Heimsmeistarar Frakkinn Valentin Porte í lausu lofti í leiknum gegn Svíum á laugardaginn.
Heimsmeistarar Frakkinn Valentin Porte í lausu lofti í leiknum gegn Svíum á laugardaginn. — AFP
EM Kristján Jónsson Sindri Sverrisson Spútniklið Makedóníu á EM karla í handknattleik lenti á vegg í mótinu í gær þegar liðið glímdi við Spán.

EM

Kristján Jónsson

Sindri Sverrisson

Spútniklið Makedóníu á EM karla í handknattleik lenti á vegg í mótinu í gær þegar liðið glímdi við Spán. Makedónía var í góðri stöðu í milliriðli 2 þegar að leiknum kom eftir að hafa gert jafntefli við Þýskaland og unnið Slóveníu í riðlakeppninni. Makedónar áttu hins vegar ekki möguleika gegn Spánverjum og töpuðu 20:31. Vafalaust hefur verið erfitt fyrir þjálfara Makedóníu að kyngja þessu stórtapi því hann er spænskur: Raúl González.

Danir unnu góðan sigur á Þjóðverjum, 26:25, og eru nú á toppnum með 6 stig í milliriðlinum. Þjóðverjar og Spánverjar eru jafnir með 4 stig en Makedónar eru með 3 stig. Danir og Þjóðverjar hafa hins vegar leikið fleiri leiki en þeir hvíla í næstu umferð og þá jafnast staðan út. Útlit er fyrir mikla spennu í lokaumferðinni þegar Þjóðverjar og Spánverjar mætast en þá glíma Danir við Makedóna. Tékkar eru með 2 stig í riðlinum fyrir sigurinn óvænta á Dönum í riðlakeppninni en Slóvenar með 1 stig. Kemur það nokkuð á óvart þar sem Slóvenía vann til bronsverðlauna á HM í fyrra.

Töp hjá Norðurlandaþjóðum

Norðurlandaþjóðirnar Svíar og Norðmenn töpuðu báðar í milliriðli 1 á laugardaginn gegn erfiðum andstæðingum. Frakkar lögðu Svía að velli, 23:17, þar sem varnir og markvarsla voru í fyrirrúmi. Erfiður dagur í sókninni hjá lærisveinum Kristjáns Andréssonar í sænska liðinu. Ávallt virðist hins vegar mikið vera skorað í leikjum Norðmanna en þeir töpuðu 32:28 fyrir gestgjöfunum Króötum.

Hinir sigursælu Frakkar standa vel að vígi með 6 stig í milliriðlinum eða eins mörg og mögulegt er á þessum tímapunkti. Króatar eru einnig með 6 stig en hafa leikið fleiri leiki. Það hafa Norðmenn einnig gert en þeir eru með 4 stig eins og Svíar. Hvíta-Rússland og Serbía eru án stiga. Áhugaverðar viðureignir eru framundan þegar Frakkar og Króatar takast á sem og grannarnir Svíar og Norðmenn. Svíar standa betur að vígi en Króatar ef liðin skyldu fá jafn mörg stig eftir sigur í innbyrðis viðureign liðanna

Ofþrifnar stuttbuxur

Athygli vakti í gær að danska handknattleikssambandið var sektað af Handknattleikssambandi Evrópu, EHF, um jafnvirði tæplega 90 þúsund íslenskra króna. Ástæðan er liturinn á stuttbuxum sem tveir leikmenn danska landsliðsins klæddust, undir keppnisstuttbuxum sínum, í leik gegn Tékkum.

Leikmennirnir sem um ræðir eru Rasmus Lauge og Lasse Svan, en EHF taldi þá hafa brotið reglur um að innanundirbuxur verði að vera í nákvæmlega sama lit og stuttbuxurnar í keppnisbúningi viðkomandi liðs. Þannig mátti Lauge ekki klæðast gráleitum buxum undir hvítum stuttbuxum danska liðsins. TV 2 hefur eftir Mads Mensah, leikmanni danska liðsins, að gráleitu buxurnar hans hafi meira að segja upphaflega verið hvítar en einfaldlega farið of oft í þvottavél og orðið gráleitar!