Þorvaldur Snæbjörnsson rafvirkjameistari fæddist á Akureyri 30. ágúst 1930. Hann lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 11. janúar 2018.

Foreldrar Þorvaldar voru hjónin Snæbjörn Þorleifsson, bifreiðaeftirlitsmaður á Akureyri, f. 1901, d. 1959, og Jóhanna Þorvaldsdóttir húsfreyja, f. 1895, d. 1983. Systkini Þorvaldar voru Erla, f. 1927, d. 1929, Birgir, f. 1929, d. 2008, og Hulda Sigrún, samfeðra, f. 1923, d. 2013.

Þorvaldur kvæntist Guðrúnu Margréti Kristjánsdóttur 24. október 1953. Foreldrar hennar voru hjónin Kristján Helgason, verkstjóri á Akureyri, f. 1894, d. 1987, og Vilborg Guðjónsdóttir verkakona, f. 1905, d. 1994. Börn Þorvaldar og Guðrúnar eru: 1) Andvana fæddur drengur 1954. 2) Margrét, f. 1955, maki Pétur Björnsson, f. 1955. Börn þeirra eru Kristinn, Ósk, Sunna Guðrún og Bryndís. 3) Snæbjörn, f. 1957, maki Björk Guðmundsdóttir, f. 1957. Börn þeirra eru Hrönn og Þorvaldur. 4) Kristján, f. 1959, sambýliskona Kristín Þórsdóttir, f. 1955. Börn Kristínar eru Þór, Rut og Sif. 5) Sverrir, f. 1965, maki Aðalheiður Guðjónsdóttir. Sonur Sverris er Gunnar Grétar. Synir Aðalheiðar eru Guðjón Ágúst og Árni. Barnabarnabörnin eru sex.

Þorvaldur lærði rafvirkjun á Akureyri og starfaði við þá iðn allan sinn starfsaldur. Hann stofnaði fyrirtækið Glóa ásamt félaga sínum og starfaði síðar hjá Rafveitu Akureyrar til ársins 2000 þegar hann lét af störfum fyrir aldurs sakir.

Þorvaldur og Guðrún hófu byggingu á húsi sínu í Löngumýri árið 1954 og fluttu inn ári síðar. Þar bjó fjölskyldan í 10 ár, þar til þau byggðu annað hús í Kotárgerði þar sem þau bjuggu til ársins 2014. Það ár fluttu þau svo í Brekatún 2.

Á sínum yngri árum stundaði Þorvaldur frjálsar íþróttir, skautahlaup og íshokkí og var félagi í Skautafélagi Akureyrar og KA. Önnur áhugamál Þorvaldar voru skíðamennska með fjölskyldunni allri, laxveiði, golf, kartöflurækt og garðrækt og áttu þau hjón fallegan verðlaunagarð við heimili sitt.

Þorvaldur söng um árabil með Karlakórnum Geysi og á seinni árum með kórnum „Í fínu formi“, kór eldri borgara. Hann var meðlimur í Oddfellowreglunni og Lionsklúbbnum Hugin.

Útför Þorvaldar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 22. janúar 2018, klukkan 13.30.

Ég var að undirbúa mig fyrir ferð til Englands þar sem ég ætlaði að eiga nokkra daga með börnum og barnabörnum, þegar símtalið kom. Pabbi minn var kominn á sjúkrahús eftir að hafa verið fluttur þangað fyrr um morguninn. Tæpum tveimur tímum síðar kom annað símtal. Englandsferð mun bíða betri tíma.

Pabbi var Innbæingur og í Innbænum stunduðu ungir menn skautahlaup og renndu sér á skíðum á vetrum. Pabbi og bróðir hans fóru til sumardvalar í Reykjahverfi og síðar í Hveragerði þar sem áhugi hans á garðrækt, sem síðar varð eitt hans helsta áhugamál, hefur líklega kviknað. Hann lærði rafvirkjun og starfaði við þá iðn allan sinn starfsaldur en áhugamálin voru mörg og fjölbreytt. Ég man fyrst eftir skíðaferðum í Fjallið. Þar var ein skíðalyfta sem var bara kaðall sem menn ríghéldu í til að komast upp brekkuna. Seinna bættust svo fleiri lyftur við, ekki svo að hann þyrfti á þeim að halda. Hann notaði þær aldrei, heldur fór allra sinna ferða á gönguskíðum á meðan frúin og börnin renndu sér á svigskíðum. Á sumrin var farið í útilegur með hjólhýsið og í veiðiferðir. Hann var slyngur veiðimaður og margan stórlaxinn dró hann úr Laxá í Þingeyjarsýslu og Sandá í Þistilfirði. Mamma var oft með í för, þá setti hann gjarnan í og þreytti laxinn og hún landaði.

