Helgi R. Einarsson er kominn heim úr sólinni á Fuenteventura. Þar varð ýmislegt til. Ég nefni fyrst „Ásetningslimrurnar“: Þær lifnuðu' og lífsandann drógu limrurnar, sem ekki dóu.

Helgi R. Einarsson er kominn heim úr sólinni á Fuenteventura. Þar varð ýmislegt til. Ég nefni fyrst „Ásetningslimrurnar“:

Þær lifnuðu' og lífsandann drógu

limrurnar, sem ekki dóu.

Það var af því,

þrengingum í,

að eign sinni' á efnið þær slógu.

Síðan eru eftirmæli:

Sigurður fæddist í Fljótunum

og frekar var stoltur af rótunum,

sem skiluðu öngu

á lífsins göngu

því aldrei hann var með á nótunum.

Og það er mikil „Seigla“ í karli!:

Þeir sem að vaða í villu

því vitlausri eru á hillu

framtíð oft sjá,

fara á stjá

og göslast með góðu' eða illu.

Á dögunum fitjaði Dagbjartur Dagbjartsson upp á gömlu deilumáli á Boðnarmiði þegar hann spurði: „Hef víst spurt að þessu áður en gleymt svarinu hafi málið þá verið upplýst. Veit nokkur hver orti þetta????:

Viti sneyddan eymdaróð

atómskáldin sungu

það getur enginn þeirra ljóð

þýtt á nokkra tungu.“

Jón Gissurarson kveðst ekki vita hver orti, en Ingimar Bogason á Sauðárkróki sendi eitt sinn eftirfarandi fyrirspurn í vísnaþátt í Ríkisútvarpinu. Þetta var á bernskudögum atómljóðanna:

Ein er spurning okkur frá

öllum ljóðavinum.

Hvaða munur er nú á

atómskáldi og hinum?

Ingólfur Ómar Ármannsson skaut inn þessar vísu:

Þeir sem hnoða eymdaróð

aldrei njóta hylli.

Hinir yrkja eðal ljóð

og auðga rímsins snilli.

Dagbjartur Dagbjartsson rifjaði upp vísu eftir Þorskabít:

„Að smíða úr efni svo í stuðlum standi

ei stór er list þó margur dáist að

en smíða efni er öllu meiri vandi

og engir nema skáldin geta það.“

Þessi vísnaskipti kalla fram aðrar. Fyrst eftir Konráð Gíslason:

Hugsað get ég um himin og jörð

...en hvorugt smíðað.

Vantar líka efnið í það.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is