[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Erla Þorsteinsdóttir fæddist á Sauðárkróki 22.1. 1933 og ólst þar upp: „Ég söng stanslaust frá því ég man eftir mér og var fljót að læra söngtexta, hvort heldur dægurlög eða ættjarðarlög.

Erla Þorsteinsdóttir fæddist á Sauðárkróki 22.1. 1933 og ólst þar upp: „Ég söng stanslaust frá því ég man eftir mér og var fljót að læra söngtexta, hvort heldur dægurlög eða ættjarðarlög. Pabba og mömmu þótti því sjálfsagt að gefa mér gítar í fermingargjöf.“

Erla gekk í Barnaskóla Sauðárkróks, kenndi sér sjálf á gítar og kom fram á skemmtunum á Sauðárkróki og síðar á Akureyri, er hún starfaði þar við Fjórðungssjúkrahúsið. Hún fór til Danmerkur 1951 til að ná tökum á dönskunni og í leit að ævintýrum. Hún lærði dönskuna, fann eiginmann sinn og ævintýrin.

Erla vann á barnaheimili í Klintebjerg í eitt ár en snéri síðan aftur heim. Hún hélt aftur utan 1953, á fund unnusta síns, Pauls E. Danchell, sem þá gegndi herþjónustu í Kerteminde á Fjóni. Þar kom hún fram í útvarpsþætti 1954 og í kjölfarið fylgdu ótal atvinnutilboð og danska útgáfufyrirtækið Odeon bauð henni að taka upp tveggja laga hljómplötu á dönsku. Haraldur Ólafsson í Fálkanum gerði síðan samning við Odeon um upptökur með Erlu fyrir íslenskan markað.

Fyrsta plata Erlu hefur að geyma lögin Hvordan og Gud ved, hvem der kysser dig nu. Skömmu síðar komu út tvær litlar plötur með lögunum Er ástin andartaks draumur, Bergmálsharpan, Tvö leitandi hjörtu og Litla stúlkan við hliðið eftir Freymóð Jóhannsson. Þá kom hún til Íslands og söng á skemmtistaðnum Jaðri og á miðnæturskemmtun í Austurbæjarbíói, sló í gegn og plöturnar hennar seldust upp fyrir jólin.

Erla og Paul gengu í hjónaband árið 1955 og um sumarið fæddist fyrsta barn þeirra en hún dvaldi þá hjá foreldrum sínum á Sauðárkróki.

Árið 1956 gaf Fálkinn út þrjár plötur með Erlu með lögunum Sól signdu mín spor, Sof þú, París, Hugsa ég til þín, og tveimur nýjum lögum eftir 12. september Hljóðaklettur og Heimþrá, en sú plata varð söluhæst hér á landi það árið.

Fálkinn gaf einnig út þrjár plötur með henni árið 1957 með lögunum Draumur fangans og Ekki er allt sem sýnist, eftir 12. september, Það rökkvar í Róm og Blómabrekkan og Hárlokkurinn, rokklagið Vagg og velta og dönsku lögin De unge år og Jeg sender mine tanker, fyrir Skandinavíumarkað. Útvarpsráði þótti texti rokklagsins, eftir Loft Guðmundsson vega að þjóðskáldunum Jónasi Hallgrímssyni og Kristjáni fjallaskáldi og bannaði því flutning þess í ríkisútvarpinu. En bannið varð til þess að platan seldist upp á augabragði. Þetta sumar hélt Erla rokktónleika hér á landi með Hauki Morthens, ásamt Hljómsveit Kristins Vilhelmssonar, fyrst í Austurbæjarbíói, síðan víðs vegar um landið fyrir fullum húsum og loks á dansleikjum í Iðnó með Hljómsveit Gunnars Ormslev.

Þetta var í síðasta sinn sem Erla kom fram á Íslandi. Þau hjónin fluttu til Kaupmannahafnar, ásamt tveimur börnum sínum og þar tók Erla upp lögin Vaki vaki vinur minn, Síðan er söngur í blænum, Við þú og ég, og polkann, Stungið af, eftir Jóhannes G. Jóhannesson. Erla og Haukur Morthens sungu svo lagið Þrek og tár, tekið upp í Kaupmannahöfn haustið 1958, auk þess sem þá voru tekin upp lögin Okkar eina nótt, Litli stúfur, Ítalskur Calypsó, Litli tónlistarmaðurinn eftir 12. september, Á góðri stund og Kveðja eftir Jóhannes G. Jóhannesson og Hvers vegna? eftir Sigfús Halldórsson.

Síðustu lögin sem Erla sendi frá sér á hljómplötum voru Hreðavatnsvals, Kata rokkar, Í Egilsstaðaskógi og Vala, kæra Vala.

Þegar hér var komið sögu setti Erla punktinn fyrir aftan söngferil sinn og sagðist vilja helga sig börnum sínum og fjölskyldu. Þau hjónin stofnuðu sitt eigið rafeindafyrirtæki 1964 og fjórða barnið fæddist tveimur árum síðar. Hefur Erla búið í Danmörku alla tíð síðan.

Allar hljómplötur Erlu voru teknar upp í Danmörku. Undirleik annaðist Hljómsveit Jörn Grauengårds sem þá var einn virtasti hljómsveitarstjóri Danmerkur, en hann sá einnig um útsetningar og stjórnun á upptökum.

Þó að söngferill Erlu spannaði aðeins fimm ár á hún margar af eftirminnilegustu dægurlagaperlum sjötta áratugarins. Tvöföld safnplata, Stúlkan með lævirkjaröddina, kom út árið 2000 en þar er að finna flest af lögum Erlu. Lög hennar hafa ennfremur ratað inn á ýmsar safnplötur í seinni tíð, s.s. Stelpurnar okkar, Óskastundin 4, Óskalögin 2, Aftur til fortíðar, Svona var...seríurnar og Bestu lög 6. áratugarins.

En sá hún aldrei eftir því að hætta svona snemma?

„Nei. Þetta var orðið gott og ég hafði í nógu að snúast með fjölskyldu og fjögur börn.“

Fjölskylda

Eiginmaður Erlu var Paul Edward Danchell, f. 1931, d. 1998, rafvirki og framkvæmdastjóri eigin raftækjafyrirtækis.

Börn Erlu og Pauls eru Poul Danchell, f. 1955, háskólakennari í Óðinsvéum; Eva Laufey, f. 1957, hjúkrunarfræðingur í Hollandi; Stefan Danchell, f. 1960, framkvæmdastjóri í Slagelse á Fjóni, og David Danchell, f. 1964, framkvæmdastjóri í Slagelse á Fjóni.

Systkini Erlu: Rósa Þorsteinsdóttir, f. 22.5. 1926, d. 30.12. 2001, húsfreyja á Sauðárkróki; Haukur Þorsteinsson, f. 14.1. 1932, d. 21.9. 1993, vélstjóri, vélvirkjameistari og kennari á Sauðárkróki; Gréta Þorsteinsdóttir, f. 29.7. 1934, d. 14.11. 2015, húsfreyja í Vestmannaeyjum og í Borgarnesi, og Rögnvaldur Þorsteinsson, f. 12.3. 1936, d. 18.10. 2009, sjómaður á Akranesi.

Foreldrar Rósu voru Þorsteinn Sigurðsson, f. 14.5. 1895, sjómaður og síðar rafveitustjóri á Sauðárkróki, og k.h., Ingibjörg Konráðsdóttir, f. 4.6. 1905, d. 1.3. 1999, húsfreyja á Sauðárkróki.