Björgvin Reynir Björnsson fæddist 18. október 1940. Hann lést 8. janúar 2018.

Útför hans fór fram 15. janúar 2018.

Ég verð ævinlega þakklátur fyrir að hafa kynnst honum Reyni og fengið að eiga dýrmætar samverustundir með honum. Nú þegar þessi yndislegi afi konu minnar og langafi barna minna er kvaddur vakna fjölmargar dýrmætar minningar sem hjálpa mér og fjölskyldunni í gegnum sársaukann sem fylgir þessari stund.

Söknuðurinn er mikill en styrkur Reynis allt fram á síðasta dag hughreystir. Sá styrkur á rót sína að rekja til staðfastrar trúar Reynis á Jesú sem breytti ekki eingöngu lífi hans heldur hafði einnig áhrif á líf þeirra sem kynntust Reyni og uppörvuðust fyrir tilstilli hans.

Þegar ég hugsa til baka standa upp úr í minningunni einlæg samtöl um trúna, um fjölskylduna og um lífið og tilveruna. Reynir bjó yfir mikilli þekkingu og djúpum vangaveltum sem gaman var að ræða. Hann var líka þeim gæðum gæddur að laða fólk að sér með auðmjúku fasi sínu og einlægum áhuga á að kynnast þeim sem á vegi hans urðu. Það var alltaf stutt í húmorinn og síðustu dagana tókst Reyni ávallt að töfra fram bros á andlitum fjölskyldunnar þrátt fyrir aðstæður og alla byrðina sem á líkama hans hvíldi.

Missirinn er mikill og öll hefðum við viljað fá meiri tíma með honum á þessari jörð. Ég hefði viljað að börn okkar Fjólu hefðu fengið að kynnast langafa sínum betur enda margt sem mátti læra af honum. En á sama tíma er ég þakklátur fyrir þann tíma sem þau þó fengu með honum og hann með þeim. Sá tími er dýrmætur.

Ég veit að sögurnar um langafa Reyni og vísurnar hans munu lifa með okkur um ókomin ár og fyrir það er ég þakklátur því í gegnum þær lifa minningarnar áfram. Minningar sem ylja jafnvel á erfiðum stundum sem nú.

Ég þakka Jesú fyrir líf Reynis og þá blessun sem honum fylgdi. Fjölskyldunni allri votta ég mína dýpstu samúð.

Davíð Örn.