Þjóðarlistasafn Bandaríkjanna, The National Gallery of Art í Washington-borg, hefur frestað um ótiltekinn tíma sýningu sem átti að opna í maí með verkum eftir Chuck Close, einn kunnasta listmálara samtímans. Er sýningunni frestað vegna ásakana nokkurra kvenna sem hafa sakað Close um kynferðislega áreitni þegar hann fékk þær til að sitja fyrir hjá sér.
Í samtali við The New York Times staðfesti talsmaður safnsins að sýningunni væri frestað vegna ásakananna sem komu fyrst fram í dagsljósið í desember. „Við höfum aldrei áður frestað sýningu vegna viðlíka ásakana,“ sagði talsmaðurinn. Í samtali sagði Close, sem er 77 ára og hefur verið í hjólastól í áratugi, ásakanirnar ekki sannar og að honum skildist að sýningunni hefði aðeins verið frestað um ár. „Þetta eru allt lygar,“ segir Close um ásakanir kvennanna sem segja hann hafa beðið þær um að afklæðast og hafa viðhaft klámfengin ummæli. „Ég hef ekki sofið í margar vikur út af þessu. Ég hef verið mikill stuðningsmaður kvenna og kvenkyns listamanna. Ég hef ekkert gert af mér en er samt krossfestur,“ segir hann.
The National Gallery hefur einnig frestað fyrirhugaðri sýningu á verkum heimildaljósmyndarans og prófessorsins Thomasar Roma sem á dögunum var líka sakaður um kynferðislega áreitni, af fimm konum sem voru nemendur hans við School of Visual Arts og Columbia-háskóla í New York en Roma fór á eftirlaun eftir að ásakanirnar komu fram.