Heiðrún Elísabet Leósdóttir fæddist í Reykjavík 4. júní 2017. Hún lést á gjörgæsludeild Landspítalans 12. janúar 2018.

Foreldrar Heiðrúnar eru Júlíana Karvelsdóttir, f. 2. desember 1996, og Leó Baldursson, f. 21. febrúar 1994. Foreldrar Júlíönu eru Hildur Bernódusdóttir og Karvel Líndal Hinriksson. Foreldrar Leós eru Vigdís Heiða Guðnadóttir og Baldur Sigurðsson.

Útför Heiðrúnar Elísabetar fer fram frá Akraneskirkju í dag, 22. janúar 2018, og hefst hún klukkan 13.

Elsku hjartans dásemdin okkar.

Það er svo sárt að sitja hér og skrifa þessi fátæklegu orð til þín.

Þú fékkst bara að vera hjá okkur í rúma sjö mánuði. Þegar þú fæddist og við sáum þig í fyrsta skipti fylltust hjörtu okkar af svo mikilli ást, væntumþykju og umhyggju. Þú varst svo lítil og dásamleg og augun þín svo stór og falleg.

Við vorum að springa úr monti þegar þú bættist í yndislega barnahópinn okkar, níunda barnabarnið. Við vorum farin að hlakka svo mikið til að þú flyttir á Akranes, þá myndum við hitta þig miklu oftar og fá að gæta þín, fara með þig út að labba í fína vagninum og leika við þig.

Í október sl. fórst þú ásamt foreldrum þínum til Lundar í Svíþjóð og gekkst þar undir stóra hjartaaðgerð. Við komum að heimsækja ykkur, ásamt langömmu Júllu og langafa Hinna. Þar áttum við saman yndislega daga, skoðuðum mikið, röltum um saman með þig í vagninum og næstum því rifumst um hver ætti að keyra þig. Þú varst svo róleg, góð og alltaf brosandi. Stóru augun þín fallegu bræddu okkur alveg þegar við héldum á þér og knúsuðum þig. Aðgerðin gekk vel og þið komuð heim eftir fimm vikna dvöl.

Föstudaginn 5. janúar var allur hópurinn okkar saman kominn heima hjá okkur. Börnin okkar, makar þeirra, barnabörnin, langamma Júlla og langafi Hinni. Afi tók þig upp og fór að spjalla við þig og þú brostir út að eyrum, hann tosaði í tásurnar þínar og spurði hvort hann mætti eiga þær. Hann fékk stórt bros frá þér og þú hjalaðir til hans. Amma tók þig líka og fékk fallegt bros og söng fyrir þig Dvel ég í draumahöll, þú varst orðin svo þreytt að þú sofnaðir í ömmufangi.

Nú ert þú farin frá okkur og við sitjum hér og horfum á myndina af þér þar sem þú brosir svo fallega. Við erum með kveikt á kertum og þannig ætlum við að hafa það.

Elsku hjartans fallega dásemdin okkar, við eigum eftir að sakna þín svo sárt en minning þín lifir áfram í hjörtum okkur.

Góða ferð og góða heimkomu litli engill.

Elsku hjartans Júlíana og Leó okkar, sorgin og söknuðurinn er óbærilegur. Við biðjum algóðan Guð og allar heimsins góðar vættir að vaka yfir ykkur og vernda.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum)

Afi og amma,

Karvel og Valey.

Heiðrún Elísabet var glaðvært og fallegt barn. Ég tengdist henni mikið, eins og aðrir, og er mjög þakklát fyrir að hafa átt hana þennan tíma sem hún var með okkur. Hún hafði smitandi hlátur, einstaklega fallegt bros og augu sem höfðu slík áhrif að hægt var að gleyma stað og stund við að horfa í þau.

Hún átti alla okkar athygli og var jafnvel slegist um að fá að halda á henni. Heiðrún gaf mikið af sér og við áttum mörg falleg samtöl án orða. Þegar ég hugsa um þessar fallegu minningar um hana þá standa upp úr þessi fallegu boðskipti. Það er það sem mér þykir vænst um og geymi.

Þetta ferðalag hennar og okkar var ekki einfalt. Hún var ofboðslega dugleg. Í hvert skipti sem ég sá hana varð ég vitni að framför sem mann hefði ekki órað fyrir og vann hún sigra sem voru ótrúlegir. Sigrana vann hún ekki ein. Hún átti þessa flottu foreldra sem ég er svo stolt af sem tóku þessum verkefnum af æðruleysi, kærleik og ást. Áföllin voru nefnilega aldrei í þeirra huga áföll heldur einfaldlega verkefni sem yrðu leyst. Þau búa yfir styrk og kærleika sem ég satt best að segja veit ekki hvaðan kemur. Ég vildi að ég gæti tekið heiðurinn af því.

