Neysla morfínlyfja eykst og dauðsföllum vegna of stórra skammta hefur fjölgað

Áþján ungra fíkla og þáttur fíkniefnaneyslu í fjölgun öryrkja í samfélaginu er umfjöllunarefni Ingu Sæland, þingmanns og formanns Flokks fólksins, í pistli á leiðarasíðu Morgunblaðsins í gær.

Í pistli sínum segir Inga frá heimsókn til SÁÁ fyrr í mánuðinum og hrósar starfinu sem þar er unnið. Síðan segir hún: „Hugsið ykkur að árið 2017 létust 32 áfengis- og vímuefnasjúklingar undir fertugu, 14 þeirra voru undir þrítugu. Dauðsföllin voru fimm fleiri en árið áður. Þessa auknu dánartíðni má rekja til aukningar á notkun sterkra ópíóða eða morfínskyldra lyfja í æð.“

Inga vitnar til orða Þórarins Tyrfingssonar um að stíflan sé brostin í þessum málum og á síðustu tveimur árum hafi yfirvöld misst stjórn á vandanum. Peninga vanti til að bregðast við og biðlistinn á Vogi hafi aldrei verið lengri.

Fjallað hefur verið um þennan vanda í fréttaskýringum í Morgunblaðinu undanfarið. Í byrjun mánaðar kom fram að mikil fjölgun hefði orðið í þeim hópi sem leitar sér þjónustu í verkefni sem nefnist Frú Ragnheiður og snýst um að hjálpa fíklum að takmarka skaðann af neyslunni.

Frú Ragnheiður er bíll sem sex kvöld í viku er á ferð í borginni og veitir heimilislausum og þeim, sem nota vímuefni í æð, hjúkrunar- og nálaskiptaþjónustu. Í greininni er rætt við Svölu Jóhannesdóttur, verkefnastýru Frú Ragnheiðar, og kemur fram í máli hennar að 120 einstaklingar leiti nú til Frú Ragnheiðar á mánuði. 80% þeirra noti vímuefni í æð og meirihlutinn sé heimilislaus. Hún segir að frá 2012 til 2017 hafi heimilislausum fjölgað um 95% í Reykjavík og nú séu 349 skráðir heimilislausir í borginni. Fleiri sofi nú úti en áður og við það geti líkamlegu og andlegu ástandi hrakað mikið.

Ópíóðar eða morfínskyld lyf á borð við Oxycotin, Contalgin og Fentanyl hafa valdið miklum skaða í Bandaríkjunum. Í sumum landshlutum er ástandið þannig að í heilu bæjarfélögunum er vart að finna fjölskyldu, sem ekki hefur misst einhvern nákominn vegna þessara lyfja. Um 90 manns láta lífið á degi hverjum í Bandaríkjunum af völdum ópíóða eða svipaður fjöldi og í bílslysum og er talað um faraldur. Þessi lyf eru notuð til að stilla verki og eru einstaklega ávanabindandi. Þeir, sem ánetjast þeim, byrjuðu oft að neyta þeirra við verkjum eftir slys. Vandinn er rakinn til þess að lyfin hafi verið gefin í of miklum mæli. Notkun þeirra leiðir síðan iðulega út í heróínneyslu.

Hér á landi hefur verið brugðist við með því að takmarka aðgengi að morfínskyldum lyfjum. Það voru tímabærar aðgerðir og nauðsynlegar. Hins vegar hefur það valdið erfiðleikum meðal þeirra, sem eru háðir þessum lyfjum.

Svala Jóhannesdóttir segir að minna komi af morfínskyldum lyfjum inn á ólöglega markaðinn eftir að nýr lyfjagagnagrunnur var tekinn í notkun og þar með hert á eftirliti með lyfjaávísunum. Nú kosti ein 100 mg tafla af Contalgin 8.000 krónur, en hafi fyrir rúmu ári kostað 4.000 til 5.000 krónur. Þetta hafi leitt þess að sumir hafi skipt yfir í Fentanyl-plástra. Þá fáist meira fyrir peninginn, en um leið sé það hættulegasta efnið til að sprauta sig. Afleiðingin hafi verið aukning á ofskömmtun af morfínskyldum lyfjum hér á landi og í fyrra hafi nokkrir skjólstæðingar Frú Ragnheiðar dáið úr ofskömmtun.

Svala segir að bregðast þurfi við. Með því að leyfa Frú Ragnheiði að nota lyfið Naloxone mætti til dæmis koma í veg fyrir dauðsföll af völdum of stórra skammta. Naloxone kemur í veg fyrir ofskömmtun morfínskyldra lyfja, en er hættulaust og víða dreift til fíkla.

Hún nefnir einnig að með því að opna neyslurými hér yrði til athvarf þar sem fólk geti komið með sín vímuefni og notað í öruggu, hreinu og áhættulausu umhverfi þar sem sérþjálfað starfsfólk er til taks. Nú er hafinn undirbúningur í velferðarráðneytinu á vegum Svandísar Svavarsdóttur að opnun slíkrar aðstöðu fyrir langt leidda vímuefnaneytendur.

Það þarf að horfast í augu við það að samhliða aðstoð við að fara í meðferð og hætta neyslu þarf að hjálpa þeim fíklum sem ekki ráða við að stíga það skref. Með slíkri aðstoð væri hægt að koma í veg fyrir útbreiðslu smitsjúkdóma og draga úr þeim skaða sem neyslan veldur og veita athvarf án þess að dæma.