Árás Tyrkneskir hermenn bíða í viðbragðsstöðu fyrir áætlaða innrás yfir sýrlensku landamærin í gærmorgun.
Árás Tyrkneskir hermenn bíða í viðbragðsstöðu fyrir áætlaða innrás yfir sýrlensku landamærin í gærmorgun. — AFP
Þorgrímur Kári Snævarr thorgrimur@mbl.is Tyrkneskir hermenn réðust inn í Sýrland í gær til að binda enda á yfirráð kúrdískra skæruliða í norðurhluta landsins. Frá þessu er greint á fréttavef AFP .

Þorgrímur Kári Snævarr

thorgrimur@mbl.is

Tyrkneskir hermenn réðust inn í Sýrland í gær til að binda enda á yfirráð kúrdískra skæruliða í norðurhluta landsins. Frá þessu er greint á fréttavef AFP .

Ætlunin er að reka burt samtökin Verndarsveitir þjóðarinnar ( Yekîneyên Parastina Gel eða YPG) frá héraðinu Afrin í Norður-Sýrlandi, en ríkisstjórn Tyrkja skilgreinir YPG sem hryðjuverkasamtök. Tyrkir telja YPG einnig vera sýrlenskan undirflokk kúrdíska verkamannaflokksins (PKK) sem hefur staðið í uppreisn gegn tyrkneskum yfirráðum í suðausturhluta Tyrklands í rúma þrjá áratugi. Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti segist vona að hernaðaraðgerðinni verði lokið á stuttum tíma og leggur áherslu á að Tyrkland muni uppræta „hryðjuverkahreiður“ YPG í Sýrlandi.

Bandalög í uppnámi

Þessi árás Tyrkja er annað inngrip Tyrkjahers í sýrlensku borgarastyrjöldina sem hefur geisað frá árinu 2011. Hið fyrra var áhlaup sem stóð frá ágúst 2016 til mars 2017 og beindist bæði gegn YPG og gegn hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við íslamskt ríki. Árásin er líkleg til að hleypa alþjóðabandalögum Tyrklands í uppnám þar sem Bandaríkin og önnur aðildarríki Atlantshafsbandalagsins, NATO, hafa stutt YPG í baráttu þeirra gegn íslamska ríkinu.

Florence Parly, varnarmálaráðherra Frakklands, ávítaði Tyrki fyrir innrásina og sagði hana munu spilla fyrir samstarfi vesturveldanna við YPG gegn hryðjuverkasamtökum. Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, kallaði innrás Tyrkja „stuðning við hryðjuverk.“ Rússar, sem einnig hafa herlið á svæðinu, ráðlögðu Tyrkjum að koma fram af hófsemi í aðgerðunum en virðast þó hafa gefið Tyrkjum „grænt ljós“ fyrir innrásinni. Yfirráðasvæði YPG í Afrin er aðskilið öðru landsvæði sem YPG ræður yfir í norðausturhluta Sýrlands. Með árásinni hyggjast Tyrkir reka YPG austur fyrir Efratfljót og skapa 30 km öryggissvæði á landamærunum inn í Sýrland.

Eldflaugum skotið á Tyrki

Talsmaður YPG greindi frá því að eftir árás Tyrkja á Afrin hefðu 10 manns látist, þar af sjö almennir borgarar. Tyrkjaher neitar því að um almenna borgara hafi verið að ræða og heldur því fram að allir hinir látnu hafi verið meðlimir YPG eða PKK. Hernaðarlega er árásin ekki áhættulaus fyrir Tyrki og nú þegar hefur YPG skotið eldflaugum til gagnárásar bæinn Kilis við landamæri Tyrklands og Sýrlands. Ein kona særðist en enginn lést.