Ákæra Sænski saksóknarinn Hans Ihrman (t.h.) ræðir við blaðamenn.
Ákæra Sænski saksóknarinn Hans Ihrman (t.h.) ræðir við blaðamenn. — AFP
Rakmat Akilov, 39 ára hælisleitandi frá Úsbekistan, var ákærður formlega í Stokkhólmi í gær fyrir hryðjuverk í apríl á síðasta ári þegar fimm manns biðu bana.

Rakmat Akilov, 39 ára hælisleitandi frá Úsbekistan, var ákærður formlega í Stokkhólmi í gær fyrir hryðjuverk í apríl á síðasta ári þegar fimm manns biðu bana.

Akilov hefur játað að hafa stolið flutningabíl, ekið á vegfarendur á Drottningargötu, fjölfarinni verslunargötu í Stokkhólmi, og reynt að sprengja heimatilbúna sprengju í bílnum. Í ákæruskjalinu segir að markmiðið með árásinni hafi verið að valda ótta meðal almennings og neyða stjórn landsins til að binda enda á þátttöku Svía í þjálfun hermanna sem berjast gegn Ríki íslams, samtökum íslamista, í Írak.

Réttarhöldin í málinu hefjast í héraðsdómstóli í Stokkhólmi 13. febrúar. Ákæruvaldið krefst þess að hryðjuverkamaðurinn verði dæmdur í lífstíðarfangelsi.

Í ákæruskjalinu kemur fram að hann undirbjó árásina mánuðum saman og tók upp tvö myndskeið daginn fyrir ódæðisverkið þar sem hann vottaði Ríki íslams hollustu sína. Á öðru myndskeiðanna sagði hann að kominn væri „tími til að drepa“.

Talið er að hryðjuverkamaðurinn hafi verið einn að verki. Saksóknarinn Hans Ihrman sagði á blaðamannafundi um ákæruna í gær að hryðjuverkamaðurinn hefði verið í sambandi á netinu við alls fjórtán menn sem tengjast íslömskum öfgasamtökum og haldið sambandi við tvo þeirra þar til hann framdi hryðjuverkið.

Þeir sem létu lífið í árásinni voru þrír Svíar, þeirra á meðal ellefu ára stúlka, 41 árs breskur karlmaður og 31 árs belgísk kona. Tíu aðrir vegfarendur særðust.