandi boð með krásum sem komu eins og svífandi á borð. Hringing: „Æi viljiði ekki kíkja?“ Gjarnan var í okkur kallað á þrettándanum en hann var brúðkaupsdagur þeirra og nú útfarardagur Hillu. Þessi „kíkk“ drógust oft á langinn því húsbóndinn rölti oft upp eftir góðri viskíflösku. Samviskubit gerði stundum vart við sig, þar sem við vissum að Hilla þurfti að vakna klukkan sex að morgni til vinnu í frystihúsinu. Aldrei varð samt vart við óþolinmæði – alltaf gaman! Rafvirkjameistarinn fékk líka sín verkefni hjá okkur, biluð þvottavél, jólaseríur og margt fleira.

Hilla var með ólíkindum orkumikil kona, hjólaði til vinnu, heim í hádeginu og í berjamó þar á eftir. Þess má geta að á Dalvík var berjatíminn á við heila árstíð. Það var svolítið stressandi að vera með henni í berjamó, því hún tíndi með báðum og fann alltaf bestu lautirnar og þúfurnar. Hún sendi ber út um allar trissur.

Skemmtilegar minningar koma í hugann eins og t.d. gönguskíðaferð í Þorvaldsdal þegar Bragi hafði borið of góðan áburð á skíðin hennar Hillu. Eftir að hafa puðað inn dalinn og upp á dálitla hæð þaut hún af stað og varð langt á undan okkur og komst ósködduð frá, reyndar sigri hrósandi. Hún hafði ekki stigið á skíði í mörg ár.

Við fórum líka tvær ferðir saman til Parísar og nutum góðrar leiðsagnar Laufeyjar og frábærrar gestrisni hennar og Bernards.

Nefna má tryggð og vináttu þeirra Hillu og Helga við Kristján Karl í sambandi við tónleika, þar sem hann fékk að gista og var kallaður til máltíða býsna títt. Einnig var örverpið okkar Stefán hjá þeim á meðan við fórum til útlanda og gekk það bara vel.

Minnisstætt er þegar við fluttum frá Dalvík vorið 2005. Við vorum að fylla gáminn á brottfarardegi þegar ég sé Hillu koma á hjólinu greinilega með þungan poka á stýrinu. Þar var kominn hádegismatur, fullt fat af rjúkandi fiskigratíni að hætti Hillu. Því voru gerð góð skil.

Nú hefur jólarósin okkar kvatt þetta líf. Engan höfum við þekkt sem lagði jafn mikið á sig til að aðrir gætu notið hátíðarinnar. Heimilið hennar breyttist í jólaævintýraveröld. Við minnumst Hillu og Helga með miklu þakklæti og virðingu. Þau voru alltaf að þakka okkur, en okkur fannst við ævinlega í hlutverki þiggjenda í þessum vinskap sem stóð yfir í 35 ár.

Við sendum fjölskyldu Hillu innilegar samúðarkveðjur ásamt óskum um gleðilegt nýtt ár.

Svala, Bragi og fjölskylda.