Henry Kristófer Harðarson
Henry Kristófer Harðarson
Íshokkí Sindri Sverrisson sindris@mbl.is Henry Kristófer Harðarson varð um helgina danskur bikarmeistari í íshokkí með liði sínu Aalborg Pirates. Íslendingurinn átti stóran þátt í titlinum með frammistöðu sinni í úrslitaleiknum gegn Rungsted.

Íshokkí

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

Henry Kristófer Harðarson varð um helgina danskur bikarmeistari í íshokkí með liði sínu Aalborg Pirates. Íslendingurinn átti stóran þátt í titlinum með frammistöðu sinni í úrslitaleiknum gegn Rungsted.

Ekki er víst að nafn Henrys, sem fæddur er í Vestmannaeyjum, sé íslensku íþróttaáhugafólki kunnugt en hann fluttist ungur að árum til Kaupmannahafnar og tók snemma þá ákvörðun að gefa ekki kost á sér í íslensk landslið, heldur aðeins dönsk. Taugarnar til Íslands eru hins vegar sterkar og í umfjöllun danska vefmiðilsins Faceoff.dk um úrslitaleikinn segir að „íslenski víkingurinn“ hafi fagnað bikarmeistaratitlinum með því að veifa íslenska fánanum.

Henry hafði lítið komið við sögu með Álaborgar-liðinu í vetur, skorað 3 mörk og lagt upp 5 í 30 deildarleikjum, en hann naut sviðsljóssins í úrslitaleiknum. Hann var færður úr 4. línu upp í 2. línu vegna meiðsla í liðinu, og skoraði tvö mörk í 5:2-sigri. Hann kom Aalborg fyrst í 1:0 og sá svo um að innsigla sigurinn með síðasta marki leiksins, við gríðarlegan fögnuð stuðningsmanna og liðsfélaga í „Boxinu“ í Herning, þar sem undanúrslit og úrslit fóru fram.

„Jú, þetta var besti leikurinn minn á tímabilinu, það er á hreinu. Ég hef átt svolítið erfitt uppdráttar á tímabilinu en þetta gefur manni vonandi gott sjálfstraust,“ sagði Henry við Faceoff.dk. Þrátt fyrir að hafa búið í Bandaríkjunum, Svíþjóð og Danmörku segist hann líta á sig sem „hundrað prósent Íslending“.

Faceoff.dk segir ljóst að hefði Henry áhuga á að spila fyrir íslenska landsliðið væri þessi 23 ára íshokkímaður án nokkurs vafa búinn að því. „En það hefur alltaf verið draumur minn að spila fyrir Danmörku,“ sagði Henry, sem auk þess að spila fyrir Aalborg hefur leikið með Rødovre, Odense og Esbjerg í Danmörku. Þegar hann var 18 ára var hann eina leiktíð hjá kanadíska liðinu Regina Pats sem leikur í WHL-deildinni, þeirri næstu fyrir neðan sjálfa NHL-deildina í Norður-Ameríku, en þaðan fór hann til Svíþjóðar og svo aftur til Danmerkur árið 2013.

Aalborg Pirates eru í 2. sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með 77 stig, sjö stigum á eftir toppliði Herning Blue Fox eftir 40 leiki af 50. Aalborg vann einmitt Herning í undanúrslitum bikarsins á föstudag.