[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is Formlegur frestur til að skila umsögnum um frumvarp um lækkun kosningaaldurs í 16 ár í sveitarstjórnarkosningum rann út sl. föstudag.

Sviðsljós

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

Formlegur frestur til að skila umsögnum um frumvarp um lækkun kosningaaldurs í 16 ár í sveitarstjórnarkosningum rann út sl. föstudag. Að beiðni Sambands íslenskra sveitarfélaga var fresturinn framlengdur til 29. janúar, eða fram yfir næsta stjórnarfund sambandsins.

Nokkrar umsagnir hafa verið birtar á vef Alþingis og af þeim má ráða að lækkun aldursins úr 18 í 16 ár er umdeild, líkt og áður hefur komið fram í umræðunni.

Frumvarpið hefur áður verið lagt fram á þingi, af Katrínu Jakobsdóttur fyrir tæpu ári, en er nú endurflutt af Andrési Inga Jónssyni, þingmanni VG, sem hefur meðflutningsmenn úr öllum þingflokkum.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að það sé lagt fram til að styðja við lýðræðisþátttöku ungs fólks og auka tækifæri þess til að hafa áhrif á samfélagið sem virkir og ábyrgir þátttakendur. Er frumvarpinu jafnframt ætlað að auka kosningaþátttöku unga fólksins en verði frumvarpið að lögum á yfirstandandi þingi mun breytingin taka gildi í sveitarstjórnarkosningum í lok maí nk. Þá myndu um 9.000 manns bætast á kjörskrána.

Í samræmi við barnasáttmála

Í nokkrum tilvikum senda sömu aðilar inn umsögn og síðast og vísa því til sinna fyrri umsagna. Má þar nefna Barnaheill og UNICEF á Íslandi en hvor tveggju samtökin styðja frumvarpið og telja það opna tækifæri fyrir börn til lýðræðisþátttöku í samfélaginu, það sé í samræmi við ákvæði Barnasáttmálans. Undir það tók Umboðsmaður barna í umsögn sinni síðast er frumvarpið var lagt fram. Fleiri jákvæðar umsagnir hafa borist, eins og frá ungmennaráði UMFÍ, ungmennaráði Sveitarfélagsins Hornafjarðar og nemendaráði Sunnulækjarskóla.

Reykjavíkurborg hefur sent inn umsögn um endurflutt frumvarp, og vísar til fyrri umsagna, bæði frá borginni og undirstofnunum eins og ungmennaráði Reykjavíkur og yfirkjörstjórn. Til viðbótar er sett fram athugasemd um að ekki sé gert ráð fyrir breytingum á 2. gr. laganna. Þar segir m.a. að kjörgengur í sveitarstjórn sé hver sá sem eigi kosningarétt í sveitarfélaginu.

„Verði frumvarpið samþykkt óbreytt leiðir það því til breyttra kjörgengisskilyrða að auki en ekki er að sjá í greinargerð með frumvarpinu að það hafi verið ætlunin. Er talið að þetta misræmi þarfnist skýringar og ef ætlunin er að breyta kjörgengisskilyrðum að auki, þarfnast frumvarpið bæði lagfæringar og nýs umsagnarferlis,“ segir m.a. í umsögn Reykjavíkurborgar.

„Í besta falli smjörklípa“

En það eru ekki allir hlynntir því að lækka kosningaaldurinn í 16 ár. Þingmaðurinn Brynjar Níelsson hefur lýst efasemdum sínum og meðal innsendra umsagna er andstöðu lýst af hálfu Íslensku þjóðfylkingarinnar.

„Hugmyndir íslenskra stjórnmálamanna um að gera börn að kjósendum eru í besta falli smjörklípa til að beina umræðunni í annan farveg, en þann að þeir sem eiga mesta sök á minnkandi kjörsókn eru stjórnmálamenn sjálfir og spillingin sem umleikur þá og flokka þeirra. Umræðuna um íbúalýðræði vilja þeir fyrir alla muni ekki taka, hvað þá að hrinda henni í framkvæmd, vegna hræðslu við vilja fólksins,“ segir m.a. í umsögn Þjóðfylkingarinnar.