Fjögurra manna lokadómnefnd valdi vinningsverkin úr hópi fimmtán bóka sem tilnefndar voru til verðlaunanna í desember á síðasta ári þegar fimm bækur voru tilnefndar í hverjum flokki.

Fjögurra manna lokadómnefnd valdi vinningsverkin úr hópi fimmtán bóka sem tilnefndar voru til verðlaunanna í desember á síðasta ári þegar fimm bækur voru tilnefndar í hverjum flokki. Lokadómnefnd skipuðu Helga Ferdinandsdóttir, Hulda Proppé, Sigurjón Kjartansson og Gísli Sigurðsson, sem var jafnframt var formaður nefndarinnar.

Athygli vekur að þetta árið er meirihluti verðlaunahafa konur. Það hefur aðeins einu sinni áður gerst í sögu verðlaunanna, en það var í fyrra þegar Auður Ava Ólafsdóttir hlaut verðlaunin í flokki fagurbókmennta, Hildur Knútsdóttir í flokki barna- og ungmennabóka og Ragnar Axelsson í flokki fræðirita og bóka almenns efnis. Aðeins einu sinni í sögu verðlaunanna hafa allir verðlaunahafar verið konur, en það var árið 1994 þegar Vigdís Grímsdóttir hlaut verðlaunin í flokki fagurbókmennta og Silja Aðalsteinsdóttir í flokki fræðirita og bóka almenns.

Alls tilnefndar 15 bækur í þremur flokkum

Auk verðlaunaverksins Elín, ýmislegt eftir Kristínu Eiríksdóttur sem Mál og menning gaf út voru í flokki fagurbókmennta tilnefndar í stafrófsröð höfunda: Flórída eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur sem Benedikt bókaútgáfa gaf út; Saga Ástu eftir Jón Kalman Stefánsson sem Benedikt bókaútgáfa gaf út; Kóngulær í sýningargluggum eftir Kristínu Ómarsdóttur sem JPV útgáfa gaf út og Handbók um minni og gleymsku eftir Ragnar Helga Ólafsson sem Bjartur gaf út.

Auk verðlaunaverksins Undur Mývatns – um fugla, flugur, fiska og fólk eftir Unni Þóru Jökulsdóttur sem Mál og menning gaf út voru í flokki fræðirita og bóka almenns efnis tilnefndar Málarinn og menningarsköpun: Sigurður Guðmundsson og Kvöldfélagið 1858-1874 í ritstjórn Karls Aspelund og Terry Gunnell sem Þjóðminjasafn Íslands og Bókaútgáfan Opna gáfu út; Leitin að klaustrunum: Klausturhald á Íslandi í fimm aldir eftir Steinunni Kristjánsdóttur sem Sögufélag gaf út í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands; Líftaug landsins: Saga íslenskrar utanlandsverslunar 900-2010 í ritstjórn Sumarliða R. Ísleifssonar sem Skrudda gaf út og Sjálfstætt fólk: Vistarband og íslenskt samfélag á 19. öld eftir Vilhelm Vilhelmsson sem Sögufélag gaf út.

Auk verðlaunaverksins Skrímsli í vanda eftir Áslaugu Jónsdóttur, Kalle Güettler og Rakel Helmsdal sem Mál og menning gaf út voru í flokki barna- og ungmennabóka tilnefndar Er ekki allt í lagi með þig? eftir Elísu Jóhannsdóttur sem Vaka-Helgafell gaf út; Fuglar eftir Hjörleif Hjartarson og Rán Flygenring sem Angústúra gaf út; Vertu ósýnilegur: Flóttasaga Ishmaels eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur sem Mál og menning gaf út og Þitt eigið ævintýri eftir Ævar Þór Benediktsson sem Mál og menning gaf út.

Verðlaunaféð nemur einni milljón króna

Íslensku bókmenntaverðlaunin nema einni milljón króna fyrir hvert verðlaunaverk og eru kostuð af Félagi íslenskra bókaútgefenda. Auk þess eru verðlaunahöfum afhent skrautrituð verðlaunaskjöl og verðlaunagripir, hannaðir af Jóni Snorra Sigurðssyni á gullsmíðaverkstæði Jens; opin bók á granítstöpli með nafni verðlaunahöfundar og bókar hans.

Íslensku bókmenntaverðlaununum var komið á fót árið 1989 í tilefni af 100 ára afmæli Félags íslenskra bókaútgefenda sem stofnað var í Reykjavík í janúar 1889. Fyrsta árið var verðlaununum ekki skipt í flokka en tilnefndar alls 10 bækur. Fyrsti verðlaunahafinn var ljóðskáldið Stefán Hörður Grímsson sem hlaut verðlaunin fyrir bókina Yfir heiðan morgun . Árið eftir var tilhögun verðlaunanna breytt þannig að tilnefndar bækur skiptust í tvo flokka, fagurbækur annars vegar og fræðirit og bækur almenns efnis hins vegar. Þannig hafa verðlaunin haldist óbreytt til ársins 2013 að við bættist flokkur barna- og ungmennabóka.

Tveir höfundar hafa unnið þrisvar sinnum

Alls hafa 64 höfundar hlotið verðlaunin í gegnum tíðina, þar af 19 konur og 45 karlar. Þrír höfundar hafa hlotið verðlaunin tvisvar. Þetta eru þau Guðbergur Bergsson í flokki fagurbókmennta árin 1991 og 1997; Hörður Ágústsson í flokki fræðirita og bóka almenns efnis árin 1990 og 1998 og Silja Aðalsteinsdóttir í flokki fræðirita og bóka almenns efnis árin 1994 og 2005. Tveir höfundar hafa hlotið verðlaunin þrisvar sinnum. Þetta eru Guðjón Friðriksson í flokki fræðirita og bóka almenns efnis árin 1991, 1997 og 2003 og Andri Snær Magnason sem hlaut þau 1999 í flokki fagurbókmennta, 2006 í flokki fræðirita og bóka almenns efnis og 2013 í flokki barna- og ungmennabóka og er hann eini höfundurinn sem hlotið hefur verðlaunin í fleiri en einum flokki.

Kristín Eiríksdóttir er níunda konan sem hlýtur verðlaunin í flokki fagurbókmennta, en alls hafa 19 karlmenn hlotið verðlaunin í sama flokki.

Unnur Þóra Jökulsdóttir er sjötta konan sem hlýtur verðlaunin í flokki fræðirita og bóka almenns efnis, en alls hafa 25 karlmenn hlotið verðlaunin í sama flokki.

Áslaug Jónsdóttir og Rakel Helmsdal eru þriðja og fjórða konan sem hljóta verðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka, en alls hafa þrír karlmenn hlotið verðlaun í sama flokki.