„Markvörður ykkar er eitthvað klikkaður,“ sagði Stjepan eða Stebbi, hótelstarfsmaður í Split, við bakvörð dagsins meðan á riðlakeppni EM karla í handbolta stóð. „Nú?
„Markvörður ykkar er eitthvað klikkaður,“ sagði Stjepan eða Stebbi, hótelstarfsmaður í Split, við bakvörð dagsins meðan á riðlakeppni EM karla í handbolta stóð.

„Nú?“ svaraði ég og var tilbúinn til að taka til varna fyrir Björgvin Pál og hans andlegu heilsu sem mér virtist Stebbi ætla að fella sleggjudóma yfir.

„Já, hann stendur í markinu í stuttermatreyju!“ sagði Stebbi hneykslaður en þó vottaði fyrir aðdáun í röddinni.

Ég gerði enga tilraun til að verja þetta val Björgvins en eftir öll þessi ár var ég löngu hættur að velta því fyrir mér að hann væri í stuttermatreyju í markinu.

Þessu hafði Króatinn hins vegar veitt athygli en íbúar í Split voru mjög áhugasamir um EM og bjartsýnir á gott gengi króatíska liðsins.

Miðað við þær stikkprufur sem bakvörður dagsins tók þá voru Króatar yfirleitt jákvæðir í garð íslenska liðsins. Einn leigubílstjóri sagðist bera virðingu fyrir íslenska liðinu og vonaðist til þess að því myndi ganga vel í mótinu.

„Íslensku landsliðsmennirnir spila með hjartanu. Það er orðið fullsjaldgæft. Leikmenn fá borgað fyrir að spila með sínum félagsliðum og mörgum er alveg sama hvernig landsliðunum vegnar. En þannig er því ekki farið hjá Íslendingum,“ sagði bílstjórinn.

þetta sjálfsagt til sanns vegar færa hjá bílstjóranum. Ekki þarf að hafa áhyggjur af því að íslenskir landsliðsmenn leggi sig ekki fram í landsleikjum. Hvorki í handboltanum né öðrum íþróttagreinum.