Stjórnvöld í Venesúela heyja stríð gegn heilbrigðu efnahagslífi

Ástandið í Venesúela hefur ekki fengið mikla athygli upp á síðkastið, jafnvel þó að það sé á hraðri niðurleið. Hugsanlega má skrifa það áhugaleysi á þá staðreynd að hin sósíalíska stefna stjórnvalda í landinu hefur nú augljóslega gengið sér til húðar og hlýtur það einungis að vera tímaspursmál áður en þolinmæðina brestur endanlega í samfélaginu.

Lengi getur vont versnað því að nýjustu tíðindi frá Venesúela bera með sér að olíuframleiðsla landsins skreppi hratt saman. Framleiðslutölur í desember féllu um 12% frá tölunum í nóvember og olíuframleiðslan minnkaði um 29% á árinu 2017 miðað við árið 2016. Þetta er með mestu niðursveiflu á milli ára sem sést hefur í framleiðslu olíu, til dæmis meiri en Írakar upplifðu árið 2003 þegar Íraksstríðið hófst.

Engin stríðsátök geisa þó í Venesúela eða neitt annað sem útskýrt gæti þetta hrun, nema að vísu langvarandi árásir sósíalista á efnahag ríkisins með tilheyrandi skorti á viðhaldi og fjárfestingu í framleiðslutækjum. Vanrækslan verður enn meira sláandi þegar haft er í huga að olían nemur allt að 95% af útflutningi landsins.

Það er því kannski ekki að undra að hagkerfi landsins hafi dregist saman um 40% á síðustu fjórum árum eða hitt að óðaverðbólga geisi. Þá herma fregnir að um fjórðungur verksmiðja í landinu sé enn lokaður eftir jólafríið þar sem eigendur þeirra sjái að óbreyttu ekki ástæðu til þess að hefja rekstur að nýju.

Á árinu eiga að fara fram forsetakosningar í Venesúela. Nicolas Maduro, hinn handvaldi arftaki Hugos Chavez, mun þar bjóða sig fram til endurkjörs. Væri allt með felldu í stjórnarfari Venesúela mætti telja næsta öruggt að Maduro gæti farið að setja í ferðatöskur og búa sig undir flutning úr forsetahöllinni.

Staðan er hins vegar flóknari en svo. Þegar stjórnarandstaðan vann góðan sigur í síðustu þingkosningum brást Maduro við með því að gera sigurvegarana áhrifalausa með því að setja á fót ólöglegt „stjórnlagaráð“, sem tók sér svo löggjafarvald. Mótmæli gegn þeirri ákvörðun og gegn óstjórninni voru kæfð. Leiðtogar stjórnarandstöðunnar mega búa við stöðugt áreiti af hálfu stjórnvalda og hefur mörgum þeirra verið varpað í fangelsi að ósekju.

Sú von að Maduro verði komið frá með aðstoð kjörkassans er því næsta veik þó að efnahagur landsins hafi hrunið til grunna í stjórnartíð hans. Engu að síður verður að vona það besta því að þó að stundum sé sagt að fólk fái þá stjórn sem það á skilið er óhætt að fullyrða að íbúar Venesúela eiga betra skilið en framhald af sósíalisma Chavez og Madoro.