Uppgræðsla Svartir sandar geta orðið að grænum skógum.
Uppgræðsla Svartir sandar geta orðið að grænum skógum. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Umhverfisstofnun telur að vegna umfangs fyrirhugaðrar skógræktar á Hafnarsandi við Þorlákshöfn sé þörf á að framkvæmdin fari í mat á umhverfisáhrifum.

Umhverfisstofnun telur að vegna umfangs fyrirhugaðrar skógræktar á Hafnarsandi við Þorlákshöfn sé þörf á að framkvæmdin fari í mat á umhverfisáhrifum. Á sandinum hyggjast sveitarfélagið Ölfus, Landgræðslan og Skógræktin standa fyrir skógrækt, svokölluðum Þorláksskógi, og er landsvæðið í eigu sveitarfélagsins og Landgræðslunnar.

Skipulagsstofnun sendi erindi fyrrgreindra aðila til umsagnar Umhverfisstofnunar. Í svari stofnunarinnar kemur fram að skipulagssvæðið sé norðan byggðar ofan við Suðurstrandarveg og að mestu skilgreint sem óbyggt svæði í aðalskipulagi. Í heild sé svæðið, sem fyrirhugað er að leggja undir verkefnið, 4.620 hektarar að stærð.

Gætt verði að markmiðum um verndun

Að mati Umhverfisstofnunar er ekki talið að framkvæmdir muni raska svæði á náttúruminjaskrá eða svæði sem fellur undir 61. grein náttúruverndarlaga. Hins vegar segi í lögum um mat á umhverfisáhrifum að nýræktun skóga á 200 hektara svæði eða stærra skuli vera háð mati á umhverfisáhrifum.

Stofnunin telur ákjósanlegt að græða þann hluta svæðisins þar sem mest hreyfing er á sandinum, vestari hlutann. Mikilvægt sé að gæta að verndarmarkmiðum um landslag í lögum um náttúruvernd og er bent á ákvæði um sérstaka vernd þar sem um er að ræða nútímahraun í og við yfirborð, einkum á eystri hluta svæðisins.

Í umsögninni segir að við framkvæmdir beri að forðast allt rask á Árnahelli norðan Hlíðarendavegar, en hraunhellirinn er friðlýstur sem náttúruvætti. Að lokum segir í umsögninni að Umhverfisstofnun telji að fjalla eigi um það hvort ógrónir sandar hafi gildi sem hluti landslags í stað þess að líta einungis á sanda sem svæði sem bíði þess að verða grædd upp. aij@mbl.is