Efnileg Tíana Ósk er gríðarlega efnilegur hlaupari sem gaman verður að fylgjast með í framtíðinni. Hér reynir María Rún úr FH að ná henni.
Efnileg Tíana Ósk er gríðarlega efnilegur hlaupari sem gaman verður að fylgjast með í framtíðinni. Hér reynir María Rún úr FH að ná henni. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Laugardal Skúli Unnar Sveinsson skuli@mbl.is Tíana Ósk Whitworth, hlaupari úr ÍR, setti sér makmið fyrir nýbyrjað ár og það var að bæta Íslandsmetið í kvennaflokki í 60 metra hlaupi.

Í Laugardal

Skúli Unnar Sveinsson

skuli@mbl.is

Tíana Ósk Whitworth, hlaupari úr ÍR, setti sér makmið fyrir nýbyrjað ár og það var að bæta Íslandsmetið í kvennaflokki í 60 metra hlaupi. Hún náði markmiði sínu strax í fyrsta hlaupi ársins þegar hún kom í mark á 7,47 sekúndum á Stórmóti ÍR í Laugardalshöllinni. Þar með bætti hún met Hrafnhildar Eirar frá árinu 2015 sem var 7,50 sekúndur. Ekki slæmt að hefja árið með þessum hætti. Þar sem Tíana Ósk er á átjánda aldursári er þetta að sjálfsögðu einnig met í flokki 18-19 ára og 20-22 ára.

„Ég setti mér það markmið að bæta þetta met á árinu, en það er bara frábært að ná því markmiði í fyrsta hlaupi ársins. Vonandi verður framhald á þessu hjá mér á árinu, en nú þurfum við þjálfarinn minn að setja okkur ný markmið og ákveða hvað næsta skref verður,“ sagði Tíana Ósk í samtali við Morgunblaðið eftir að Íslandsmetið var í höfn.

Hún bætti sig um 12 sekúndubrot í 60 metra hlaupinu og það er ekki svo lítið enda ekki langt hlaup. „Þetta er svolítið mikil bæting í 60 metrunum og ég er rosalega ánægð með það. Styttri hlaupin eru mitt sterkasta,“ sagði Íslandsmethafinn, sem á nokkur aldursflokkamet, „en þetta er fyrsta Íslandsmetið sem ég set í kvennaflokki,“ segir hún.

Þetta er í 22. sinn sem Stórmót ÍR er haldið og að þessu sinni voru ríflega 700 keppendur skráðir til leiks frá 33 félögum alls staðar að af landinu auk þess sem Færeyingar sendu keppendur frá fjórum félögum. Það þarf heljarinnar skipulag og undirbúning til að mót sem þetta gangi hnökralaust fyrir sig og þar virðast ÍR-ingar á heimavelli. Mótið gekk vel, tímasetningar stóðust svo gott sem upp á sekúndu og þeir Gunnar Páll Jóakimsson og Þráinn Hafseinsson sáu um að áhorfendur fengju allar nýjustu fréttir um úrslit og stöðuna í hinum ýmsu greinum jafnharðan, en þeir skiptu með sér þularstarfinu. Alls munu um 130 sjálfboðaliðar hafa komið að mótinu.

Tíana Ósk keppti einnig í 200 metra hlaupi og sigraði þar og var þokkalega ánægð með tímann, 24,58 sekúndur, og bætti sinn besta tíma um eitt sekúndubrot.

„Ég er mjög sátt við 200 metrana, þeir eru ekki mitt sterkasta þar sem ég er ekki með besta hraðaþolið, en ég hef unnið talsvert í þessu og er mjög ánægð með að bæta mig svona snemma árs,“ sagði Tíana Ósk.

Hún var lengi í fimleikum en skipti í frjálsar þegar hún var í grunnskóla. „Ég var í fimleikum en íþróttakennarinn minn í grunnskóla, hann Jói, sá þegar við vorum í hlaupaprófi að ég yrði að fara í frjálsar og kom mér í þetta allt saman,“ sagði Tíana Ósk.

Hún segir gaman að keppa á móti sem þessu. „Það er rosalega gaman að keppa á svona mótum. Þó þetta sé einstaklingsíþrótt þá hvetja mann allir, jafnvel þótt þeir séu ekki í sama félagi.“