Völd og ábyrgð þurfa að fara saman

Ýmsir hafa orðið til að lýsa áhyggjum sínum af auknu embættismannaræði, eins og Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri, orðar það í grein sinni í Morgunblaðinu um helgina.

Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, hefur einnig áhyggjur af þróuninni í þessa átt og segir á vef sínum: „Þróunina má rekja til ákvarðana stjórnmálamanna. Þeir hafa einfaldlega afsalað sér völdum. Stærsta skrefið í þá átt var stigið undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra eftir hrun. Endurskoðun stjórnarráðslaganna hafði að markmiði að auka embættismannavaldið. Þetta er að sjálfsögðu aldrei orðað á þennan veg heldur rætt um nauðsyn þess að hafa „fagleg“ sjónarmið að leiðarljósi. Deilurnar vegna skipunar í dómaraembætti eru ein birtingarmynd þessarar þróunar. Þar felst „fagmennskan“ í að setja upp excel-skjal og raða mönnum inn á það. Hrokinn af hálfu formanns dómnefndar í garð setts dómsmálaráðherra vegna skipunar í embætti átta héraðsdómara er sjúkdómseinkenni „fagmennskunnar“.“

Styrmir bendir á að hér á Íslandi sé að „verða til „ný stétt“ embættismanna, sérfræðinga, sumra kjörinna fulltrúa, og annarra hagsmunaaðila og kostnaður við þá „nýju stétt“ er greiddur af almennu launafólki.

Taki lýðræðislega kjörnir fulltrúar ekki í taumana og stöðvi þessa þróun verður til jarðvegur fyrir eins konar „uppreisn“ gegn þessu kerfi – embættismannaræðinu.“

Ástæða er til að taka ábendingar Styrmis og Björns alvarlega. Það getur ekki gengið að völd ósýnilegra embættismanna sem enginn hefur kosið séu stöðugt aukin en ábyrgðin sitji eftir hjá valdalitlum fulltrúum sem kosnir eru á fjögurra ára fresti. Þessi þróun er óheppileg í alla staði og umfram allt þá er hún ákaflega ólýðræðisleg.