Pétur Bjarnason fæddist 17. júlí 1941. Hann lést 31. desember 2017.

Pétur var jarðsunginn 15. janúar 2018.

„Hafþór, hvað er þú að gera hér?“ spurði Pitti gáttaður þegar ég stóð framan við hann á Vogi í febrúar 1999. Ég svaraði: „Ef þú veist ekki hvað maður gerir hér frændi, þá er ekki skrýtið að þessar meðferðir þínar hafi gengið misvel.“ Við rifjuðum þetta samtal stundum upp okkur til skemmtunar, enda ekki viðkvæmir fyrir þessum málum. Hann átti efri ár sín alveg án áfengis og fékk góðan tíma með Elsu sinni. Hann var sönnun þess að það á aldrei að gefast upp og allt getur breyst. Í raun er eðlilegt að alkóhólistar falli af og til, sjúkdómurinn er einmitt með þeim hætti. Það er lærdómsríkt að hlusta á þá sem reynt hafa föll á sjálfum sér og fyrir tilstilli manna eins og Péturs Bjarnasonar er ég ennþá sprungulaus. Alkóhólismi er erfðatengdur og í mínum ættum eru meðferðarstaðir SÁÁ gjarnan kallaðir ættaróðöl. Það er góður húmor um alvarleg mál.

Pitti átti nóg af góðum húmor og það var gaman að hlusta á hann rifja upp. En það var alltaf stutt í ljúfar minningar hans um þá sem reyndust honum vel. Hann dýrkaði móður mína, sem var gift elsta bróður hans, og lýsti henni sem engli í lífi sínu og mér þótti sérlega vænt um það. Hann talaði fallega um fleiri og það kom hlýr glampi í augun þegar góðar æskuminningar bar á góma. En margt var honum líka mótdrægt, þannig er lífið. Pitti var tvítugur um borð í Helga Flóventssyni þegar hann sökk í ágúst 1961 og þótt mannbjörg yrði sat sá atburður í honum, áfallahjálp þekktist ekki á þeim tíma.

Pitti var alveg einstaklega laginn við alla meðferð á fiski, erfði það líklega frá föður sínum, sem var afburða fiskverkandi á Húsavík. Frá barnsaldri var hann í íþróttum og spilaði fótbolta með Völsungi. Ein af mínum fyrstu æskuminningum um Pitta er mark sem hann skoraði gegn Austra á heimavelli á Húsavík, við vorum sammála um að það var rosalega flott, enda fór boltinn algerlega í bláhornið neðst. Skotið var gersamlega óverjandi. Þetta mark var rætt margsinnis og vandlega á æskuheimilinu í Grafarbakka næstu daga á eftir. Ef Völsungur tapaði leik sagði Pitti gjarnan: „En við vorum miklu meira með boltann.“ Hann var gegnheill Völsungur. Vinátta okkar endurskapaðist á nýjum grunni í ársbyrjun 1999 og eftir það snerust samtöl okkar oft um hið nýja og góða líf. Við rifjuðum upp meðferðina okkar á Vík, ekki síst þegar hann týndi öðrum eyrnatappanum í svefni og um morguninn óttuðumst við að hann hefði farið inn í höfuðið á honum, enda gat vel passað að Pitti væri með allt of útstæð ættareyru fyrir venjulega eyrnatappa. En tappinn fannst loksins á bak við rúmið og mínum manni létti verulega. Þegar við Elsa ræddum um Pitta, fyrir 70 ára afmælið hans árið 2011, vorum við sammála um að þótt hann væri yfirleitt allt of viðkvæmur og sjálfhverfur væri hann alveg sérstaklega indæl persóna. Það er svo sannarlega mín niðurstaða um frænda minn. Um leið og ég þakka samverustundir og dýrmæt samtöl sendi ég öllum aðstandendum innilegar samúðarkveðjur. Ég á minningar um Pitta sem skipta verulega miklu máli í mínu lífi.

Bjarni Hafþór Helgason.