Alþingi Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, er flutningsmaður frumvarps um lækkun kosningaaldurs til sveitarstjórnarkosninga.
Alþingi Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, er flutningsmaður frumvarps um lækkun kosningaaldurs til sveitarstjórnarkosninga. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Magnús Heimir Jónasson mhj@mbl.is Þing kemur saman í fyrsta skipti á nýju ári í dag. Ákveðið var um helgina að hefja þingstörf á leiðtogaumræðum og fá allir flokkar sem eiga fulltrúa á þingi tíma til að ræða mál að eigin vali.

Magnús Heimir Jónasson

mhj@mbl.is

Þing kemur saman í fyrsta skipti á nýju ári í dag. Ákveðið var um helgina að hefja þingstörf á leiðtogaumræðum og fá allir flokkar sem eiga fulltrúa á þingi tíma til að ræða mál að eigin vali. „Það var allt mjög aðþrengt í tíma yfir jól og áramót og lítill tími til almennrar umræðu,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis. „Það var samkomulag um að hleypa smá pólitískri umræðu að. Flokkarnir ráða því sjálfir hvað verður tekið fyrir. Ekkert sérstakt gefið upp annað en bara staða stjórnmálanna í byrjun árs og verkefni vorþingsins.“

Áætlað er að hver flokkur fái 10 mínútna ræðutíma.

Á morgun mun Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra mæla fyrir fjármálastefnu næstu fimm ára. Þingmannamál verða síðan á dagskrá á miðvikudaginn og fimmtudaginn þar sem allir flokkarnir fá að koma forgangsmálum sínum að.

„Við erum að taka mál sem þingflokkarnir hafa valið að setja í forgang og leggjum af stað í umferð númer tvö sem verður þá forgangsmál þingflokka. Það er þá skipulagt að hver flokkur kemur einu forgangsmáli frá sér að í slíkri umferð. Það kemur bara í ljós hvaða mál það verða þegar við förum að raða inn á dagskrána. Það eru þrjár vikur framundan þangað til kemur að kjördæmaviku,“ segir Steingrímur.

Lækkun kosningaaldurs

Fyrsta þingmannamál Vinstri grænna verður að sögn Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, þingflokksformanns VG, frumvarp um lækkun kosningaaldurs, sem var mælt fyrir á síðasta ári. Flokkurinn mun síðan leggja til frumvarp um endurgreiðslu vegna gleraugnakaupa barna. „Við erum í rauninni að sjá til þess að börn undir 10 ára fái gleraugu allt að tvisvar á ári og annað hvert skipti eftir það, til 18 ára aldurs. Börn sem eru í sérstakri áhættu og metin er læknisfræðileg nauðsyn á, fái svo alfarið endurgreitt, meðan þau eru að þroskast,“ segir Bjarkey og bætir við að einnig þurfi að uppfæra gjaldskrána, sem ekki hefur verið uppfærð lengi. Þá mun frumvarp Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur, þingmanns VG, um málefni fylgdarlausra barna sem sækja um alþjóðlega vernd einnig verða lagt fram á vorþingi.

Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður Framsóknar, segir að þingflokkurinn muni funda í dag og ákveða hvaða frumvörp verða sett í forgang. Sjálfstæðisflokkurinn mun einnig taka ákvörðun í dag um hvaða þingmannamál verða tekin fyrir, að sögn Birgis Ármannssonar, þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins. Samfylkingin mun leggja fram frumvarp í vikunni sem snýr að lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði. „Við ætlum að leggja fram frumvarp um lengra fæðingarorlof. Það verður okkar forgangsmál sem við mælum fyrir á miðvikudaginn. Síðan erum við með nokkur mál, sem einstaka þingmenn hafa lagt fram og síðan erum við með mál í vinnslu sem tengjast velferðarmálum, menntamálum og auðlindum þjóðarinnar,“ segir

Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar. Spurð um hvaða málum flokkurinn sé að vinna að í þeim málaflokkum segir Oddný að það muni skýrast. Þetta séu málefnin sem Samfylkingin muni leggja áherslu á á vorþingi.