Þau lögðu sig fram við að vera góðir foreldrar, sem og þau voru. Til marks um það hversu fallegt samband Leós og Júlíönu var við hana Heiðrúnu er þegar Leó sagði mér að hann hefði samviskubit yfir því að lesa ekki nóg fyrir hana. Þeim fannst þau aldrei gera nóg þrátt fyrir allt hjal og fallegu tímana þar sem þau sungu fyrir hana. Hún var böðuð í ást og gaf ekki síður af sér. Ég vildi óska að Leó og Júlíana gætu séð það sem ég sé – allan kærleikann, alla ástina og samheldnina. Jafnvel foreldri getur lært eitthvað af sínum börnum og ég kem til með muna og læra af kærleikanum sem Leó og Júlíana hafa sýnt í þessu ferli, bæði gagnvart Heiðrúnu og kærleikanum sem milli þeirra ríkir.

Ég held ég geti ekki tekið einhverja eina minningu og sagt frá henni. Ég treysti mér ekki til þess að velja úr vegna þess að þessi tími í heild sinni var svo ómetanlegur. Ég sakna þess hvað mest að fá ekki að halda á henni og sökkva mér í þessi fallegu augu og sníkja eitt bros í viðbót.

Ég er svo þakklát fyrir Júlíönu og Leó sem fæddu þetta yndislega barn í heiminn. Þau voru henni góðir foreldrar og veittu henni alla þá ást sem Heiðrún átti skilið. Þessi tími var dýrmætur og við skulum varðveita hann og hvert annað vel.

Heiða amma.

Elsku Heiðrún mín.

Ég hef alltaf sagt of mikið. Yfirleitt gæti ég talað um allt og verið óstöðvandi í málgleði minni en nú er eins og ég geti ekki sagt orð. Þú ert það sem ég hugsa um. Ég lofaði þér því þegar þú fæddist að við myndum sigra heiminn. Nú finnst mér eins og ég hafi brotið það loforð. Mér finnst eins og ég hefði getað gert meira - eins og ég hefði einhverju getað breytt. Ég veit að það er aðeins sjálfselskan sem talar. Þú gerðir þitt besta og ég líka.

Ég klökkna í hvert skipti sem ég minnist þess að Leó bað mig um að verða næsti Marlon Brando í Guðföðurnum. Ég hef aldrei verið jafn stolt. Nema kannski þegar þú komst í pössun þegar foreldrar þínir fóru loks á langþráð stefnumót og þú vaknaðir af værum blundi. Þá heilsaðir þú mér með þínu innilega brosi. Hugsanlega var ég stoltari þá en þegar pabbi þinn hringdi og bauð mér þetta mikilvæga hlutverk. Ég vissi nefnilega, þar og þá, að ég væri að standa mig í því hlutverki. Ég var ekki síður ánægð með þig þegar þú hlustaðir af athygli og gleði á Pearl Jam, Led Zeppelin og Uriah Heep.

Það er með trega sem ég kveð þig. Nú finnst mér eins og við höfum sagt okkar vanalegu kveðju þar sem þú sefur vært í bílstólnum og ég kyssi þig oftar en ég ætti að gera þar til ég sé þig næst. Einn daginn mun ég átta mig á því að næst kemur ekki til með að verða. Þú mátt ekki halda að ég búi við einhvern ótta um að verða sökuð um einhverja tilfinningasemi þegar ég deili því hversu vænt mér þótti um þig. Ég óttast það ekki. Ég veit nefnilega að þú breyttir lífi bróður míns og Júlíönu. Leó er annar maður í dag en hann var fyrir ári síðan. Sú breyting er jákvæð og ég hef aldrei verið jafn stolt af honum eins og þegar hann varð faðir í fyrsta skipti og ábyrgur fyrir þér. Ég hélt ég yrði stoltust af honum þegar hann kláraði flugvirkjann en hann gerði það einmitt daginn sem hann kvaddi þig. Ég var það ekki. Ég var stolt af því hversu fallega og vel hann hugsaði um þig frá byrjun til enda. Í hans huga er ekki komið að endalokum og ekki í mínum heldur. Þú kemur alltaf til með að lifa með okkur þrátt fyrir að það sé ekki með þeim máta sem við óskuðum okkur.

Ég á mér aðeins eina ósk. Sú ósk er að þú öðlist frið og hvíld. Ég óska mér að þú fáir að lifa lífi þar sem þú færð að njóta og öðlast frekari hamingju. Ég er reið og sár yfir því að þú fáir ekki það tækifæri hérna hjá okkur. Ég er enn sár yfir því að hafa ekki sigrað heiminn með þér. Hluti af mér vildi að ég gæti gert það fyrir þig vegna þess að þú sigraðir mig frá fyrsta augnabliki. Ég held samt sem áður áfram að reyna fyrir okkur báðar.

Í dag verð ég að kveðja þig. Ekki halda að ég komi nokkurn tímann til með að slökkva þitt ljós – þú ert og verður alltaf mikilvægur hluti af mínu lífi. Ég er þakklát fyrir þig og þú kemur alltaf til með að tendra ljós í hjarta mínu. Ég er þakklát fyrir þig og foreldra þína, Leó og Júlíönu. Þitt innilega bros og fallega hjarta sameinaði tvær fjölskyldur í eina.

Ég elska þig, þín frænka,

Ösp.