Spaugilegt „Maður labbar oft inn á svona örleikrit í lífi fólks, og heyrir brot af bráðskemmtilegum samtölum. Við erum einhvern veginn alltaf að fara sömu leiðina, með samviskubit yfir því að vera á bíl en ekki á hjóli, en látum samt hjólafólkið fara í taugarnar á okkur,“ segir Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir.
Spaugilegt „Maður labbar oft inn á svona örleikrit í lífi fólks, og heyrir brot af bráðskemmtilegum samtölum. Við erum einhvern veginn alltaf að fara sömu leiðina, með samviskubit yfir því að vera á bíl en ekki á hjóli, en látum samt hjólafólkið fara í taugarnar á okkur,“ segir Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Ísland á ekki marga myndasöguhöfunda, og hvað þá höfunda sem ná að endurspegla það spaugilega við íslenskt hversdagslífs eins vel og Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir.

Viðtal

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Ísland á ekki marga myndasöguhöfunda, og hvað þá höfunda sem ná að endurspegla það spaugilega við íslenskt hversdagslífs eins vel og Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir. Teikningar hennar draga vissulega upp ýkta mynd af Íslendingum en flestir geta fundið þar sögur sem ríma við þeirra eigin reynslu, enda sækir Lóa oft innblástur í eigið líf eða líf vina sinna og ættingja: „Ég hef kannski ekki gert eins og ein söguhetjan sem missir svo algjörlega tökin á heimilislífinu að barnið hennar þarf að borða Kóko-pops upp úr stígvéli, en þetta er óreiða sem að margir kannast við að hafa upplifað.“

Lóu þykir margt jákvætt við íslenska lífsmynstrið, með öllum sínum sérkennum. „Við erum til dæmis upp til hópa kærulausir uppalendur og finn ég það svo vel að í öllum öðrum löndum haga börnin sér alltaf betur. En fyrir vikið eru íslensk börn ógeðslega fyndin og hávær, og eru einhvern veginn voðalega sætir og skemmtilegir litlir dónar.“

Smá Stella í okkur öllum

Fá verk hafa leyft Íslendingum að líta vandlega í spegillinn og gaumgæfa eigin sérkenni og ósiði. Lóu dettur helst í hug kvikmyndin Stella í orlofi, sem er hennar uppáhaldsbíómynd. „Hún nær þessu fullkomlega; bæði hvernig krakkarnir eru aldir upp og hvernig Stella er allt í einu komin upp í sumarbústað með einhverjum gaur sem hún reddaði. Allt virðist klúðrast og allt er óskipulagt en gengur samt upp einhvern veginn.“

Það virðist vera smá Stella í öllum Íslendingum: „Maður labbar oft inn á svona örleikrit í lífi fólks, og heyrir brot af bráðskemmtilegum samtölum. Við erum einhvern veginn alltaf að fara sömu leiðina, með samviskubit yfir því að vera á bíl en ekki á hjóli, en látum samt hjólafólkið fara í taugarnar á okkur. Svo verður vatnið mengað, síðan kemur Eurovision, og eitt stórt Nóa páskaegg, og þá berst boðskort í fermingarveislu hjá barni með nafn sem kemur okkur spánskt fyrir sjónir. Ég upplifi þetta sem eins konar hringrás, og kannski þess vegna að ég tolli ekki hefðbundinni vinnu því á verður mynstrið of þétt og ég fæ rosalega innilokunarkennd – lífið verður hreinlega eins og í Groundhog Day .“

Lóa hefur ýmsar kenningar um hvaðan íslenska mynstrið er komið. „Kannski er þetta vegna staðsetningar okkar á hnettinum, og hvenig hlutirnir eru settir upp hérna með endalausu myrkri annars vegar og stanslausri sól hins vegar. Ástandið er líka skrítið í stjórnmálunum, og verður bara skrítnara – kannski er þetta bara leið til að komast hjá því að missa vitið; vera bara hress og til í að grilla hvenær sem er.“

