Söguhetjan Guðni í Garðskagavita.
Söguhetjan Guðni í Garðskagavita. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Í síðustu viku var frumsýnd í Garðinum suður með sjó heimildamyndin Guðni á trukknum. Hún fjallar um lífshlaup Guðna Ingimundarsonar frá Garðstöðum í Garði, sem er þekktur maður á sínum heimaslóðum.

Í síðustu viku var frumsýnd í Garðinum suður með sjó heimildamyndin Guðni á trukknum. Hún fjallar um lífshlaup Guðna Ingimundarsonar frá Garðstöðum í Garði, sem er þekktur maður á sínum heimaslóðum. Gerði lengi út trukk með lyftibúnaði og loftpressu, sá um fleygun og sprengdi jarðveg. Kom með trukkinn að fjölda verkefna í höfnum á Suðurnesjum og þegar þurfti að færa til báta. Þá tók hann að sér að ná málmi úr strönduðum skipum. Einnig hefur Guðni gert upp á annað hundrað mótora og vélar af ýmsum gerðum og komið í gang. Vélarnar eru varðveittar í Byggðasafninu í Garðinum.

„Guðni, sem er fæddur 1923, hefur alltaf vakið áhuga minn. Sögurnar sem maður hefur heyrt alla tíð um afrekin hans eru goðsagnakenndar. Fyrir mér er hann tákn Garðsins,“ segir Guðmundur Magnússon sem gerir myndina. Hann er sjálfur úr Garðinum, menntaður í kvikmyndagerð og hefur gert heimildamyndir um lífið í heimabyggð sinni.

Myndin er sýnd í annað sinn í Miðgarði, sal Gerðaskóla, næstkomandi miðvikudag, 24 janúar, klukkan 19:30. Aðgangseyrir er 2.000 krónur. Myndin verður jafnvel sýnt víðar, sem tilkynnist þá á svgardur.is sem er síða Sveitarfélagsins Garðs. Það, Uppbyggingarsjóður Suðurnesja og Isavia hafa styrkt gerð myndarinnar og bakhjarlarnir eru margir fleiri.