Arnar Þór Jónsson
Arnar Þór Jónsson
Eftir Arnar Þór Jónsson: "Getur verið að hér sé komin einhver skýring á því óþoli gagnvart skoðunum annarra, sem einkennir svo mjög pólitíska umræðu?"

Þriðjudaginn 16. janúar sl. birti Morgunblaðið viðtal við Kristínu Ómarsdóttur skáld. Þótt ég þekki lítið til Kristínar vakti viðtalið áhuga minn, því fyrirsögnin tengdist beint og óbeint erindi sem ég átti að flytja síðar þennan sama dag fyrir nemendur mína í lögfræði. Fyrirsögnin var svo hljóðandi: „Frjáls manneskja þarf fyrst og fremst að hugsa.“ Í viðtalinu segir nánar um þetta:

„Kristín segir að frjáls manneskja þurfi fyrst og fremst að hugsa og það geti verið þrautin þyngri, að hugsa, maður nenni því ekki, þess vegna sé auðveldara að afsala sér sjálfstæðinu fyrir alls konar þægindi og freistingar og vélrænan lífsstíl, og það hafi hún oft gert, en í mun minna mæli þegar hún var yngri.“

Það var gott að lesa þessi einlægu orð Kristínar, enda þekkti ég sjálfan mig í þeim. Svo þakklátur var ég fyrir þessa setningu að ég klippti hana út úr blaðinu og hef gengið með hana á mér síðustu daga. Til þessara orða hef ég svo vitnað tvo kennsludaga í röð, því þarna held ég að skáldinu hafi tekist að segja í fáum orðum það sem ég hef, í vanmætti hugsana minna, aðeins getað orðað í of löngu máli. Orð Kristínar lýsa vandamáli okkar, sem föllum daglega í freistni hugsunarleysis og týnumst í hugsunarþoku. Ég hallast jafnvel einnig að því að þessi setning Kristínar geti komið að gagni við að varpa ljósi á og skilja ögn betur hina pólitísku orðræðu, sem alltof sjaldan getur kallast samræða. Til skýringar á síðastnefndu atriði leyfi ég mér að setja eftirfarandi hugsanir á blað, í þeirri von að þær gætu mögulega komið einhverjum öðrum að gagni.

Ein leiðin til að komast hjá því að hugsa heila – og sjálfstæða – hugsun er að gangast einhverri hugmyndafræði á hönd. Kostirnir við slíkt eru augljósir fyrir þá sem þekkja sjálfa sig í tilvitnaðri lýsingu skáldsins Kristínar. Á vettvangi hugmyndafræðinnar kynnumst við oftar en ekki heildstæðu hugmyndakerfi (kenningum) sem geyma allsherjarskýringar á flestu eða jafnvel öllu sem gerist. Í ljósi hugmyndafræðinnar verður mótlætið skiljanlegt, óréttlætið beiskara og réttlætiskrafan óskilyrt. Á öldinni sem leið ruddu alræmd kenningarkerfi sér til rúms. Breiðfylkingar alls kyns -ista boðuðu „fagnaðarerindi“ mismunandi -isma . Hér nægir að nefna kommúnisma og nasisma, en fylgismenn hvorrar hugmyndafræði um sig létu tilganginn helga meðalið þegar kom að því að brjóta heilu þjóðirnar og meginlöndin undir alræðis- og helstefnur sínar. Ef skrum, skrautsýningar og lúðrablástur dugðu ekki var stutt í hótanir, kúgun, ofbeldi, manndráp og fjöldamorð. Þegar hugmyndafræðingarnir höfðu tekið völdin var lítið rými skilið eftir fyrir frjálsa hugsun. Á því stigi er nefnilega mikilvægara að allir hugsi eins. Allt skal þá lúta einni yfirdrottnandi hugmyndafræði, sem umber enga gagnrýni, þolir engum að andæfa og hatast við frjálsa hugsun. Ég nefni þetta hér því hugsanaletin sem Kristín Ómarsdóttir gerði að umtalsefni í áðurnefndu viðtali er ekki bara óholl okkur sjálfum, heldur er hún samfélaginu öllu háskaleg, svo sem dæmin sanna.

Getur verið að hér sé komin einhver skýring á því óþoli gagnvart skoðunum annarra, sem einkennir svo mjög pólitíska umræðu? Gætu samskipti okkar og rökræða batnað ef við hættum að láta aðra hugsa fyrir okkur, efuðumst oftar um eigin sannfæringu, værum örlítið gagnrýnni á eigin fullyrðingar og færum að hlusta á aðra með opnum huga þess manns sem í hjarta sínu getur viðurkennt að hann hafi ekki öll svör á reiðum höndum?

Höfundur er héraðsdómari.