Kunnuglegar manngerðir

Lóa er höfundur nýs leikrits sem frumsýnt verður á litla sviði Borgarleikhússins á föstudag. Verkið heitir Lóaboratoríum , er sett á svið af leikhópnum Sokkabandinu og leikstýrt af Kolfinnu Nikulásdóttur. Leikritið byggist lauslega á myndasögum Lóu og segir frá fjórum nágrannakonum sem gengur misvel að þola samvistirnar við hvor aðra. Lýsir Lóa verkinu þannig að það fjalli um samskiptamynstur: „Það var innanhússbrandari hjá okkur að verkið átti að vera tilraun til að gera svona „well made play“ úr myndasögupersónum.“

En myndasögur Lóu fjalla yfirleitt ekki um tilteknar söguhetjur, og sjaldan að sama persónan birtist tvisvar í teikningum hennar. Fígúrunum í myndasögunum væri betur lýst sem manngerðum – ákveðnum týpum – sem geta litið út á ýmsa vegu en deila ákveðnum sérkennum. „Það fyrsta sem ég þurfti að gera var því að fara yfir allar þær sögur sem ég átti í mínum fórum, s.s. tvær útgefnar bækur og eina sem þá var óútgefin, og reyna að vinsa fjórar manngerðir út úr öllu þessu safni.“

Lóa hlær dátt þegar blaðamaður spyr hvort eigi að kalla Lóaboratoríum gamanverk eða eitthvað annað? Í leikskránni er verkinu lýst sem „svartri kómedíu“ og „eldhúskómík“. „Ég er þessi manneskja sem fer í leikhús og hlær á óviðeigandi stöðum. Ég veit ekki hvort það er út af taugaveiklun eða að ég sé með svona skrítinn húmor,“ segir Lóa. „Ég fór á Hystory , leikrit Kristínar Eiríksdóttur, þar sem ég hló og hló á meðan pabba og mömmu stökk ekki bros á vör þegar þau sáu sömu sýningu. Það hvarflaði að mér að þetta væri kynslóðavandamál.“

Með sviðsskrekk fyrir hönd leikaranna

Lóaboratoríum er fyrsta leikritið sem Lóa skrifar, ef frá eru talin verkefni sem hún vann í leikritunaráföngum hjá Háskóla Íslands þar sem hún útskrifaðist með meistaragráðu í ritlist. Að auki gerði Lóa handrit að sjónvarpsþáttum Hugleiks Dagssonar um listamanninn Hulla , og handrit að teiknimyndaatriðum sem fléttað var saman við Áramótaskaupið 2015.

Þó að leikritið virðist hafa heppnast vel þá á Lóa ekki sjö dagana sæla um þessar mundir því hún virðist hafa tekið það að sér að hafa sviðsskrekk fyrir hönd alls leikarahópsins. „Það sér mig enginn á meðan á sýningunni stendur, en ég er alveg rosalega meðvirk gagnvart þeim sem þurfa að standa á sviði og mér líður illa yfir að hafa komið leikkonunum í þessa aðstöðu,“ segir Lóa glettin á meðan blaðamaður hughreystir hana og þykist hafa það fyrir satt að leikarar hafi gaman af að koma fram.

Lóa kemur reglulega fram með hljómsveitinni FM Belfast og segist glíma við alveg sama sviðsskrekkinn nú og hún gerði þegar hún spilaði fyrst með bandinu fyrir tólf árum: „Sviðsskrekkurinn er kominn svo djúpt inn í stoðkerfið hjá mér að ég fæ hreinlega martraðir. Ég held að svona myndasögunördar eins og ég séu ekki mikið sviðsfólk að upplagi, og að við unum okkur betur við að hanna sviðsmyndina eða stýra ljósunum.“

Það stefnir engu að síður í áhugaverða sýningu: „Stemningin er góð en það er skrítin tilfinning að vera komin á þennan stað. Frumsýningin síðar í vikunni er afrakstur vinnu sem hófst í fyrravor og ég hef vitaskuld ekki stjórn á lokaútgáfunni enda hefur leikhópurinn þurft að breyta, stytta og færa til, en mér hefur þótt gaman að geta fylgst með ferlinu.“