— Ljósmynd/Andrew Murray
Hlutverk Hönnunarsafns Íslands er að safna og varðveita þann þátt íslenskrar menningar sem lýtur að hönnun, einkum frá aldamótunum 1900 til samtímans. Safnið á og geymir um 900 íslenska og erlenda muni, sem margir hafa mikla menningarsögulega þýðingu.

Hlutverk Hönnunarsafns Íslands er að safna og varðveita þann þátt íslenskrar menningar sem lýtur að hönnun, einkum frá aldamótunum 1900 til samtímans. Safnið á og geymir um 900 íslenska og erlenda muni, sem margir hafa mikla menningarsögulega þýðingu. Safnkosturinn fer sístækkandi, enda æ fleiri hönnuðir sem hasla sér völl og koma fram með vandaða gripi sem standast alþjóðlegan samanburð og eru hvort tveggja nytjamunir og/eða skrautmunir.

Í safnkostinum er sófasett hannað af Gunnari Magnússyni árið 1962 skráð með eftirfarandi hætti:

Sófasett

Gunnar Magnússon (1933)

Inka-sófasett, 1962

Eik, ull

Nývirki

Gjöf: Helga og Ólafur Ögmundarbörn. Úr dánarbúi hjónanna Rögnu Ólafsdóttur og Ögmundar Helgasonar, 2011.

Inka-sófasett með íslensku ullaráklæði, ekki upprunalegu, og grind úr eik. Inka-húsgagnalínan var fyrst framleidd hjá danska fyrirtækinu Skalma en Gunnar hafði þá lokið námi í Danmörku og var farinn að vinna fyrir dönsk fyrirtæki. Línan var fyrst sýnd á Fredericia-húsgagnasýningunni vorið 1962. Nývirki framleiddi húsgögnin fyrir íslenskan markað, aðallega úr furu með íslensku ullaráklæði. Húsgögnin voru framleidd með sjáanlegum koparskrúfum í grindinni (síðar svörtum innfelldum skrúfum) og voru á tímabili nefnd Prima. Inka-stóllinn hlaut viðurkenningu Iceland Review árið 1968 þar sem hann var sýndur á sýningu Félags íslenskra húsgagnaarkitekta. Inka-settið var einnig sýnt á Húsgagnavikunni í Laugardalshöll árið 1969.