Útflutningur Mykinesið siglir frá Þorlákshöfn til meginlands Evrópu.
Útflutningur Mykinesið siglir frá Þorlákshöfn til meginlands Evrópu. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Guðrún Erlingsdóttir ge@mbl.is Í skoðun er að reisa umhverfisvæna steinullarverksmiðju vestan við Eyrarbakka þar sem allt að 50 ný tæknistörf gætu skapast.

Guðrún Erlingsdóttir

ge@mbl.is

Í skoðun er að reisa umhverfisvæna steinullarverksmiðju vestan við Eyrarbakka þar sem allt að 50 ný tæknistörf gætu skapast.

Bæjarstjórn Árborgar hefur samþykkt að veita vilyrði fyrir lóð vestan við Eyrarbakka til sex mánaða. Á lóðinni er fyrirhugað að byggja sjálfbæra steinullarverksmiðju.

Óskar Örn Vilbergsson og Þór Reynir Jóhannsson eru forsvarsmenn að byggingu verksmiðjunnar. Óskar Örn segir að hún sé enn á hugmyndastigi en unnið sé hratt og vel í málinu.

Óskar, sem er ættaður frá Eyrarbakka og búsettur þar, segir að það megi flokka undir ævintýramennsku að fara út í slíkt verkefni að reisa steinullarverksmiðju. Það hafi hins vegar verið kannað áður með byggingu slíkrar verksmiðju en niðurstaðan þá hafi verið að byggja hana á Sauðárkróki.

Útflutningshöfnin skiptir máli

Óskar segir að svarti sandurinn við Eyrarbakka og útflutningshöfnin í Þorlákshöfn hafi skipt máli þegar farið var að skoða staðsetningu á verksmiðjunni.

„Ef af verður gengur viðskiptamódelið okkar út á það að framleiða steinull til útflutnings. Það skiptir því miklu máli að hafa vikulegar siglingar frá Þorlákshöfn til meginlands Evrópu með flutningaskipinu Mykines,“ segir Óskar.

Hann segir að fleiri komi að fjármögnun verkefnisins, en ekki sé tímabært að upplýsa nú hverjir það séu.

Óskar segir að við hönnun á verksmiðjunni verði gengið út frá því að hún verði umhverfisvæn og öll tækni sem notuð verði hafi það að markmiði að gera framleiðsluna umhverfisvæna. Verksmiðjan yrði þá sú eina í heiminum sem myndi nota þessa tækni.

„Maður vill ekki vera að pissa í skóinn sinn. Ég bý hérna og ætla ekki að eyðileggja nærumhverfi mitt,“ segir Óskar.

Kæmist í gagnið árið 2020

Miðað við spár þeirra bjartsýnustu má búast við að framkvæmdir við bygginguna gætu hafist næsta haust og verksmiðjan kæmist í gagnið einu og hálfu ári síðar, að sögn Óskars, sem ítrekar að verksmiðjan sé enn á hugmyndastigi. Enn sé eftir að skoða og kanna margt og því langt í land að hægt verði að taka ákvarðanir um framhaldið.

Óskar Örn er húsasmíðameistari og viðskiptafræðingur MAcc og Þór Reynir er viðskiptafræðingur MAcc. Óskar segir að það sé um að gera að blanda saman og nýta þá þekkingu sem þeir félagarnir hafa.

Fólksfjölgun á Eyrarbakka

Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar, segir að aðkoma Árborgar verði eingöngu í gegnum lóðaúthlutun.

„Það er mikil fólksfjölgun á Eyrarbakka og Stokkseyri og töluvert verið að byggja af einbýlishúsum á svæðinu,“ segir Ásta.

Hún tekur undir með Óskari að það skipti miklu að hafa útflutningshöfn í Þorkákshöfn. Hún segir einnig að ef af verði muni um það að fá allt að 50 ný störf í sveitarfélagið.