Samfélag okkar er orðið alltof vélrænt. Viðbrögð við því sem úrskeiðis fer eru ískyggilega oft þannig að vandann virðist eiga að leysa með verkfræðilegum aðferðum.

Samfélag okkar er orðið alltof vélrænt. Viðbrögð við því sem úrskeiðis fer eru ískyggilega oft þannig að vandann virðist eiga að leysa með verkfræðilegum aðferðum. Er hinn mannlegi þáttur mála þá algjörlega tekinn út úr breytunni, þó að hann sé oftast orsök. Í sl. viku var í fréttum meðal annars sagt frá fjárdrætti úr opinberu fyrirtæki, að munir sem hald hafði verið lagt á hefðu horfið úr vörslu lögreglunnar og reynslusögur kvenna úr #metoo byltingunni streymdu áfram. Algengt svör við þessum málum voru að nú skyldi farið yfir verkferla, fyrirbyggjandi ráðstafanir gerðar og lærdómur dreginn af svo ósköp endurtækju sig ekki.

Það má einu gilda hve fullkomnum kerfum verður komið upp, manneskjan mun alltaf finna smugur samanber þekkta frásögn um að enginn borgarmúr er svo hár að asni klyfjaður gulli komist ekki þar yfir. Tæknilegar lausnir sem koma eiga í veg fyrir gripdeildir og græði eru sjálfsögð fyrstu viðbrögð. Þær taka samt aldrei á frumlagi og rót vandans sem er ágirnd og er ein af höfuðsyndunum sjö sem segir frá í Biblíunni. Aldrei hafa fundist neinar fullkomnar aðferðir til sem hemja þann leiða löst sem græðgin er – að minnsta kosti þegar hún brýst fram í óhófi og sem lögbrot.

Íþróttahreyfingin hefur verið í deiglu #metoo að undanförnu. Meðal þess sem fram hefur komið í fréttum Morgunblaðsins og mbl.is er að einstaka íþróttafélög ætla meðal annars að óska eftir sakavottorði þjálfara sinna, auka á fræðslu um kynferðislegt ofbeldi og birtingarmyndir þess og stjórnvöld boða ýmsar aðgerðir. Allt eru þetta skref í rétta átt, sem stuðlað geta að almennt eðlilegri og heilbrigðari og betri samskiptum þannig að girðingar hækki og ósýnilegar markalínur þess leyfilega færist innar. Hér á takmarkið að vera betri menning en munum nú samt að frumkröfunum og mannseðlinu sjálfu verður tæplega breytt þó að slíkt hafi verið reynt lengi, án þess að neinum teljandi árangri hafi skilað.