Ánægður Sindri Freysson hlaut í gær Ljóðstaf Jóns úr Vör.
Ánægður Sindri Freysson hlaut í gær Ljóðstaf Jóns úr Vör. — Morgunblaðið/Eggert
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is „Þessi viðurkenning kemur mér ánægjulega á óvart,“ segir Sindri Freysson sem í gær hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör fyrir ljóð sitt „Kínversk stúlka les uppi á jökli“ þegar þau voru afhent í 17.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Þessi viðurkenning kemur mér ánægjulega á óvart,“ segir Sindri Freysson sem í gær hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör fyrir ljóð sitt „Kínversk stúlka les uppi á jökli“ þegar þau voru afhent í 17. sinn á 101 árs fæðingardegi Jóns úr Vör. Önnur verðlaun hlaut Hrafnhildur Þórhallsdóttir fyrir „Elegíu“ og þriðju verðlaun Valgerður Benediktsdóttir fyrir „Íshvarf“. Handhafi Ljóðstafsins fær farandgrip til varðveislu í eitt ár, verðlaunagrip til eignar og 300 þús. kr. peningaverðlaun, 200 þús. kr. eru í verðlaun fyrir annað sætið og 100 þús. kr. fyrir það þriðja.

„Þegar maður sendir ljóð í svona keppni er maður að kasta snjóbolta út í myrkrið og getur aldrei gengið að neinu vísu, enda mörg reynd og hæf skáld ár hvert sem taka þátt í keppninni. En ég hafði trú á þeim texta sem ég sendi inn,“ segir Sindri og bendir á að keppnin hafi vaxið að virðingu og krafti á þeim árum sem Ljóðstafurinn hefur verið veittur. „Þessi verðlaun eru mjög mikilvæg og Kópavogsbæ til mikils sóma að hafa haldið þeim úti öll þessi ár,“ segir Sindri og tekur fram að peningaupphæðirnar sem veittar eru fyrir vinningsljóðin séu myndarlegar. Einnig þyki sér ánægjulegt að vera kominn í góðan hóp fyrri vinningshafa, en þeirra á meðal eru Magnús Sigurðsson, Dagur Hjartarson, Linda Vilhjálmsdóttir, Óskar Árni Óskarsson, Gerður Kristný og Anton Helgi Jónsson.

Samkvæmt upplýsingum frá Kópavogsbæ bárust alls 278 ljóð í keppnina um Ljóðstafinn að þessu sinni. Dómnefnd, sem í sátu Anton Helgi Jónsson, formaður, Ásdís Óladóttir og Bjarni Bjarnason, valdi vinningsljóðin þrjú og verðlaunaði auk þess átta ljóð, eftir m.a. Höllu Oddnýju Magnúsdóttur, Hallgrím Helgason og Ásgeir H. Ingólfsson, sem hlutu viðurkenningar.

Í umsögn dómnefndar um sigurljóð Sindra segir m.a.: „Ljóðið kallar fram myndir af ólíkum heimum, andstæðum [...] Þetta er ljóð um ferðalag okkar allra, um lífið og dauðann en líka um möguleikana og kallast á við orð listaskáldsins góða sem þakkaði fyrir það að geta setið á sama stað og verið samt að ferðast. Ef til vill má líka líta á ljóðið sem táknmynd fyrir samtíma okkar hér á Íslandi, rútan er föst á jökli og enginn veit hvað verður um farþegana; eina leiðin burt úr ógöngunum virðist vera lestur, skáldskapur.“

Það vekur eftirtekt blaðamanns hversu ljóðið kallast á við nýlegt rútuslys þar sem tveir kínverskir ferðamenn létu lífið. Spurður nánar um tilurð ljóðsins, sem sent var í keppnina löngu fyrir slysið, segir: „Þegar ég heyrði um rútuslysið rann mér kalt vatn milli skinns og hörunds vegna þess að það hafði svo mikla skírskotun til ljóðsins,“ segir Sindri og bendir á að ljóðið endurspegli landfræðilegar og menningarlegar andstæður. „Ljóðið tæpir líka á umgengni við náttúruna og þeirri vá sem henni fylgir. Í ljóðinu er farartækið að sameinast auðninni sem ferðafólkið er komið til að dást að og þannig er ferðin hugsanlega að drepa ferðamennina. Í lok ljóðsins birtist lesandi stúlka sem er niðursokkin í aðra veröld. Þegar við skiljum við hana er hún stödd í göngum sem eru bæði óræð og erótísk – í senn táknmynd dauðans og lífsins. Ljóðið talar meðal annars til þeirra áhrifa sem ör fjölgun ferðamanna hefur haft hérlendis að undanförnu, fjölgun sem virðist vera að tálga forvitnilegar myndir í þjóðarsálina,“ segir Sindri og tekur fram að ljóðið sé þannig marglaga „eins og gott ferðalag þarf að vera“.

Þess má að lokum geta að við athöfnina í gær voru einnig tilkynnt úrslit ljóðasamkeppni grunnskóla Kópavogs og þar bar Henrik Hermannsson, nemandi í 7. bekk í Hörðuvallaskóla, sigur úr býtum fyrir ljóðið „Myrkrið“. Í öðru sæti varð Eyrún Flosadóttir í 9. MSJ Kársnesskóla og í því þriðja Sandra Diljá Kristinsdóttir í 8. bekk Salaskóla.