Á kjörstað 711 einstaklingar kusu í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Nesinu.
Á kjörstað 711 einstaklingar kusu í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins á Nesinu. — Morgunblaðið/Eggert
Magnús Heimir Jónasson mhj@mbl.is Fimm konur eru í efstu sjö sætum á lista Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi að loknu prófkjöri flokksins sem fór fram á laugardaginn.

Magnús Heimir Jónasson

mhj@mbl.is

Fimm konur eru í efstu sjö sætum á lista Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi að loknu prófkjöri flokksins sem fór fram á laugardaginn. Ásgerður Halldórsdóttir, sitjandi bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, leiðir lista flokksins í bæjarfélaginu en hún hlaut örugga kosningu í efsta sætið með 463 atkvæði af 711 greiddum atkvæðum.

Magnús Örn Guðmundsson, viðskiptafræðingur og bæjarstjórnarfulltrúi, skipar annað sæti listans. Magnús skipaði áður 5. sæti listans og færist því upp um þrjú sæti fyrir komandi kosningar. Verður hann því að teljast hástökkvari prófkjörsins.

12 einstaklingar buðu fram

Alls gáfu 12 einstaklingar kost á sér prófkjörinu. Greidd atkvæði voru sem fyrr segir 711 og voru 26 seðlar auðir og ógildir. Talin atkvæði voru því 685. Listi Sjálfstæðisflokksins í komandi sveitarstjórnarkosningum á Seltjarnarnesi er því eftirfarandi:

Í fyrsta sæti er Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri. Í öðru sæti er Magnús Örn Guðmundsson. Í þriðja sæti er Sigrún Edda Jónsdóttir. Bjarni Torfi Álfþórsson skipar fjórða sæti listans. Ragnhildur Jónsdóttir skipar fimmta sætið, Sigríður Sigmarsdóttir situr í sjötta sæti og Guðrún Jónsdóttir í því sjöunda.