Halldór Jónsson
Halldór Jónsson
Erna Ýr Öldudóttir ernayr@mbl.is Erfitt getur verið að fá tíma hjá læknum heilsugæslu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja (HSS) þessa dagana.

Erna Ýr Öldudóttir

ernayr@mbl.is

Erfitt getur verið að fá tíma hjá læknum heilsugæslu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja (HSS) þessa dagana. Einn íbúi sagði farir sínar ekki sléttar í Facebook-hópnum Reykjanesbær – Gerum góðan bæ betri: „Dapurlegt ástand hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja – HSS.

Nú, 16. janúar, reyndi ég að panta tíma hjá lækni en var tjáð að enginn tími væri laus í janúar og ekki væri búið að opna fyrir tímapantanir í febrúar.“

Forstjóri HSS, Halldór Jónsson, bendir á að þetta geti verið rétt hjá manninum, en ástandið hafi verið sérlega slæmt vegna Læknadaga, fræðsluráðstefnu lækna sem hefur staðið yfir í vikunni.

„Stór hluti lækna fer og tekur þátt í þessari ráðstefnu, það er eiginlega ætlast til að þeir geri það. En það breytir ekki því að það er oftast nær löng bið eftir að fá lækna á dagtíma, stundum tvær til þrjár vikur. Það er of langur biðtími víðast hvar í opinbera kerfinu, en það er skortur á læknum og hjúkrunarfræðingum, jafnvel þó við hér hjá HSS höfum sett til hliðar fjármagn í ráðningar.“

Halldór segir þó mögulegt að koma á Læknavaktina eða á neyðarmótttöku Landspítalans, en fólk verði að reyna að meta það hversu brýnt það sé að fara fljótt til læknis. Jafnframt sé mögulegt að reyna að komast að hjá einkareknum læknastofum.

„Það er alltaf verið að leita að læknum og við hyggjumst auglýsa eftir tveimur til þremur. En við vildum gjarnan geta ráðið fleiri.“