Frá því ég man eftir mér voru þau bæði í kórum. Hann í Karlakórnum Geysi og hún Gígjunum og fleiri kórum og saman náðu þau nokkrum árum í kór eldri borgara á Akureyri, Í fínu formi, eða þar til hann sagði skilið við sönginn. Og í fínu formi var hann. Þegar veiðiferðunum fækkaði snéri pabbi sér að golfinu sem mamma hafði þá þegar uppgötvað. Á sumrin var spilað á heimavellinum og líka vítt og breitt um landið. Þau fóru í golfferðir til Írlands, Ameríku og Spánar og í heimsóknum þeirra til mín og fjölskyldunnar til Englands var oftast nær skroppið á völlinn.

Við húsið sitt í Kotárgerði áttu þau skrúðgarð þar sem unnið var löngum stundum. Þar blómstruðu rósir og dalíur og epli uxu á trénu í gróðurhúsinu. Myndarlegur kartöflugarður var líka á lóðinni og þar voru teknar upp bestu kartöflur í heimi.

En pabbi kunni líka að taka lífinu með ró og á sólríkum sumardögum naut hann veðurblíðunnar á pallinum sunnan við hús. Árið 2014 fluttu mamma og pabbi í íbúð með útsýni yfir golfvöllinn og Eyjafjörðinn allan. Heilsu pabba hafði hrakað hin síðari ár, en hann var heppinn að geta dvalið heima fram á síðasta dag, því hvergi annars staðar vildi hann vera.

Blessuð sé minning pabba míns.

Margrét.

Við fráfall Þorvaldar tengdaföður míns leitar hugurinn 45 ár aftur í tímann. Þá var ég menntaskólanemi á Akureyri og leigði herbergi vetrarpart í Kotárgerði 20 við hliðina á honum og hans fjölskyldu sem bjuggu í Kotárgerði 18 í tæplega hálfa öld. Örlögin höguðu því síðan svo síðsumars sama ár að leiðir mínar og Margrétar, einkadótturinnar í Kotárgerði 18, lágu saman og hafa gert síðan. Þegar ég fór að venja komur mínar í Kotárgerði 18 tók ég fljótt eftir því að húsbóndinn var maður fárra orða. Hann tók mér samt vinsamlega og gaukaði að mér aukavinnu hjá Rafveitunni þegar færi gafst. Þegar upplýstist rúmu ári seinna að einkadóttirin var kona eigi einsömul, rétt nítján ára að aldri, var því tekið af rósemi og sjálfsagt einhverri blöndu af kvíða og eftirvæntingu. Og sökudólgurinn fluttist inn á heimilið. Drengur fæddist um vorið, átti heimili hjá ömmu sinni og afa ásamt móður sinni fyrsta árið og varð þeirra augasteinn.

Eitt af einkennum Þorvaldar var iðni, endalaus iðni. Honum féll sjaldan verk úr hendi. Garðurinn þeirra í Kotárgerði var einn fegursti garður norðan fjalla og margverðlaunaður. Í þokkalegu veðri frá vori til hausts var Þorvaldur kominn á fætur fyrir allar aldir og vann í garðinum í tvo tíma áður en farið var til vinnu. Og ef sæmilega hlýtt var í veðri voru öll klæði ofan beltis spöruð.

Þorvaldur var mikill veiðimaður og stangveiðin í uppáhaldi. Hann var einn af hluthöfum í veiðifélagi í Laxá í Aðaldal um áratuga skeið og fór þangað oft á hverju sumri. Hann og Alli vinur hans fóru einnig í aðrar ár og vötn. Það er fræg sagan af því þegar þeir félagar fóru til veiða upp á Arnarvatnsheiði. Þeir fengu fljótlega góða veiði og setti Þorvaldur silungana í bing. Þegar hann ætlaði eitt sinn að bæta í binginn var allt horfið. Þetta þótti með miklum ólíkindum en við nánari skoðun kom í ljós að bingurinn hafði verið staðsettur rétt fyrir framan opið á minkagreni.

Golf var annað áhugamál þeirra hjóna. Þegar um fór að hægjast á efri árum var spilað flesta daga og ekki eru nema örfá ár síðan heilsan aftraði Þorvaldi frá þeirri ágætu íþrótt. En þá tók sjónvarpið við og horfði hann á golf og reyndar allar íþróttir almennt fram á síðasta dag.

