Skáldið Slitförin eftir Fríðu Ísberg fjallar um samband barns og foreldra og er „heilsteypt verk með áleitna rödd athyglisverðs ljóðmælanda.“
Skáldið Slitförin eftir Fríðu Ísberg fjallar um samband barns og foreldra og er „heilsteypt verk með áleitna rödd athyglisverðs ljóðmælanda.“
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Fríðu Ísberg. Partus, 2017. Kilja, 64 bls.

Ef eitthvað einkenndi bókaútgáfu liðins árs þá var það helst fjöldi athyglisverðra ljóðabóka sem voru gefnar út og voru verk skálda í yngri kantinum einkum áberandi. Og ein af bestu ljóðabókunum er tvímælalaust Slitförin eftir Fríðu Ísberg, heilsteypt verk með áleitna rödd athyglisverðs ljóðmælanda.

Tónninn er sleginn með tilvísun í Steinunni Sigurðardóttur: Að ná sér eftir fæðinguna, upphafsöskrið, í það fer heil mannsævi .

Bókin fjallar um samband barns við foreldrana og togstreituna við að brjótast undan valdi þeirra og áhrifum, að rjúfa tengslin; að slíta sig lausan. Og heiti bókarinnar vísar á snjallan hátt í þetta rof, í sálræn (f)örin sem myndast við þau slit og um leið förin sem myndast á kvið móðurinnar við að ganga með barnið sem krefst síðan sjálfstæðis þegar það kemst til vits og þroska.

Ljóðum bókarinnar er skipt í þrjá kafla sem bera heiti þar sem hnykkt er á tengslum móður og barns, meðgöngunni og rofinu við fæðinguna: fyrst er „Skurður“ og vísar í keisaraskurð („hún gat ekki fætt þig / þú varst sótt inn í magann // eins og kaka / sem er að brenna...); þá er kaflinn „Slitförin“; og loks „Saumar“ sem vísar í sauma á líkamsskurði og er sjúkt samband mæðgna myndgert í samnefndu ljóði: „... gröfturinn gýs upp / úr skurðinum // kvika úr kviku...“

En áður en þessir þrír hlutar bókarinnar hefjast er birt stakt ljóð, „Mamma“, þar sem dregin er upp dapurleg mynd af móðurinni sem á sér gamlar sorgir:

undir augum hennar

lækjarfarvegir

og innst við fjallsrætur

gömul ekkasog

strengd við

raddböndin

áður fyrr lékstu á þau

þegar þér sýndist

siggið á fingrunum

er næstum horfið (7)

Fríða er myndvíst skáld og sterkar og vel mótaðar myndir – margar mjög hugvitssamlegar – eru einkenni á mörgum bestu ljóðunum, beinar myndir sem myndhverfingar. Sem dæmi eru aspir sagðar „sprautaðar í jarðveginn / eins og bráðabólusetning við bílastæðum“; mamman geltir í símann „eins og bundinn hundur / sem fær ekki að koma nær“; og kveðju er kastað á einhvern sem er utan kallfæris „eins og flugu út í fisklausa á“.

Þá eru í ljóðunum vel mótaðar lýsingar á átökum og spennu milli annarsvegar foreldranna og hinsvegar barnsins og þeirra. Í einu ljóðinu ávarpar ljóðmælandinn stúlkuna og segir að hún sé orðin „varanlega aum / eftir að hafa reynt aftur // að þvo andlit foreldra þinna / framan úr þér“; foreldrunum er lýst sem „faðir þinn fálki / móðir þín rjúpa // og tólf ár á milli þeirra“; og aftur er þeim í ljóðinu „Melrakkar“ lýst sem dýrum í íslenskri náttúru sem ná ekki sambandi:

móðir þín mórauð

faðir þinn hvíthvítur

þau skiptust á

að hverfa hvort öðru sjónum

ofan í snjóbreiðuna

inn í lyngið (28)

Fyrsti og síðasti kaflinn eru áhrifaríkustu hlutar bókarinnar. Í miðkaflanum eru nokkur almennari ljóð sem eru ekki alveg jafn vel tengd meginþráðum bókarinnar og ljóðin til endanna. Þó er þar til að mynda fjallað um óöryggi manneskju og kynveru í mótun, áreiti og hættur í borginni, ögranir, tengsl og tengslaleysi. Það er komið við í Kolaportinu á laugardegi, þar sem í loftinu „liggur sætur ilmvatnsþefur / sem lyktar / eins og leiðinleg stelpa“, og í skólanum er „munurinn á myndhverfingu / og viðlíkingu, segir kennarinn // munurinn er að vera asni og asnaleg“.

Togstreitan og spennan milli foreldra og barns sem vill brjótast undan áhrifum þeirra er kjarni þessarar fínu bókar Fríðu Ísberg. Og afstaða móður og barns til valda og áhrifa birtist vel í titilljóðinu, þar sem móðirin bendir á það að dóttirin sé sín en sú berst fyrir frelsinu, fyrir því að ráða sér sjálf.

héðan

segir hún og bendir

þú komst

út úr maganum á mér

áherslurnar hristast í

höndunum

eins og rimlar

nei

segir þú

ég fór þaðan (24)

Einar Falur Ingólfsson

Höf.: Einar Falur Ingólfsson