Kosning Fulltrúar þýskra jafnaðarmanna greiða atkvæði.
Kosning Fulltrúar þýskra jafnaðarmanna greiða atkvæði. — AFP
Þorgrímur Kári Snævarr thorgrimur@mbl.

Þorgrímur Kári Snævarr

thorgrimur@mbl.is

Mikilvægum áfanga var náð um helgina í að leysa úr stjórnarkreppunni sem nú ríkir í Þýskalandi: Meðlimir þýska Jafnaðarmannaflokksins greiddu atkvæði á flokksþingi í Bonn um að hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður við Kristilega demókrataflokkinn. Frá þessu er greint á vefsíðu AFP . 372 atkvæði af 642 voru greidd með stjórnarmyndunarviðræðunum. Jafnaðarmannaflokkurinn hlaut sína verstu kosningu í marga áratugi í september 2017 og flokksformaðurinn Martin Schulz hafði áður heitið því að flokkurinn myndi ekki halda áfram stjórnarsamstarfi við Kristilega demókrataflokkinn. Margir í grasrót og ungliðahreyfingu flokksins eru reiðir Schulz fyrir þessi sinnaskipti og höfðu ýtt á eftir því að flokkurinn sæti heldur í stjórnarandstöðu til að safna kröftum á nýjan leik.

Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar er mikill léttir fyrir Angelu Merkel, Þýskalandskanslara og formann Kristilegra demókrata. Framtíð hennar sem kanslari Þýskalands hefur þótt óljós frá því að fyrri stjórnarmyndunarviðræður hennar við smærri stjórnmálaflokka mistókust í nóvember. Ekki er þó tryggt enn að „hið mikla stjórnarsamstarf“ flokkanna ( Große Koalition eða GroKo á þýsku) verði endurnýjað þar sem Schulz hefur lofað því að um 440.000 almennir meðlimir Jafnaðarmannaflokksins fái að kjósa um endanlegan stjórnarsáttmála þegar hann liggur fyrir. Framtíð Merkel er því enn í höndum jafnaðarmanna.