Tengdapabbi var mikill gæfumaður í sínu einkalífi. Hann var 21 árs þegar hann og Guðrún tengdamóðir mín, þá 17 ára, tóku saman og giftu sig tveimur árum seinna. Síðan eru liðin tæp 65 ár. Það reyndi þó á ungu hjónin í upphafi því að fyrsta barnið fæddist andvana. Síðan fæddust hin systkinin fjögur á 10 árum. Þeirra hjónaband hefur verið ákaflega farsælt. Þau deildu sömu áhugamálum, sérstaklega þegar um fór að hægjast. Hann naut þeirrar gæfu að eyða ævikvöldinu á sínu heimili, sem ekki hefði verið gerlegt allra síðustu árin nema vegna þess hversu heilsuhraust og mögnuð Guðrún er. Það kom aldrei til greina að þar yrði breyting á gegn hans vilja.

Ég kveð Þorvald tengdaföður minn með mikilli virðingu og þökkum fyrir það sem hann var mér og mínum.

Blessuð sé minning hans.

Pétur.

Nú hefur einn allra besti vinur minn, Þorvaldur Snæbjörnsson, kvatt þetta jarðlíf. Mig setur hljóðan og ég hugsa til þess tíma er við hjónin fluttum til Akureyrar árið 1958. Við leigðum lítið hús í Löngumýri 14 og í næsta húsi bjuggu hjónin Þorvaldur og Guðrún ásamt ungum börnum sínum.

Á öðrum eða þriðja degi eftir komu okkar ber Þorvaldur (Lilli) að dyrum og spyr mig hvort hann megi ekki bjóða mér að líta í kjallarann til sín. Hann var að koma úr Svartá og vildi sýna mér tvo fallega laxa sem þar lágu á gólfinu. Þannig var ísinn brotinn með löngu spjalli um lax- og silungsveiði. Þetta var upphafið að 50 ára nánu vinfengi okkar Lilla og eiginkvenna okkar sem aldrei bar skugga á.

Við fórum saman í veiðiferðir í ótal ár og vötn. Oft vorum við saman um stöng og fór ævinlega vel á með okkur. Þorvaldur þekkti vel til veiðistaða í Laxá í Aðaldal enda hafði hann oft farið þar til veiða með föður sínum á yngri árum og naut ég góðs af hann reynslu. Jafnan hittumst við kvöldið fyrir veiðiferð í bílskúrnum ýmist hjá mér eða honum. Var þá farið yfir veiðistangir, flugnabox, maðkabox og annað sem ekki mátti gleymast. Kom þá oft fyrir að einhvers staðar fannst peli með hressandi legi og varð þessi undirbúningur oft lengri en til stóð.

Í mörgum veiðiferðanna komu konur okkar með. Þá var legið í tjaldi og jafnan glatt á hjalla að kvöldi dags er ræddar voru uppákomur dagsins, gleðin yfir góðri veiði og svekkelsi þegar sá stóri slapp.

Um vin minn Þorvald má segja að hann var harðduglegur til allra verka, hvort sem það var í fagi hans sem rafvirki eða í garðvinnu kringum heimili hans. Þegar þau hjón byggðu hús í Kotárgerði 18 vann Þorvaldur stórvirki í garðinum svo eftir var tekið. Enda hlutu þau sérstaka viðurkenningu frá Akureyrarbæ fyrir fegursta garðinn. Og þegar við Pat byggðum okkar hús í Birkilundi var Lilli ávalt boðinn og búinn að leggja hönd á plóg.

Við Þorvaldur vorum lengi söngfélagar í karlakórnum Geysi og fórum ásamt konum okkar í söngferðir til Ítalíu og Englands sem lengi verða í minnum hafðar. Hin síðari ár áttum við svo marga góða daga með þeim hjónum sveiflandi golfkylfum á Jaðarsvelli.

Það er sama hvar hug ber niður á langri ævi; alls staðar kemur vinur minn, Lilli, inn í myndina sem drengur góður með ljúfmennsku, hnyttni og húmor í farteskinu.

Nú þegar Guðrún og fjölskylda kveðja ástríkan eiginmann, föður, afa og langafa sendum við Pat innilegustu kveðjur með huggunarorðum Fjallaskáldsins:

Æ hverf þú ein af auga mér

þú ástarblíða tár,

er sorgir heims í burtu ber

þótt blæði hjartans sár.

Lilli minn, vertu sæll kæri vinur.

Blessuð sé minning þín.

Aðalsteinn Jónsson.