United Silicon Heimild til greiðslustöðvunar rennur út í dag.
United Silicon Heimild til greiðslustöðvunar rennur út í dag. — Morgunblaðið/RAX
Aron Þórður Albertsson Jóhann Ólafsson Heimild til greiðslustöðvunar United Silicon rennur út í dag en forsvarsmenn fyrirtækisins yfirfara nú gögn og skoða hver næstu skref í málinu eru.

Aron Þórður Albertsson

Jóhann Ólafsson

Heimild til greiðslustöðvunar United Silicon rennur út í dag en forsvarsmenn fyrirtækisins yfirfara nú gögn og skoða hver næstu skref í málinu eru. Karen Kjartansdóttir, talsmaður fyrirtækisins, sagði að frekari fréttir væru væntanlegar í dag en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið.

United Silicon fékk í lok ágúst heimild til greiðslustöðvunar til 4. desember til að rétta af reksturinn, en sú heimild var framlengd til 22. janúar. Samkvæmt úttekt sem unnin var af norskum sérfræðingum kostar 25 milljónir evra, 3,1 milljarð íslenskra króna, að klára verksmiðjuna og koma mengunarvörnum í lag.

Skilyrði fyrir úrbótaáætlun

Í bréfi frá Umhverfisstofnun dagsett 19. janúar sl. kemur fram að fallist hafi verið á úrbótaáætlun United Silicon með skilyrðum, en United Silicon hafði tvívegis sent Umhverfisstofnun úrbótaáætlun, fyrst 14. desember 2017 og nú síðast 16. janúar.

Umhverfisstofnun krefst þess að skorsteini verði bætt á verksmiðju í þágu íbúanna til að minnka lyktarmengun á svæðinu, en stofnunin féllst ekki á ósk forsvarsmanna fyrirtækisins að fresta þeirri aðgerð fram yfir endurræsingu.

Í bréfinu segir ennfremur að fordæmalaus fjöldi frávika frá starfsleyfi hafi orðið í níu mánaða rekstrarsögu fyrirtækisins, en umbætur hafi þó átt sér stað undanfarna mánuði. Umhverfisstofnun telur að nýtt og betra reykhreinsivirki og afsog frá aftöppun og steypingu í ofnhúsi sé til bóta, en þörf sé á frekari úrbótum.

Áhugi frá fjölda aðila

Alþjóðlegir aðilar í kísiliðnaði hafa sett sig í samband við Arion banka, stærsta hluthafa United Silicon, og lýst yfir áhuga á aðkomu að starfsemi verksmiðjunnar. Kostnaður Arion banka vegna reksturs United Silicon frá því félagið fékk heimild til greiðslustöðvunar nemur meira en 600 milljónum króna, eða um 200 milljónum á mánuði. Kröfuhafar hafa einnig lýst yfir áhuga en ekki er útilokað að fyrirtækið verði sett í þrot. Í skýrslu úttektaraðila kemur fram að grunnhönnun verksmiðjunnar sé góð en augljóst sé að ódýr og óvandaður jaðarbúnaður hafi verið örsök tíðra bilana sem hafa skapað erfiðleika í framleiðsla. Það er mat sérfræðinga líkt og fyrr segir að 25 milljónir evra þurfti til að fyrirtækið verði eins og best verði á kosið.