25 stig Dýrfinna Arnardóttir átti stórleik fyrir Hauka.
25 stig Dýrfinna Arnardóttir átti stórleik fyrir Hauka. — Morgunblaðið/Ófeigur
Haukakonur eru komnar upp að hlið Valskvenna á toppi Dominos-deildarinnar í körfubolta eftir 79:77-sigur á Snæfelli í Stykkishólminum í gær. Staðan eftir venjulegan leiktíma var 66:66 og því þurfti að framlengja. Að lokum voru Haukarnir sterkari.

Haukakonur eru komnar upp að hlið Valskvenna á toppi Dominos-deildarinnar í körfubolta eftir 79:77-sigur á Snæfelli í Stykkishólminum í gær. Staðan eftir venjulegan leiktíma var 66:66 og því þurfti að framlengja. Að lokum voru Haukarnir sterkari.

Whitney Michelle Frazier skoraði 28 stig fyrir Hauka, tók 19 fráköst og gaf sjö stoðsendingar. Dýrfinna Arnardóttir gerði 25 stig. Þess má geta að Haukar eru án Helenu Sverrisdóttur um þessar mundir þar sem hún var lánuð til Good Angels Kosice í Slóvakíu. Haukum virðist takast að halda sjó þótt allir gerir sér grein fyrir því að fjarvera Helenu er blóðtaka fyrir liðið.

Hjá Snæfelli var Kristen Denise McCarthy stigahæst með 33 stig og tók hún einnig 18 fráköst. Rebekka Rán Karlsdóttir og Gunnhildur Gunnarsdóttir gerðu 11 stig hvor.

Haukar fóru upp í 24 stig með sigrinum en Valur sem einnig er með 24 stig hefur leikið færri leiki. Haukar hafa leikið sautján en Valur sextán. Ríkjandi meistarar í Keflavík eru með 22 stig. Snæfell er enn í næstneðsta sæti með 12 stig og er tveimur stigum á eftir Skallagrími en tólf á undan Njarðvík. sport@mbl.is