Sjálfstæðisflokkur Landsfundur verður haldinn um miðjan mars.
Sjálfstæðisflokkur Landsfundur verður haldinn um miðjan mars. — Morgunblaðið/Ómar
Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins hefur ákveðið að landsfundur flokksins verði helgina 16.-18. mars nk. í Laugardalshöll. Boðað hafði verið til landsfundar 3.-5. nóvember sl., en vegna síðustu þingkosninga var honum frestað.

Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins hefur ákveðið að landsfundur flokksins verði helgina 16.-18. mars nk. í Laugardalshöll. Boðað hafði verið til landsfundar 3.-5. nóvember sl., en vegna síðustu þingkosninga var honum frestað. Var þá þegar ákveðið að fundurinn yrði haldinn á fyrsta ársfjórðungi 2018.

Í tilkynningu segir að dagskrá landsfundar verði með hefðbundnu sniði og í samræmi við ákvæði skipulagsreglna Sjálfstæðisflokksins.

Í aðdraganda landsfundar vinna málefnanefndir flokksins að drögum að ályktunum. Á vettvangi nefndanna gefst flokksmönnum tækifæri til að koma að mótun stefnu flokksins. Starf málefnanefnda verður kynnt á heimasíðu flokksins.

Á landsfundi verður forysta Sjálfstæðisflokksins kjörin. Þá eru stjórnir átta málefnanefnda flokksins kjörnar þar, til þess að leiða málefnastarfið milli landsfunda.