Innbrot Innbrotahrina gengur nú yfir höfuðborgarsvæðið.
Innbrot Innbrotahrina gengur nú yfir höfuðborgarsvæðið.
Aron Þórður Albertsson aronthordur@mbl.

Aron Þórður Albertsson

aronthordur@mbl.is

„Við höfum verið að sjá símtölum og fyrirspurnum fjölga mikið líkt og alltaf þegar fréttir berast af innbrotafaraldri,“ segir Kristinn Oddur Einarsson, sérfræðingur hjá Öryggismiðstöðinni, um fjölgun innbrota í heimahúsum á höfuðborgarsvæðinu undanfarnar vikur.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sagði frá því fyrir helgi að töluvert hefði borið á því að þjófar brytust inn í hús að degi til og stela skartgripum og peningum. Í mörgum þessara tilvika hefði verið brotist inn að degi til, oft í gegnum svefnherbergisglugga. Kristinn segir að fjölgun fyrirspurna hjá Öryggismiðstöðinni í kjölfar innbrotahrinunnar sé að mestu leyti bundin við ákveðin hverfi, þá einna helst í Garðabæ. „Það hefur verið einhver aukning í Kópavogi og Grafarvogi, en við höfum verið að fá langflestar fyrirspurnir úr Garðabæ þar sem innbrotahrinan virðist vera hvað verst,“ segir Kristinn.

Öryggiskerfi fælir frá

Spurður um ráðleggingar til fólks segir Kristinn að öryggiskerfi hafi alltaf mesta forvarnargildið, en mikilvægt sé þó að loka öllum gluggum vel og vandlega. „Við hvetjum fólk alltaf til þess að passa upp á að læsa öllu, hafa glugga lokaða og láta síðan líta út fyrir að einhver sé heima. Staðreyndin er samt auðvitað sú að það eru talsvert meiri líkur á að brotist sé inn í hús þar sem ekki er öryggiskerfi, því kerfið hefur gríðarlegan fælingarmátt,“ segir Kristinn og bætir við að Öryggismiðstöðinni berist afar sjaldan tilkynningar um innbrot.

„Við sjáum það hjá okkur að það er nánast aldrei brotist inn hjá fólki sem er með öryggiskerfi, ég held að það eigi bæði við um okkur og Securitas,“ segir Kristinn.

Innbrotahrina
» Fjölgun fyrirspurna virðist vera bundin við ákveðin hverfi á höfuðborgarsvæðinu, einna helst í Garðabæ.
» Undantekningartilvik ef brotist er inn í hús með öryggiskerfi.