Dugleg Þráinn Hafsteinsson og Þórdís Gísladóttir hafa lengi komið að frjálsíþróttamótum.
Dugleg Þráinn Hafsteinsson og Þórdís Gísladóttir hafa lengi komið að frjálsíþróttamótum. — Morgunblaðið/Eggert
„Það vantaði marga af þeim bestu í karla- og kvennaflokki að þessu sinni, en það breytir því ekki að mótið tókst vel og ungu krakkarnir stóðu sig frábærlega og margir bættu árangur sinn verulega,“ sagði Þráinn Hafsteinsson, þjálfari hjá ÍR...

„Það vantaði marga af þeim bestu í karla- og kvennaflokki að þessu sinni, en það breytir því ekki að mótið tókst vel og ungu krakkarnir stóðu sig frábærlega og margir bættu árangur sinn verulega,“ sagði Þráinn Hafsteinsson, þjálfari hjá ÍR og einn aðalskipuleggjandi mótsins.

Það vakti athygli að auk þess sem verðlaun voru veitt fyrir þrjú efstu sætin fengu þeir einstaklingar, sem bættu sig mest í hverri grein, viðurkenningu.

Viðurkenning fyrir að bæta sig

„Já, við byrjuðum á þessu fyrir þremur árum þegar skráningakerfi FRÍ fór að bjóða upp á þennan möguleika,“ segir Þráinn.

Spurður um helstu afrekin kemur maður ekki að tómum kofunum. „Árangur Tíönu Óskar stendur uppúr en þetta er þriðji besti tími 19 ára og yngri í Evrópu. Árangur hennar í 200 metrunum var líka fínn og sá sjötti besti frá upphafi. Hún hljóp reyndar tvö 200 metra hlaup með stuttu millibili og það þykir ekki vænlegt til árangurs og tími hennar því enn athyglisverðar fyrir bragðið.

Kristinn með besta afrek karla

Besta afrek karla var í langstökki karla þegar Kristinn Torfason úr FH stökk 7,55 metra. Ívar Kristinn Jasonarson sigraði bæði í 200 og 400 metra hlaupi og Guðmundur Ágúst Thoroddsen úr Aftureldingu sigraði í 60 metra hlaupinu á fínum tíma. Þar er gríðarlega efnilegur strákur á ferðinni.

Flottur árangur í hástökki

Kristján Viggó Sigfinnsson stökk 2,01 í hástökki í 15 ára flokki og það er árangur í heimsklassa í þessum aldursflokki.

Það var mikil spenna í langstökki kvenna þar sem Guðrún Heiða Bjarnadóttir frá Selfossi vann með 5,77 metra stökki í síðustu tilraun. Birna Kristín Kristjánsdóttir var með forystu alla keppnina eða þar til í síðustu umferðinni þegar Guðrún Heiða stökk 5,77 metra og Irma Gunnarsdóttir skellti sér í 5,71 og tryggði sér þar með annað sætið,“ sagði Þráinn um helstu afrek mótsins.

„Það var líka gaman að sjá Þórdísi Evu Steinsdóttur úr FH sigra í 400 metra hlaupinu en hún hefur verið frá í langan tíma vegna meiðsla en er greinilega að komast í fína æfingu á ný og það er ánægjulegt,“ sagði Þráinn.

Færeyingar settu svip sinn á mótið enda fjölmargir. Rebekka Fuglö sigraði í tveimur greinum, 800 og 1.500 metra hlaupum. Hún hljóp 800 metrna á 2.20,74 og 1.500 metrana fór hún á 4.49,91. skuli@mbl.is